Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:12:00 (2627)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég ætla að geyma mér þangað til í ræðu minni að fjalla efnislega um meginþátt máls hæstv. utanrrh. sem lýtur að álitamálum um auðlindaskatt og ekki auðlindaskatt. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri athugasemd eða andsvari gagnvart hlutum sem hæstv. ráðherra vék lítillega að og varða hlut Alþfl. í áhrifum á sjávarútvegsstefnununa undanfarin allmörg ár. Þetta hefur margoft komið fram áður hjá hæstv. utanrrh. og reyndar skýrara en áðan.
    Hæstv. utanrrh. og alþýðuflokksmenn hafa tilhneigingu til að eigna sér ákveðna hluti í umræðum um sjávarútvegsmál og stefnumörkun um sjávarútvegsmál á undanförnum árum, sérstaklega sameignarákvæðið yfir auðlindunum. Það fer dálítið í taugarnar á mér að hæstv. utanrrh. skuli jafnoft tala með þeim hætti og hann gerir að allar breytingar sem orðið hafa séu alveg sérstakur einkaréttur Alþfl., allar umræður um þetta sameignarákvæði þjóðarinnar á auðlindunum þegar það er söguleg staðreynd og liggur fyrir skjalfest ítrekað í þingskjölum og ræðum að Alþb. hreyfði fyrst þessum ákvæðum á Alþingi og flutti þau sjónarmið inn með brtt. á árunum 1983 og 1984. Í ræðum talsmanna Alþb. voru fyrst settar fram kröfur um og tilraunir gerðar til þess að koma inn í lög um stjórn fiskveiða þessu sameignarákvæði. Æ síðan höfum við alþýðubandalagsmenn lagt okkar af mörkum til þess að styrkja stöðu þeirra sameignarákvæða í lögum og framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Ég tel þess vegna ástæðu til að nota þetta tækifæri, herra forseti, til að ítreka þetta og get gert rækilegar m.a. með upplestri úr sögulegum heimildum ef ástæða er til. En út af fyrir sig er það svo sem eftir öðru að þeir alþýðuflokksmenn þurfi að fara í annarra manna hús til að reyna að sækja sér einhverjar fjaðrir til að skreyta sig með í þessum málum, ekki er svo glæsilegur árangurinn sem þeir hafa af eigin atbeina í þessum efnum.