Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 14:46:00 (2642)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það skjal sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram er vissulega spor í rétta átt og til þess fallið að nokkur sátt geti orðið um það sé stefna íslensku ríkisstjórnarinnar ef það hefur þá það gildi sem hann hefur lýst. Þó eru í skjalinu ýmis ákvæði sem

ég vil aðeins nefna. T.d. segir í 4. lið að Ísland muni telja það afturför ef hverfa þurfi frá þeirri stefnu sem hér er mótuð vegna þrýstings sem skapast af öðrum ákvæðum í samningsdrögunum, þeim sem Dunkel leggur fram. Hins vegar kjósi Ísland að halda sig við þessa stefnu, þ.e. þá stefnu sem hér á landi hefur verið mótuð í sambandi við útflutningsbætur. Við teljum þetta vera of veikt vegna þess að við teljum að Ísland eigi frekar að þrýsta á að útflutningsbætur séu afnumdar en ekki að við ætlum bara að halda okkur við þessa stefnu. Einnig er of veikt að orði komist í sambandi við hvað aðrar þjóðir geri.
    Í a-lið 4. liðar þessa skjals er einnig rætt um að hægt sé að grípa til magntakmarkana á innflutningi á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á. Aðeins eru útflutningsbætur á nýju lambakjöti og ostum að því er mér er tjáð og er þá í raun og veru aðeins verið að tala um að grípa til magntakmarkana á nýju lambakjöti og ostum. Hvað þá með allar aðrar landbúnaðarvörur sem aðrar þjóðir niðurgreiða með útflutningsbótum? Getur ekki verið að hægt sé að flytja inn nýtt lambakjöt unnið á einhvern annan hátt, reykt eða eitthvað verkað, sem yrði markaði okkar ofviða? Þetta er nokkuð þröngt að aðeins skuli eiga að grípa til takmarkana á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á.
    Ég vil einnig leggja áherslu á það, sem reyndar kom fram í umræðum utan dagskrár á þriðjudag, að þau samningsdrög, sem lögð hafa verið fram þar sem innflutningur á búvörum er leyfður, eru alls ekki á jafnréttisgrundvelli vegna þess að við erum komin miklu lengra í því að afnema niðurgreiðslur okkar og útflutningsbætur en margar þær þjóðir sem við eigum von á að fá innflutning frá. Við höfum líka náð nokkurri samstöðu um þann búvörusamning sem liggur fyrir til framkvæmda frá því í vor. Með því að samþykkja þau drög sem liggja fyrir værum við að breyta landbúnaðarstefnu okkar. Eins og ég sagði áðan stefnum við að því að afnema útflutningsbætur á næsta hausti en samkvæmt þessum samningsdrögum ætla aðrar þjóðir alls ekki að gera það.
    Ef samningsdrög yrðu samþykkt þyrftum við frekar að taka upp beina styrki. Við yrðum að taka upp meira af þeim styrkjum sem yrðu ekki framleiðslutengdir eins og það er orðað. Í því sambandi get ég nefnt t.d. jarðræktarframlög sem á fjárlögum þessa árs var samþykkt að yrðu engin á yfirstandandi ári, þannig að við yrðum líka að breyta gersamlega um stefnu í því að taka upp þá styrki sem við höfum verið að vinna að að minnka og fella niður.
    Líka má geta þess að framlag til Framleiðnisjóðs sem átti að vera 700 millj. kr. var á fjárlögum ársins lækkað í 340 millj. kr. eða um helming þannig að við höfum verið að lækka umtalsvert eða afnema beina styrki sem þyrftu aftur á móti að vera í gangi og þyrftu að vera samkvæmt fjárlögum eftir því sem samningsdrögin segja þannig að þarna eru tvö atriði þar sem við yrðum gersamlega að breyta um stefnu.
    Á undanförnum fundum, sem hafa verið haldnir úti um landið hefur líka verið oft rætt um að verð til neytenda mundi lækka. Reyndar hefur komið í ljós í umræðum að svo mun e.t.v. alls ekki fara vegna þess að þær vörutegundir sem við þurfum að halda áfram að flytja inn munu trúlegast hækka í verði, vörur eins og brauð og brauðvörur, og hafa þar af leiðandi áhrif á hækkun verðs til neytenda. Að ég tali ekki um þau áhrif á búsetu og atvinnu sem þessi samningur getur haft.
    Eins og ég sagði í upphafi tel ég að þetta plagg sem er komið fram í þinginu sé spor í rétta átt og sýni að sá þrýstingur sem myndast hefur undanfarna daga hefur ekki verið árangurslaus en ég vil ítreka að við höfum ekki séð samninginn í heild sinni. Við erum að ræða um landbúnaðarkaflann. Við höfum ekki séð GATT-samninginn í heild sinni, þann samning sem búinn er að vera í undirbúningi í sex ár. Inni í honum geta verið ótalmörg atriði og ótalmargir þættir sem við þurfum að skoða líka. Sú skýrsla sem lögð var fram rétt fyrir jólin er nánast ónothæf. Ég geri ráð fyrir að flestir hv. þm. geti verið mér sammála um að það stofnanamál sem þar er sé nánast ekki fyrir nokkurn einasta mann að skilja. Til að skilja hana þyrfti mjög mikla yfirlegu og reyndar lýsti sá, sem reyndi að fara yfir skýrsluna fyrir Búnaðarfélag Íslands og koma henni á mannamál, yfir að það væri ekki hlaupið að því. En öðru hefur ekki verið dreift af hálfu utanrrn. og engir útreikningar hafa farið fram á því hvaða áhrif landbúnaðarkaflinn sem við höfum verið að ræða, hefur á ýmis atriði í þjóðfélaginu, verð, búsetu og fleiri og fleiri þætti. Það hefur enginn útreikningur, engar tölur eða úttekt komið fram um þetta þannig að við vitum ekkert hvaða áhrif þessi samningur né allir aðrir þættir þessa samnings geta haft. Náðst hefur árangur með þessum umræðum undanfarna daga í sambandi við það að koma sjónarmiðum okkar í landbúnaðarmálum á framfæri. Ég vænti þess ef samningurinn yrði lagður fram í heild sinni væru Íslendingar betur í stakk búnir til að vita um hvað málið fjallar í heild. En ég fagna því að þetta skuli vera komið fram og að sjálfsögðu munum við fylgjast vel með framvindu næstu daga hver staða málsins verður þá.