Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 13:49:00 (2668)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Við höfum í stjórnarandstöðunni haldið uppi gagnrýni á það hvernig staðið er að þessu frv. Hæstv. sjútvrh. er skylt að láta endurskoða lög þessi fyrir árslok 1992. Það er verið að gera með því sem hér fer nú fram en það stendur í lögum frá 5. maí 1990 að við þá endurskoðun skuli hafa samráð við sjútvn. Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi. Nú hefur það verið upplýst að það hefur ekki verið gert og við höfum vísað því til forsetadæmisins að það væri upplýst hvað forsetadæmi þingsins hefði um þetta að segja. Það má segja að forsetadæmið hafi vísað því frá sér en ég óska eftir því að áður en þessu máli verður vísað til 3. umr. fái sjútvn. tækifæri til þess að athuga lagalega hlið þessa máls. Ég er ekki að halda því fram, virðulegi forseti, að það breyti mjög miklu í þessu máli, en ég tel mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hvaða þýðingu ákvæði sem þessi hafa þegar meiri hluti Alþingis samþykkir þau. Ef þau eru ekki virt, þá þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir hvaða afleiðingar það hefur því að annars er tilgangslaust fyrir Alþingi að setja slík ákvæði inn í lög. Því held ég að það sé mjög heppilegt, bæði fyrir Alþingi og framkvæmdarvaldið að fram fari athugun á gildi slíkra ákvæða, ef í lög eru sett.