Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 13:41:00 (2667)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Við umfjöllun málsins höfum við sem sitjum í stjórnarandstöðu lýst því yfir að við gætum stutt tvær breytingar á gildandi lögum, þ.e. að hækka úreldingarstyrki úr 10% í 30%, en það kemur fram í 1. mgr. 5. gr. Því vildi ég óska eftir sérstakri atkvæðagreiðslu um þann lið þannig að við getum komið þeim vilja okkar á framfæri. En í 7. gr. laganna, sem fellur þá brott ef 5. gr. verður samþykkt, eru ýmis atriði sem við erum ekki samþykk að falli út og því munum við greiða atkvæði gegn 5. gr. að öðru leyti. Við munum eingöngu styðja 1. mgr. 5. gr.
    Í öðru lagi, svo að ég þurfi ekki að biðja um orðið aftur, höfum við jafnframt lýst því yfir að við getum stutt ákvæði til bráðabirgða sem varðar það að úthluta heimildum Hagræðingarsjóðs til flotans í heild sinni á fiskveiðiárinu 1991--1992 og ég vildi þá biðja um sérstaka atkvæðagreiðslu um ákvæði til bráðabirgða sem ég tel í sjálfu sér að þurfi ekki, en við höfum jafnframt lýst því yfir að við styðjum þá brtt.