Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:05:00 (2645)


     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Auðvitað ber að fagna því að einhver tillögugerð í þessu máli fór fram af hálfu ríkisstjórnarinnar þó það væri alllengi nokkuð óljóst í máli hæstv. forsrh. hvort hér væri um að ræða svar eða formlegan fyrirvara. Ég geri mér vart grein fyrir því

enn þá eftir ræðu hans hvort heldur var. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh.: Lítur hann á þessa tillögu ríkisstjórnarinnar sem formlegan fyrirvara í málinu? Ég vil enn fremur spyrja þar sem viðskrh. landsins er hér mættur og ann áreiðanlega íslenskum iðnaði sem var í verulegri hættu, hvort hann líti á þessa tillögu ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir sem formlegan fyrirvara í málinu. Verður hann lagður fram sem formlegur fyrirvari?
    Auðvitað er það svo að viðbrögð þjóðarinnar síðustu daga við tillögum Dunkels hafa verið harkaleg, ekki bara á meðal bænda og meðal verkalýðsfélaga heldur ekki síður meðal sveitarstjórnarmanna. Það bera bréfin í hólfum þingmanna með sér þessa síðustu daga. Menn verða nefnilega að gera sér grein fyrir því að þær tillögur sem Dunkel gerði á dögunum og hér er fjallað um mundu þýða dauðadóm fyrir landbúnaðarframleiðslu í landinu. Bændur yrðu settir í spennitreyju sem smátt og smátt mundi þrengja að þeim. Til þess að nefna dæmi ætla ég að segja ykkur frá því að nú fá bændur um 50 kr. fyrir hvern lítra af mjólk en að sex árum liðnum fengju þeir aðeins 30 kr. Launaliðurinn væri gjörsamlega horfinn. Ég vænti þess að menn geri sér grein fyrir alvöru þessa máls. Það mundi rústa, ekki bara landbúnaðinn heldur iðnaðinn og skapa hér þúsundaatvinnuleysi. Þess vegna er hér mikið alvörumál á ferðinni.
    En hér hefur það gerst að hæstv. landbrh. hefur því miður brugðist landbn. í þessu máli. Ég vil spyrja hann: Hvers vegna stóð hann ekki við það fyrirheit sem hann gaf í þessum ræðustól að kalla til landbn. og leyfa henni að fylgjast með framgangi þessa máls? Ég hélt að hann bæri það mikla virðingu fyrir þingræðinu og breyttu þinghaldi að hann vildi eiga samráð við landbn. Hvers vegna hafði hann ekki samráð við hana? Átti hann samráð við formann nefndarinnar? Þetta er mikilvægt að fá hér upplýst.
    Það er líka dálítil spurning og mikilvægt að vita hvers vegna málið stóð allt í einu núna í þessum flöskuhálsi. Hæstv. utanrrh. sagði fyrir jólin að ekkert væri að gerast í GATT-málinu. En núna laust eftir áramótin eru lokadagar. Því er mikilvægt að forsrh. upplýsi hvort hann hafði hugmynd um gang málsins úti í heimi. Ég hef utanrrh. grunaðan um svik í þessu máli. Hann hefur legið á upplýsingum til að koma málinu í þessa tímaþröng svo Íslendingar kæmu ekki sínum fyrirvörum fram.
    Ég vil þó sérstaklega fagna einu í þessum tillögum ríkisstjórnarinnar, en það er ætlun ríkisstjórnarinnar að gera nú skýlausa kröfu um það í GATT-viðræðunum að ríkin sem eiga þar aðild falli frá styrkjum í sjávarútvegi. Á því máli eigum við að hamra, það er okkar styrkur. En hér er hv. formaður utanrmn. sem er einn mesti lögspekingur þingsins, hæstv. forseti, og ætla ég að spyrja hann einnar lítillar spurningar. Álítur hann að GATT sé orðið að yfirþjóðlegri stofnun? Hér tala þingmenn með þeim hætti að menn verði annaðhvort að taka allt eða ekkert. Ég hef haldið að GATT væri með þeim hætti að þar koma þjóðirnar inn á sínum forsendum. Þær taka þátt í þessum pakka en ekki hinum. Ég vænti þess að hv. formaður utanrmn. upplýsi hvort hann álíti að GATT sé orðið að yfirþjóðlegri stofnun.