Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 14:14:00 (2678)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það er fremur óvenjulegt eins og menn þekkja að ekki sé um það samstaða að vísa málum áfram milli umræðna hér á þingi. En það er einnig mjög óvenjulegt, sem betur fer, og sjaldgæft að réttmætum óskum og rökstuddum um það að mál verði skoðuð, þau gangi aftur til nefnda eða athuguð sé óvissa sem upp kemur af einhverju tagi, að sé hafnað eins og hér gerðist, því miður. Og það sem verra var að mínu mati var að fyrir því var enginn rökstuðningur færður af hálfu hæstv. forseta því ég kalla það

ekki rökstuðning þær upplýsingar í málinu að hæstv. heilbrrh. sé læs þó það kunni að vera fréttir fyrir einhvern. Ég harma það að hæstv. forseti vor skyldi a.m.k. ekki rökstyðja sína niðurstöðu um það að verða ekki við óskum um að málið væri skoðað og ég geri það m.a. á grundvelli þess að við erum að móta hér nýjar hefðir og nýjar reglur í vinnubrögðum vegna afgreiðslu lagafrumvarpa í einni málstofu þingsins.
    Ég hef tekið það svo að það væri nánast sjálfsögð ósk þingmanna og ég tala nú ekki um nefndarmanna í viðkomandi fagnefnd að fá mál til skoðunar í nefndum jafnvel milli umræðna eða innan umræðu ef ástæða þætti til með hliðsjón af því að nú er ekki fyrir hendi hin tvöfalda deildaskipting og tvöfalda nefndarvinna til þess að sía úr óvissuatriði og fullvinna mál. Þeim mun meiri eru vonbrigði mín að hæstv. forseti skuli ekki láta svo lítið a.m.k. að rökstyðja sína niðurstöðu.
    Ég fékk enn fremur engin svör frá talsmönnum meiri hlutans, hvað fyrir þeim vakir með því að leggja til að fella niður ákvæði til bráðabirgða II í gildandi lögum um samráð við þing og hagsmunasamtök sem og í raun endurskoðunarákvæði laganna.
    Með vísan til alls þessa og til að mótmæla því sem hér hefur gerst, þá greiði ég ekki atkvæði þó það sé óvenjulegt, en það ber að skilja sem mótmæli mín við þessari málsmeðferð.