Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:00:00 (2644)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Nú hefur komið berlega í ljós að sú þunga undiralda sem hefur verið í þessu máli síðustu daga hefur hér unnið nokkurn áfangasigur. Ég vil ekki kveða fastar að orði. En þegar áfangasigur er unninn er það oft þannig að einhver hefur orðið undan að láta og beðið í lægra haldi og það fer ekkert á milli mála hverjir það eru í þessu máli. Það er Alþfl. sem hefur orðið að láta undan. ( Gripið fram í: Þeir eru allir fjarverandi.) Virðulegi þingmaður, ég ætlaði að koma að því líka að enginn fulltrúi þess flokks er við þessa umræðu og það vekur satt best að segja verulega athygli. En það er ekkert undarlegt í því ljósi að eitt meginatriðið sem kemur fram í þessu plaggi ríkisstjórnarinnar hrekur algerlega þann málflutning sem hæstv. utanrrh. hafði hér uppi í utandagskrárumræðunni um þátt útflutningsbóta í þessu tilboði. Ég vil í öðru lagi, virðulegur forseti, benda á það að þó hér hafi unnist nokkur áfangasigur þá verðum við að halda vöku okkar. Og því miður verðum við enn að treysta á að við höfum nokkurt hald í þeim þjóðum sem við komum til með að hafa samflot við varðandi þá fyrirvara sem verða gerðir.
    Ég ætla einnig að nefna að ég vil taka skýrt fram að í mínum huga er það alveg ljóst að við hljótum áfram að verða GATT-þjóð. Þess vegna eru allir tilburðir hér innan lands í þá veru að reyna að koma því inn að talsmenn íslensks landbúnaðar séu gegn slíku af hinu illa. Og það er fátt mikilvægara fyrir framgang þessa máls en að áfram náist breið samstaða meðal hagsmunaaðila í þjóðfélaginu um að viðhalda hér öflugum landbúnaði. Ég álít að það eigi að vera hægt. Þeim sjónarmiðum á að vera hægt að vinna brautargengi ef áfram verður unnið í málinu af fullum þunga og ríkisstjórninni áfram veitt það aðhald sem hún þarf. Vegna þess að þrátt fyrir þetta skjal stendur það eftir að áfram er framkvæmdin á alþjóðasviðinu í höndum hæstv. utanrrh. Og á þeim vettvangi verður að taka á málinu á annan hátt heldur en með þeirri lausung sem verið hefur á málinu fram undir þetta.
    Ég sé mér til mikillar ánægju að hér er kominn einn fulltrúi Alþfl. í salinn þannig að umræðan leið ekki án þess að nokkur þeirra léti sjá sig.
    En að lokum, virðulegur forseti, þá legg ég áherslu á að endanlegar lyktir þessa máls ráðast ekki erlendis. Þær ráðast ekki af þeim samningi sem endanlega verður væntanlega gerður innan GATT sem ég treysti að verði í öðru formi en tilboð Dunkels. Endanlegar lyktir ráðast af framkvæmd landbúnaðarstefnunnar innan lands. Ef lyktir eiga að verða farsælar þá verður að halda Alþfl. frá þeirri stefnumótun eins og okkur er að takast í þessu máli núna.