Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 13:32:10 (2686)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns beina þeim tilmælum til þingflokksformanns Alþfl. að hann sitji hér og hlýði á mál mitt ef þess er nokkur kostur því ég hef hugsað mér að beina nokkrum orðum til þeirra alþýðuflokksmanna og höfða þá bæði til fortíðar og nútíðar.
    Virðulegi forseti. Það gengur seint og illa að loka fjárlagadæmi ríkisstjórnarinnar og er ekki að

furða meðan nýjar en því miður afar illa unnar tillögur til ráðstafana í ríkisfjármálum streyma stöðugt inn á borð efh.- og viðskn. Síðustu daga hefur það gerst að eftirlitssveitum ríkisstjórnarinnar eða sérsveitum ríkisstjórnarinnar eftir því hvað maður vill kalla það var breytt í tilsjónarmenn og töluverðar breytingar eru lagðar til á tillögum um skerðingu ellilífeyris. Þessa stundina er líklega að ljúka fundi í efh.- og viðskn. þar sem endanlega er verið að kynna þessar brtt. um skerðingu ellilífeyris.
    Niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar í skólamálum kalla á æ harðari viðbrögð í þjóðfélaginu og í dag verður haldinn mótmælafundur BHMR, BSRB og Kennarasambands Íslands, auk þess sem heilbrigðisstéttirnar eru að átta sig á hrikalegum niðurskurði til heilbrigðismála að ekki sé minnst á stöðug mótmæli Sambands ísl. sveitarfélaga sem við í efh.- og viðskn. fáum mikið að heyra um.
    Nokkrum dögum fyrir jól gaf ég ríkisstjórninni það hollráð að gera hlé á þingstörfum þannig að stjórnin gæti gengið frá sínum málum, stjórnarflokkarnir komið sér saman um aðgerðir og starfsmenn ráðuneytanna samið tillögur í ró og spekt. Það var ekki gert heldur var fjárlögunum þjösnað í gegn, m.a. með tillögum um flatan niðurskurð sem enginn veit hvernig á að framkvæma. Þing var síðan kallað saman upp úr áramótum án þess að stjórnarflokkarnir væru tilbúnir að sleppa bandorminum lausum, enda skepnan sú orðin hin ófrýnilegasta og ætti að sendast til meindýraeyðis í stað þess að egg hans dreifist um samfélagið allt. Þá hafa lánsfjárlögin fyrir árið 1992, sem hér eru til umræðu og eiga að loka ramma ríkisfjármálanna, hækkað um tæpan milljarð síðan þau voru lögð fram þannig að nú er gert ráð fyrir lántökum upp á tæpa 14 milljarða kr.
    Að öllu óbreyttu hefði verið ástæða til að ræða lánsfjáráform og fyrirhugaðar ríkisábyrgðir rækilega, en þau tíðindi gerðust í haust er leið að hugmyndum um byggingu álvers var frestað og þar með fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum sem þýðir að heildarlántökur opinberra aðila lækka verulega frá því sem fyrirhugað var.
    Þá er ástæða til að gera enn og aftur athugasemd við það að Lánasjóði ísl. námsmanna, Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna skuli vísað út á hinn almenna lánamarkað og þar með búinn til vaxandi vandi þessara sjóða sem þurfa að glíma við verulegan vaxtamun sem svo aftur veldur því að æ minna verður eftir til að þjóna því fólki sem sjóðirnir eiga að sinna.
    Við kvennalistakonur höfum lýst þeirri skoðun okkar að ríkið eigi að leggja fram fé til námsmanna rétt eins og til annarra arðbærra fjárfestinga á vegum ríkisins. Námslán eiga ekki að vera eins og hver önnur fjárfestingarlán á frjálsum markaði. Þau koma ekki aðeins þeim einstaklingum sem þau taka til góða heldur samfélaginu öllu.
    Það stendur til að hætta lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins þannig að hann mun fjara út smátt og smátt en á honum hvíla þó enn verulegar skuldbindingar.
