Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 19:16:00 (2666)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Væntanlega er verið að vísa til þess að ætlunin er að ljúka fundinum kl. 7.30 en ekki takmarka umræðuna ef þannig stæði á að henni væri ekki lokið. Ég a.m.k. gef mér þann skilning á orðum virðulegs forseta því annað þætti mér miður ef þeir siðir væru upp teknir að tekið væri til við að takmarka umræður.
    Ég mun ekki halda mönnum mikið lengur enda komið föstudagskvöld og satt best að segja ekki sanngjarnt gagnvart þeim ágætu hv. þm. sem hafa þó tekið þátt í þessum umræðum hér í dag að reyna á þolrif þeirra. Það væri nær ef maður næði til hinna sem ekki hafa látið sjá sig hér í dag að segja yfir þeim nokkur vel valin orð. En ég ætla ekki að fara að leika hér hlutverk prestsins sem skammar þá fáu í söfnuðinum sem sækja kirkjuna í staðinn fyrir hina sem heima sitja. Það er auðvitað, herra forseti, heldur dapurlegt hversu dauflegt skuli vera hér undir þessari annars mikilvægu umræðu um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. En með tilliti til ýmissa aðstæðna, þá ætla ég ekki að lengja mikið mál mitt hér við þessa 2. umr. málsins sem senn er sjálfsagt lokið.
    Ég hafði borið fram spurningar til hæstv. félmrh. en þannig stendur á hjá hæstv. ráðherra að hún þurfti að hverfa héðan af lögmætum ástæðum um sexleytið og ég hef því fallist á að geyma mér að hlýða á svörin þangað til við 3. umr. en ég vil taka það mjög skýrt fram að þá ætlast ég líka til þess að þeim þætti málsins, sem ég vakti athygli á og spurði hæstv. félmrh. um, verði gerð rækileg skil, þ.e. staða sveitarfélaganna í þessu sambandi og möguleikar þeirra til þess að leika það hlutverk sem þeim er ætlað í brtt. hv. meiri hluta sjútvn. og boðað hefur verið sem sérstakt bjargráð byggðarlaganna í þessu sambandi. Ég fór yfir það og rökstuddi rækilega að ég teldi ekki í því felast þá möguleika til farsældar í þessum efnum sem ýmsir hefðu talið. Ég ætla ekki að endurtaka það hér en áskil mér allan rétt til að gera það rækilega við 3. umr. málsins.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um það og nú síðast af hæstv. sjútvrh. hvort brotin eða ekki hefðu verið þau samráðsákvæði í ákvæði til bráðabirgða sem gildandi lög um Hagræðingarsjóð geyma. Út af fyrir sig er það svo að sjálfsagt geta báðir aðilar haldið sinni skoðun fram með nokkrum rökum. Sumir hafa talið að þessi ákvæði hafi skýlaust verið brotin og það hafi verið óeðlilegt af hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn að undirbúa ekki þessar viðamiklu og varanlegu á breytingar málinu að höfðu því samráði sem lögin gera ráð fyrir. Svo er hitt viðhorfið sem hæstv. sjútvrh. heldur fram að ekki sé hægt að svipta einstaka ráðherra réttinum til þess að flytja breytingar á lögum með slíkum ákvæðum. Út af fyrir sig er það að sjálfsögðu ekki ætlunin, enda ekki hægt að taka lagasetningarvaldið af því þingi sem situr hverju sinni. Alþingi getur ævinlega breytt öllum lögum ef því býður svo við að horfa samkvæmt settum reglum og hver sem er sem sæti á á Alþingi eða fer með ráðuneyti getur lagt slíkt til.
