Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 14:04:00 (2674)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Ég hygg nú að það skipti ekki öllu máli hvort þessar athugasemdir eru gerðar undir liðnum athugasemd við atkvæðagreiðslu eða í atkvæðagreiðslu og litið svo á að atkvæðagreiðsla standi og þá sé eftir sá hluti hennar að vísa málinu til 3. umr. eða hvort líta megi svo á að þar sé um sjálfstæðan hluta atkvæðagreiðslunnar að ræða og menn geti þar af leiðandi fengið orðið um þingsköp inn á milli atkvæðagreiðslna um þá liði. Ég hygg að hæstv. forseti hafi í öllu falli litið svo á að eðlilegt væri að gefa mönnum hér færi á að gera athugasemdir þó svo það færi greinilega í taugarnar á hæstv. sjútvrh. og fer það í skapið á honum eins og fleirum hæstv. ráðherrum að hafa ekki fengið í kaupbæti við ráðherradóminn stjórn þingsins í sínar hendur prívat og persónulega eins og við höfum séð stundum í tilburðum hæstvirtra ráðherra til að aðstoða forseta vorn. En ég treysti forseta fullkomlega til að stjórna fundum hér og tel að hún geri það alveg með sóma án nokkurrar aðstoðar frá hæstv. ráðherrum. Reyndar er það yfirleitt til bölvunar held ég þegar þeir fara að kássast í hlutunum.
    En ég spurði hæstv. sjútvrh. eða hv. starfandi formann sjútvn. hvað fælist í því ákvæði brtt. meiri hlutans að fella samráðsákvæðið brott og hefur hæstv. sjútvrh., samanber hvernig hann talaði hér áðan, ekki áttað sig á því að verkamenn ríkisstjórnarinnar í meiri hluta sjútvn. eru einmitt að leggja til við þingið að fella í brott úr lögunum þetta sama samráðsákvæði. Ég held að ástæða væri til að fá það skýrt í atkvæðagreiðslunni hvað fyrir mönnum vakir í því efni. --- Ég óska eftir því að hæstv. heilbrrh. svari því undir hvaða lið hann biður um orðið. ( Heilbrrh.: Um atkvæðagreiðslu.)