Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 14:01:00 (2672)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um atkvæðagreiðslu) :
     Frú forseti. Þessi umræða er nú býsna kynleg og ég hef velt því fyrir mér á grundvelli hvaða ákvæða í þingsköpum hún fer fram. En fyrst spurt er að því hér hvaða gildi slík ákvæði til bráðabirgða hafa eins og hér er verið að fjalla um, þá liggur það alveg í augum uppi. Gildi þessara ákvæða er það að Alþingi felur framkvæmdarvaldshöfum að sjá um að fyrir tiltekinn tíma skuli endurskoðun lagaákvæða hafa farið fram. Og í þessu falli stendur svo á að í bráðabirgðaákvæði laganna er gert ráð fyrir því að endurskoðuninni skuli lokið fyrir lok þessa árs. Ég hef margsinnis lýst því yfir að henni verður lokið fyrir árslok og þá verður Alþingi gerð grein fyrir niðurstöðunni. Þeta er alveg kristaltært. Ákvæðið felur ekki annað í sér og hindrar ekki að gerðar séu breytingar á lögunum í millitíðinni. Það liggur í augum uppi og er mjög skýrt og á ekki að þurfa að deila um það hér.
    Ég ítreka enn spurningu mína um það: Undir hvaða ákvæði þingskapa fara þessar umræður fram? Hér hófst umræða undir yfirskini þingskapaumræðu. Ég vissi ekki betur en atkvæðagreiðsla væri hafin um það að vísa þessu máli til 3. umr. og það hlýtur að vera eðlilegt og þinglegt að sú atkvæðagreiðsla fari fram. Hitt er svo allt annað mál ( SJS: Er sjútvrh. orðinn forseti hér?) hvort þingnefndin komi saman og fjalli um þetta mál. Um það ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir og eðlilegt að slíkri málaleitun sé komið á framfæri en það á ekki að tefja eða hindra að þingið ljúki atkvæðagreiðslu sem er hafin.