    Við erum komin inn á það ár þegar endurskoðun laganna á að ljúka og í ljósi þess að hér er lögð til varanleg grundvallarabreyting á þessum lögum og þeim nánast kollvarpað í sinni upprunalegu mynd eru slík samráðsákvæði orðin lítils virði ef þau eiga ekki að gilda við svona aðstæður. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig að því til hvers sé þá verið að setja lögin. En eitt ætla ég að segja við hæstv. sjútvrh., og það tengist fleiru í sambandi við þetta mál, að ég er alveg sannfærður um að það hefði verið skynsamlegra og hyggilegra að standa þannig að málum hvort sem hæstv. ráðherra var það lagalega ótvírætt skylt eða ekki. Mér þykir hvað verst við þennan málatilbúnað að hér er andstaða nánast allra málsaðila og bullandi ágreiningur að þessu sinni við alla hagsmunaaðila sem oft hafa átt erfitt með að sameinast um sjávarútvegsmál en náðu þó a.m.k. saman í þetta sinn um að vera allir sem einn á móti þessari breytingu. Ekki einu sinni forsvarsmenn iðnaðarins sem hafa sent hæstv. ríkisstjórn stuðningsyfirlýsingar um ólíklegustu mál undanfarna daga og verið einu stuðningsmenn hennar í þjóðfélaginu á undanförnum sólarhringum hafa gengið fram til stuðnings í þessu máli og hafa þeir þó látið sér nánast ekkert óviðkomandi þegar þeir hafa reynt að verja hæstv. ríkisstjórn undanfarna daga. Nei, allir hagsmunaaðilar og fjölmargir talsmenn á Alþingi hafa lagst hart gegn þessum breytingum og við þær aðstæður er auðvitað sérstaklega óheppilegt, hæstv. sjútvrh., að mínu mati að standa þannig að málum til viðbótar að hafa ekki einu sinni uppfyllt formskyldur varðandi þetta samráð sem mælt er fyrir um í lögum. Ég tel að staða hæstv. sjútvrh. væri lítið eitt betri --- og væri hún þó slæm eftir sem áður --- ef hann hefði a.m.k. sýnt þá lágmarksskynsemi í þessum efnum að sýna mönnum þetta og uppfylla formskyldur um samráð. Hæstv. ríkisstjórn hefur lofað því og farið um það fögrum orðum að hún hyggist móta sjávarútvegsstefnu sem hvað víðtækust sátt og samstaða geti tekist um.
    Það er nú furðulegt að sennilega er ég sá maður á hv. Alþingi sem hefur oftast gripið niður í þessa hvítu bók og vakið athygi manna á henni. Ætlun mín er að reyna að halda hæstv. ríkisstjórn við efnið og minna hana á handbókina sem a.m.k. ráðherrarnir bera einhverja ábyrgð á þó að þingflokkar stjórnarliðsins hafi afneitað henni. Í hvítu bók ríkisstjórnarinnar stendur að ríkisstjórnin hyggist móta sjávarútvegsstefnu sem nái jafnt til veiða og vinnslu og markaðsmála og hamli gegn ofveiði og treysti byggð. Litlu síðar stendur, með leyfi forseta: ,, . . .  þannig að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál.`` Herra forseti og hæstv. sjútvrh., er það glæsileg byrjun hjá hæstv. ríkisstjórn til að ná víðtækri sátt í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál að keyra málið í gegn í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna? Látum það nú vera þó að gengið sé yfir hana, hún er þó alltént í minni hluta. En til viðbótar er farið fram í algerri andstöðu við alla hagsmunaaðila sjávarútvegsins, og það á því ári þegar þessari endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar á að ljúka eftir að það er meira að segja gengið í garð. Tíminn er því talinn í mánuðum sem til stefnu er til að ljúka endurskoðuninni og birta þessa sjávarútvegsstefnu sem getur sameinað alla þjóðina eins og lofað er í stjórnarsáttmálanum. Nú segði ég fúslega að þó að ríkisstjórnin næði ekki nema eins og hálfa leið í þeim efnum því að þetta er svo göfugt og háleitt markmið þá þætti það árangur miðað við þá sundrung sem því miður hefur ríkt í þessum efnum.
