Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:15:00 (2628)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er æ betur að koma í ljós sem hefur verið haldið fram, bæði við 1. umr. málsins og í þingskapaumræðu í gær að ákvæði til bráðabirgða II í núgildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins hefur ekki verið virt. Í gær kom fram að hæstv. sjútvrh. andmælti því ekki að honum hefði borið að hafa samráð við sjútvn. þingsins og helstu hagsmunasamtök við endurskoðun frv. Hann bar heldur ekki á móti því að það hafi ekki verið gert en skaut sér á bak við það að ekki væri um að ræða endurskoðun á lögunum í þeim skilningi sem ákvæðið kallar á.
    Nú hefur hæstv. utanrrh. hins vegar staðfest það svo óyggjandi sé að um sé að ræða endurskoðun á lögunum í þeim skilningi sem ætlast er til og hefur sett fram það sjónarmið að um sé að ræða fyrsta vísi að veiðileyfakerfi. Ég hlýt að vekja athygli hæstv. forseta á þeirri staðreynd að hæstv. sjútvrh. hefur ekki farið að lögum við undirbúning á málinu og framlagningu þess á Alþingi, og bið ég nú forseta forláts á að trufla samræður hans við hæstv. forsrh. Ég hlýt því að fara fram á það við hæstv. forseta að hann taki til athugunar hvort ekki beri að vísa þessu frv. frá að fengnum þessum upplýsingum og þeirri staðfestingu sem fram hefur komið.
    Ég vil að lokum benda á það að ráðherrarnir tveir, utanrrh. og sjútvrh., eru ekki sammála um eðli frv. Hæstv. sjútvrh. segir að um sé að ræða hreina ríkisfjármálaaðgerð sem standi í engum tengslum við fiskveiðistjórnunina en hæstv. utanrrh. segir að hér sé um að ræða fyrsta vísi að nýju veiðileyfakerfi.
    Ég vil að lokum spyrja hæstv. utanrrh. fyrst heimilt er að bera fram fyrirspurnir í andsvörum hvers konar veiðileyfakerfi er hann að tala um. Er það kerfi þar sem veiðileyfin eru öllum föl gegn verði, öllum heimilt að bjóða í eða er það kerfi þar sem einungis einhverjum útvöldum er gefin kostur á að kaupa sér leyfi eða er það einhver þriðja útgáfa?