Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:10:00 (2646)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem ég taldi mig hafa áður sagt að hér er um að ræða þær athugasemdir og þá fyrirvara sem Ísland gerir við tilboð herra Dunkels sem kom fram að ég hygg fyrir aðeins 20 dögum síðan. Varðandi uppsetningu á því plaggi þá á ég von á að það verði notað eins og það er en vek athygli á því að nánast er plaggið inngangur, almennur inngangur að þessum athugasemdum sem koma síðan neðst á fyrstu síðunni og ganga síðan út plaggið. Hér er um að ræða þær athugasemdir og þá fyrirvara sem Ísland setur gagnvart því tilboði sem til umræðu er. Og ég vek reyndar athygli á því að í 2. tölulið er um að ræða í rauninni meira en fyrirvara því þar er sagt ótvírætt að Ísland muni gera mjög strangar kröfur á sviði heilbrigðiseftirlits vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum nánast hvernig sem alþjóðlegir samningar verða um það efni vegna þess að sú er sérstaða landsins að við hljótum að gera mjög strangar kröfur á sviði heilbrigðiseftirlits varðandi þessi matvæli. Ég vildi ítreka þetta vegna þess að það mun ekki hafa komið nægilega skýrt fram í mínum orðum áður með hvaða hætti við lítum á þá samþykkt sem gerð hefur verið.
    Landbrh. mun hins vegar fara út í önnur efnisatriði sem rædd hafa verið af hálfu ýmissa þingmanna. Ég vil þó taka fram vegna athugasemda hv. 6. þm. Vestf. að ég lít þannig á að heimild sú, sem við teljum að þurfi verði að vera fyrir hendi í a-lið varðandi magntakmarkanir á innflutning á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á, eigi bæði við um kindakjöt og mjólkurafurðir almennt, ég skil það svo.