    Herra forseti. Þessi byrjun er að mínu mati alveg hrakleg og lofar ekki góðu. Ég segi með fullri einlægni, af því að ég vil ræða þessi viðkvæmu og miklu hagsmunamál okkar þannig og af einurð, að það veldur mér vonbrigðum að svo er af stað farið. Réttast er að viðurkenna að það hefur gengið illa, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu á hverjum tíma heldur yfir höfuð að ná þjóðinni saman um farsæla sjávarútvegsstefnu. Það hefur gengið illa og átök hafa verið í þjóðfélaginu og ágreiningur hefur verið um sjávarútvegsmál milli flokka og innan flokka og milli hagsmunaaðila og milli landshluta undanfarin ár. Ég held að við, hv. þm., ættum að viðurkenna það. Iðulega hafa flokksbönd og stjórnar- og stjórnarandstöðubönd brostið þegar sjávarútvegsmál hafa verið leidd til lykta á Alþingi á undanförnum árum og svo kann enn að fara. Þess vegna er það að mínu mati þannig að þeim mun mikilvægara er að reyna að hafa þingið allt samstiga í því að ræða og afgreiða þessi mál. Því miður var ekki þannig að verki staðið og það er engin afsökun í þeim efnum þó að mönnum hafi einhvern tíma á undanförnum árum orðið fótaskortur í þessu efni og sjálfsagt er rétt hjá hæstv. núv. sjútvrh. að forveri hans sé ekki alsaklaus í þessum efnum. En það breytir bara engu, hæstv. sjútvrh., varðandi framtíð hæstv. sjútvrh. í þessum efnum og þau verk sem hann þarf að vinna. Það er framtíðin og nútíðin sem skipta þrátt fyrir allt öllu máli. Þess vegna eru mér þetta óneitanlega nokkur vonbrigði og ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína vegna þess að ég tel að að mörgu

leyti hafi hæstv. sjútvrh. staðið sig langskást af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar og verið á köflum sá eini þeirra sem maður hefur bundið tilteknar vonir við. Enda læðist að mér sá grunur að hæstv. sjútvrh. sé ekki að öllu leyti sjálfrátt í þessu máli. Kannski er ljótt að bera slíkt upp á menn en ég alla vega vil fá að trúa því að honum hafi verið tiltölulega nauðugt að fara fram með þetta óþurftarmál í þinginu og reyna að knýja það í gegn.
    Því miður er það ekki svo að sú röksemd hæstv. sjútvrh. dugi ein og sér að með þessu náist fram stórauknar hafrannsóknir. Ef svo væri að hver einasta króna af þessum 525 millj. gengi til stóraukinna verkefna til framtíðar litið í hafrannsóknum þá held ég að ýmsir mundu bregðast öðruvísi við en svo er því miður ekki. Það er staðreynd eins og ég sýndi fram á með því að bera saman fjárlög yfirstandandi árs og þess sem nýliðið er að umsvif hafrannsókna í heild sinni mun aukast um nokkra tugi milljóna á þessu ári. Yfirgnæfandi hlutur þessara 525 millj. kr. sem lagðar verða á sjávarútveginn síðari hluta næsta árs ganga því ósköp einfaldlega til þess að draga úr greiðslum ríkissjóðs í þessu skyni sem áður hafa kostað hafrannsóknir í landinu svo til að fullu.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra til að standa við þau orð mín að tefja ekki hér, þannig að menn komist nú heim til náttstaðar síns og geti tekið sér næringu og slakað á eftir erfiðan dag. Það voru aðeins tvö atriði sem ég vil segja að lokum. Hið fyrra er að það svar sem hæstv. sjútvrh. kynnti hér varðandi það mál sem ég hreyfði í gær um mögulega saltsíldarsölu til Sovétríkjanna olli mér nokkrum vonbrigðum. