Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 19:09:00 (2662)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hef ekki dregið í efa rétt hæstv. sjútvrh. til frumkvæðis í því að leggja fram breytingar á þeim lögum sem hér um ræðir. Málið stendur hins vegar um það hvort uppfylla eigi það skilyrði sem er í bráðabirgðaákvæði laganna að hafa samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og hagsmunaaðila. Það er náttúrlega grundvallarmunur á því

hvort um tímabundar breytingar á lögunum er að ræða eða hvort þau eigi að gilda til frambúðar.
    Hins vegar verð ég að segja að það er þó bót í máli og ég fagna því, þó það breyti ekki eðli málsins að mínum dómi, að nú á að hafa samráð við sjútvn. um framhaldið. Ég tel rétt að taka upp þann sið eins og lögin gera ráð fyrir. Hins vegar harma ég að forsætisnefnd þingsins skuli ekki sjá ástæðu til þess að gæta virðingar þingsins að þessu leyti og fá álitsgerð um þetta til að taka af öll tvímæli. Ég hefði talið myndarlegt að gera það en því miður hafa þau svör fengist af forsetastóli að það muni ekki verða gert og forsætisnefnd muni þegja þunnu hljóði um þetta.