Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 19:30:00 (2634)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hv. 5. þm. Austurl. fór auðveldu leiðina þegar hann taldi að með því einu að fullyrða að hagsmunir sveitarfélaganna væru tryggðir í þessu máli væri allt í lagi. Ég held að hv. þm. þurfi ekki að skoða hlutina lengi til þess að sjá að það er fjarstæða. Forkaupsréttarákvæði á 25% þessara veiðiheimilda á fullu markaðsverði fyrir sveitarfélög sem þegar hafa gert sig nær gjaldþrota við að reyna að halda atvinnulífinu gangandi eru auðvitað einskis virði, hv. þm. Það væri hv. þm. hollast að viðurkenna til þess að vera ekki endalaust að berja höfðinu við steininn, það fer illa með höfuðið.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. talaði um, að líkja saman fyrirkomulagi annars vegar framleiðslustjórnar í landbúnaði og hins vegar skipan mála í sjávarútvegi, þá er það býsna langsótt satt best að segja, hv. þm., og opinberar mikla vanþekkingu ef annað liggur ekki á bak við af þeirri ósköp einföldu ástæðu að það gilda allt aðrar reglur og allt önnur lögmál í sambandi við hreyfingar þessara mála innan landbúnaðarins. Þar er til að mynda framleiðslurétturinn bundinn við lögbýli og getur ekki annars staðar verið þannig að kaupsýslumenn í Reykjavík eða fjáraflamenn geta ekki sankað honum að sér. Þar er framleiðslurétturinn bundinn við jákvæða umsögn landgræðslu til að mynda sem að sjálfsögðu mun ekki leyfa óeðlilega uppsöfnun framleiðsluréttarins miðað við æskilega landnýtingu. Þar gilda fjölmargar aðrar reglur sem tryggja að með allt öðrum hætti hlýtur að fara um þessa hluti heldur en málefni sjávarútvegsins. Auðvitað þarf ekki flókin ræðuhöld til að útskýra það fyrir hv. þm. en auðveldast er kannski að útskýra það með því að sá er munur á jörðum og skipum að skipin geta siglt út úr höfninni, jafnvel hringinn í kringum landið eða til útlanda en jarðirnar eru kyrrar á sama stað og við þær er framleiðslurétturinn bundinn.