Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:39:00 (2653)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði fallið frá orðinu og taldi ekki þörf á því að taka hér til máls eftir að hæstv. forsrh. hafði í þrígang lýst því mjög rækilega að hér væri um fyrirvara að ræða af hálfu Íslands. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því alveg skýrt og afdráttarlaust að auðvitað hlyti þingið að telja gilda þá lýsingu sem hæstv. forsrh. gaf á eðli samþykktar ríkisstjórnarinnar.
    Nú gerðist það hins vegar að hæstv. viðskrh. kvaddi sér hljóðs á nýjan leik og ítrekaði þann fyrri skilning sinn og gaf í skyn að það væri samhljóða skilningur ríkisstjórnarinnar allrar að hér væri ekki um fyrirvara að ræða heldur eignöngu athugasemd, ábendingar og áhersluatriði. Ég vil minna á það að í upphafi þessarar umræðu var óskað eftir því að hæstv. forsrh. tæki fram, áður en umræðan héldi áfram, hvort hér væri um fyrirvara að ræða. Það gerði hæstv. forsrh. og umræðan hefur þess vegna --- þar til hæstv. viðskrh. kvaddi sér hljóðs --- verið á þeim grundvelli og sú breiða samstaða, sem fram kom í umræðunni, byggði á því. Nú er það ekki hægt, virðulegi forseti, að ljúka þessari umræðu nema hæstv. forsrh. komi í stólinn á nýjan leik og endurtaki alveg skýrt með tilliti til þess sem hæstv. viðskrh. hefur sagt í tvígang að það sé niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þetta skjal verður á mánudag kynnt sem athugasemdir og fyrirvarar, svo ég noti óbreytt orðalag hæstv. forsætisráðherra Íslands, gagnvart tilboði Dunkels.