Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 13:34:00 (2635)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Að formlegri beiðni formanns þingflokks Framsfl. er hér gerð grein fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í dag um stöðu GATT-viðræðna.
    Þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi hefur skilað íslensku þjóðarbúi mikilli hagsbót á undanförnum árum. Þannig byggist greiður aðgangur okkar fyrir sjávarafurðir á Bandaríkjamarkaði á árangri fyrri viðræðna og aukin tækifæri á mörkuðum Austur-Asíu byggjast á þeim lækkunum sem væntanlegar eru vegna þessarar lotu. Eins og önnur fámenn ríki með umfangsmikla utanríkisverslun á Ísland mikið undir því að skýrar reglur gildi og öryggi ríki í alþjóðaviðskiptum.
    Alþjóðasviðskipti hafa þróast mjög í frjálsræðisátt á undanförnum árum og er það vel. Þegar við upphaf Uruguay-viðræðnanna 1986, á ráðherrafundinum í Punta del Este, var ákveðið að stefna að auknu frjálsræði í viðskiptum um landbúnaðarafurðir.
    Hið nýja heildarsamkomulag sem stefnt er að innan GATT mun ná til allra viðskipta með vörur og þjónustu og hefur verið haldið uppi viðræðum í fjöldamörgum samningahópum. Samkomulag um landbúnaðarkaflann er hins vegar forsenda þess að heildarsamkomulag náist og verður hann ræddur nánar á næstunni. Það er ljóst að á fundi viðskiptasamninganefndar GATT hinn 13. jan. nk. verður ekki gengið frá samkomulagi. Ekki er heldur gert ráð fyrir að þar fari fram eiginlegar samningaviðræður heldur verði rætt um starfsfyrirkomulag næstu vikna og mánaða.
    Verulegt svigrúm er innan tillagna Dunkels til tollverndar þeirra afurða sem helst gætu keppt við innlenda framleiðslu því að ekki er skylt að lækka tolla af hverri einstakri afurð um meira en 15% ef meðaltalið nær 36%.
    Við frekari vinnslu þessa máls á Norðurlandavettvangi og innan viðskiptasamninganefndar GATT í Genf verður lögð áhersla á eftirfarandi atriði:
    1. Unnið verður að því að fá fram þriðjungs lækkun allra tolla á sjávarafurðum til samræmis við aðra vöruflokka. Enn fremur leggur Ísland áherslu á að sambærilegar tillögur og fyrir liggja um lækkun ríkistyrkja til landbúnaðar nái einnig til sjávarútvegs.
    2. Ísland mun gera mjög strangar kröfur á sviði heilbrigðiseftirlits vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Hér kemur sérstaklega til næmi íslenskra búfjárstofna fyrir smitsjúkdómum vegna langrar einangrunar og er í þeim efnum vitnað til biturrar og dýrkeyptrar reynslu þegar á hefur verið slakað. Ísland ætlast til viðurkenningar á þessum sérstöku aðstæðum.
    3. Nauðsynlegt er að leyfilegt sé að framreikna stuðningsaðgerðir miðað við verðbólgu og verðtryggja skuldbindingar, einkanlega í tollaígildum og innanlandsstuðningi. Það er út í hött að sveiflur í verðlagi eða gengi eða skattkerfisbreytingar leiði til þess að sumar þjóðir taki á sig meiri skuldbindingar en aðrar.
    4. Íslendingum þykir miður að tillögur Dunkels varðandi niðurskurð útflutningsuppbóta skuli ná svo skammt sem raun ber vitni. Útflutningsbæturnar eru þó sá þátturinn sem hefur verst áhrif á heimsviðskipti. Í tilboði sínu bauðst Ísland til þess að draga úr útflutningsuppbótum um 65%. Íslensk stjórnvöld hafa í millitíðinni ákveðið að stefna að algeru afnámi útflutningsbóta frá haustinu 1992. Ísland mun telja það afturför ef hverfa þarf frá þeirri stefnu vegna þrýstings sem skapast af öðrum ákvæðum í samningsdrögunum. Sú aðgerð að hverfa frá útflutningsbótum er sársaukafull og hefur m.a. í för með sér verulegan samdrátt í landbúnaðarframleiðslu. Ísland kýs hins vegar að halda sig við þessa stefnu en telur að taka eigi tillit til slíkra aðgerða í samkomulaginu og telja það viðkomandi landi til góða. Af þessum sökum telur Ísland að inn í samningsdrögin ætti að koma ákvæði sem hvetji til meiri samdráttar í útflutningsbótum og veita viðurkenningu fyrir slíka aðgerð. Að dómi Íslands er álitlegast að gera þetta með eftirfarandi hætti:
    a. Ríki sem skuldbindur sig til þess að afnema allar útflutningsbætur hafi rétt til þess frá þeim tíma sem slík aðgerð kemur til framkvæmda að grípa til magntakmarkana á innflutningi á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á.
    b. Þá fjárhæð sem útflutningsbætur eru skornar niður um umfram hina almennu umsömdu prósentu, 36%, skal heimilt að reikna til góða sem sérstakt álag við tollaígildun fyrir þær vörur sem í hlut eiga og/eða sem sérstakar niðurskurðarfríar innanlandsgreiðslur sem

bætast við ,,græna boxið``.
    5. Studdar verða kröfur um meiri sveigjanleika við skilgreiningu svonefndra grænna greiðslna beint til bænda og áskilið að þær verði ekki bundnar einstaklingum heldur geti þær flust milli bænda og bújarða.
    Ekki er enn komið að því að Ísland taki bindandi afstöðu til hins nýja fyrirkomulags heimsviðskipta sem nú eru í smíðum. Verði hins vegar hægt að samræma þau sjónarmið sem taka þarf tillit til innan ramma heildarsamkomulags er óhugsandi að Ísland velji þann kost að standa utan þess. Íslendingar munu sem aðrar þjóðir áskilja sér rétt til að taka afstöðu til samkomulagsins þegar það liggur fyrir í heild í ljósi jafnvægis samningsins og gagnkvæmra hagsmuna aðildarríkja.
    Þetta er sú samþykkt sem ríkisstjórnin gerði í dag. Það er verið að fjölfalda hana og ég vona að hún komist til þingmanna sem allra fyrst.