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. ríkisstjórn hefði afgreitt það mál frá sér með gersamlega hlutlausum hætti til Landsbankans, bókstaflega enga skoðun eða engan vilja haft í þeim efnum. Það veldur mér vonbrigðum vegna þess að ég tel að hæstv. ríkisstjórn hefði með fullum rétti getað látið skoðun skoðun sína og vilja sinn og áhuga sinn koma fram í málinu án þess að hún væri þar með að segja Landsbankanum fyrir verkum. Það er allt annað mál. Að sjálfsögðu gat hæstv. ríkisstjórn sagt að ef Landsbankinn treysti sér til þess og teldi forsendur fyrir hendi þá teldi hún mjög æskilegt að af þessari sölu gæti orðið og vildi fyrir sitt leyti styðja það og stuðla að því því að til slíks getur að sjálfsögðu komið að atbeini ríkisstjórnar, utanrrn. og viðskrh. geti skipt máli í slíkum tilvikum án þess að verið sé að segja bankanum fyrir verkum með hina bankalegu eða viðskiptalegu hlið málsins. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum ef ég hef skilið hæstv. sjútvrh. rétt að algert viljaleysi eða afstöðuleysi hafi birst í svari ríkisstjórnarinnar. Ég ítreka að ég hefði viljað sjá eindreginn stuðning og vilja íslenskra stjórnvalda koma fram til þess og yfirlýsingu um að þau fyrir sitt leyti vildu greiða fyrir því að af þessum viðskiptum gæti orðið a.m.k. í einhverjum mæli.
    Að lokum, herra forseti, þó e.t.v. sé ástæðulaust að hafa hér uppi spádómsorð þar sem hér er einungis 2. umr. málsins á ferðinni ætla ég engu að síður að lýsa þeirri tilfinningu minni að þó svo að þetta frv. kunni að verða afgreitt og gert að lögum á næstu dögum eða sólarhringum séum við ekki búnir að sjá fyrir endann á málinu. Ég er sannfærður um að þegar nær dregur hausti og það á að fara að koma þessum ósköpum til framkvæmda eins og hér er boðað og selja veiðiheimildir og taka af íslenska sjávarútveginum í gegnum sölu á þessum veiðiheimildum 525 millj. kr. þá mun heilmikið að ganga á. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en þessar hugmyndir um fénýtingu veiðiheimildanna og greiðslur til rekstrar Hafrannsóknastofnunar fást á þann hátt ná fram að ganga með farsælum hætti. Það er ég bara gersamlega sannfærður um. Það mun þá bíða þess tíma eða nær Alþingi starfar að reynslan verður komin á þetta að við ræðum það ítarlega. E.t.v. verður það gert við 3. umr. málsins en ég er sannfærður um það að eins og þetta er hér í pottinn búið þá mun þetta hvorki ganga fram þegjandi og hljóðalaust né vandræðalaust.
    Að lokum, herra forseti, finnast mér óþarfar athugasemdir ýmissa hv. vina minna

í stjórnarandstöðunni sem með mér eru þar sem þeir hafa ítrekað talað um það að þeir stytti mál sitt og vilji nú ekki tala lengur í þetta eða hitt skiptið vegna þess að þá yrðu þeir e.t.v. sakaðir um málþóf. Slíkt er með öllu ástæðulaust að vera að hafa á orði því að engum hefur dottið slíkt í hug í umræðum um þetta mikla og brýna hagsmunamál. Auk þess er það svo með a.m.k. þann sem hér talar að ég er alveg tilbúinn til að viðurkenna það að ég hef engan áhuga á að greiða fyrir þessu máli. Ég er á móti því. Ég tel það vitlaust og skaðlegt og þar með hef ég góða samvisku gagnvart því að nýta mér til hins ýtrasta minn þingræðislega rétt til þess að reyna að koma í veg fyrir að það sé afgreitt. Það heitir ekki málþóf. Það er bara að hafa skoðun.