Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 19:28:00 (2633)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
     Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði áhyggjur af því að ég kynni að hafa skipt um skoðun, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson gaf í skyn fyrr í dag í ræðu sinni, hvað varðaði sjávarútvegsmálin. Ég skýrði það þá að ég hefði ekki skipt um skoðun og stend enn við þá skoðun sem ég boðaði á Austurlandi í kosningunum og ég boða hér í þinginu um að það verði að gæta hagsmuna byggðanna þegar við hugsum um skipan sjávarútvegsmálanna í landinu og það er tryggt hér.
    Í öðru lagi var það hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. landbrh., sem hældi sér af því að vera á móti frjálsri sölu veiðiheimilda á markaðstorgi frjálshyggjunnar, og innleiddi sjálfur þá skipan og hafði forustu fyrir þeirri skipan sem sporgöngumaður frjálshyggjunnar á sviði landbúnaðarins, með því að gera framleiðsluréttinn í landbúnaði að frjálsri söluvöru á markaðstorginu, á markaðstorgi frjálshyggjunnar. Hann hafði þar forustu og hældi sér af. Segir svo að ég hafi verið á móti búvörusamningnum af því að ég vildi gera betur. Það er hárrétt hjá honum. Ég vildi gera betur einmitt í því að tryggja búsetuna, einmitt með því að tryggja framleiðsluréttinn heima í héraði þannig að hann yrði ekki að frjálsri markaðsvöru, frjálsri söluvöru á markaðstorgi frjálshyggjunnar. Það er slæmt að fyrrv. landbrh. skuli ekki hafa skilið það þá. En ég veit að hann er að skilja það núna

og skipta um skoðun í þessum efnum eins og mörgum öðrum sem stjórnarandstaðan hefur verið að opinbera að undanförnu.