Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 19:12:00 (2664)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka skýr og vönduð svör hæstv. sjútvrh. Að mínu mati er það sannarlega ekki honum að kenna að verið er að þjarma að byggðarlögum landsins. Samt sem áður held ég að ljóst sé að það sem verið er að gera með þessu frv. getur stefnt einstaka byggðarlögum í hættu. Ég vil að það komi fram í framhaldi af ræðu hæstv. ráðherra að ég spurði sérstaklega um þetta atriði í starfi nefndarinnar og spurði þá aðila sem ég taldi að gætu sagt mér sína skoðun á því hvort það varnaglaákvæði, sem nú er í lögum um Hagræðingarsjóð, skipti máli eða ekki. Og nefndin fékk skýr svör. Við fengum skýr svör um að þetta varnaglaákvæði þætti varða miklu og þar af leiðandi skipti það máli jafnvel þótt við vonum öll að ekki þurfi til þess að koma að þau væru nýtt. Ég byggi mitt álit ekki síst í ljósi þessa.
    Hvernig á að leysa vanda byggðanna? Þar er vísað til brtt. meiri hluta sjútvn. en ég hef áður rakið mjög ítarlega hvers vegna þær virka ekki. Það er vegna þess að það vantar þetta varnaglaákvæði um ókeypis framsal tímabundið á veiðiheimildum til byggðarlaga.
    Í öðru lagi tek ég undir það að rekstrargrundvöllur skiptir auðvitað mestu máli í útgerð. Við erum líka að tala um undantekningartilvik og til hvaða aðgerða er hægt að grípa þar. Í þriðja lagi var vísað hér á Byggðastofnun en ég held að það hafi komið afskaplega skýrt fram í þessari umræðu að þar er ekki verið að vísa á neitt sérlega mikið.