    Hvað varðar Byggingarsjóð verkamanna tel ég nauðsynlegt að leita að nýjum fjármögnunarleiðum fyrir þann sjóð, t.d. að huga enn á ný að húsnæðissparnaði ungs fólks sem tengist sjóðnum og að leita samráðs við samtök launafólks um leiðir til að styrkja sjóðinn. Að mínu dómi er sú starfsemi sem Byggingarsjóður verkamanna annast mjög mikilvæg og því afar brýnt að staða þessa sjóðs sé tryggð og að alþingismenn og samtök launafólks þurfi ekki að standa í baráttu á hverju einasta ári til að reyna að tryggja framlög til hans.
    Ég nefndi áðan að við hefðum fengið að sjá mikið af illa undirbúnum tillögum stjórnarflokkanna, en í frv. til lánsfjárlaga eins og það var lagt fram upphaflega var að finna í 7. gr. dæmi um tillögu sem boðar svo fádæma miðstýringu, forræðishyggju og ráðherravald að jafnvel stjórnarliðinu í efh.- og viðskn. var nóg boðið og kalla þeir þó ekki allt ömmu sína þegar stuðningur við tillögur ríkisstjórnarinnar er annars vegar, enda var þessi tillaga dregin til baka. Hún gekk út á það að ráðherra einn gæti ákveðið hvort lántökur samkvæmt lögunum ættu sér stað innan lands eða á erlendum markaði. Það átti að vera á valdi ráðherra að ákveða þetta. Það hlýtur að teljast eðlilegt að stjórnum viðkomandi sjóða og stofnana sé treyst til að leita hagstæðustu lána og mjög óeðlilegt að ráðherra hafi þar hönd í bagga. Ríkisvaldið á fremur að beita þeim hagstjórnartækjum sem það ræður yfir til að skapa sem hagstæðust kjör á innlendum markaði ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að beina lántökum inn á innlendan markað. En svona er nú stutt í miðstýringaráráttuna og forræðishyggjuna þrátt fyrir öll stóru orðin sem ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa haft um þessar hugmyndir. --- Forseti, mér þykir vera mikill skarkali í hliðarherbergi. ( Forseti: Forseti er sammála hv. þm. um það og vildi óska eftir að starfsmaður mundi stilla til friðar þar í hliðarherbergi.) Það virðist vera að komast á friðsamleg sambúð þarna í hliðarherberginu þannig að ég ætla þá að reyna að gera tilraun til að halda áfram máli mínu.
    Við umræður um lánsfjárlögin dugar ekki það eitt að rýna í sjálft frv. heldur verðum við að skoða allt það sem umhverfis er, heildarmyndina, til að geta áttað okkur á því hversu raunhæfar þessar lánsfjáráætlanir ríkisins eru. Mig langar til að velta aðeins vöngum yfir þeim boðskap sem ríkisstjórnin hefur sent þjóðinni, fólkinu í landinu, með sínum aðgerðum og sínum áformum sem fram undan eru.
    Ef við veltum því fyrst fyrir okkur hvernig boðskapur ríkisstjórnarinnar og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar horfa við fjölskyldum þessa lands og þá ekki síst konum blasir fyrst við sá gífurlegi niðurskurður á framlögum til velferðarkerfisins sem við höfum séð og tóku gildi með fjárlagafrv. Annars vegar er um að ræða verulegan niðurskurð og þá á ég bæði við beinan niðurskurð á framlögum og síðan þann flata niðurskurð sem ákveðinn var og þar að auki gjaldtaka af jafnt skólafólki í háskólanámi sem sjúklingum og

ýmsum öðrum hópum. Fjölskyldurnar hafa orðið að þola og standa frammi fyrir skerðingum af ýmsu tagi. Hér var samþykkt skerðing á barnabótum sem lækkuðu hjá meðaltekjufólki og þeim sem höfðu þaðan af meira. Í þeim tillögum var ekki neitt tillit tekið til þess hvað það kostar fólk að sækja sér tekjurnar, hvað það kostar fólk að eiga börn og þurfa að kosta gæslu þeirra. Við erum hér að fást við skerðingu á ellilífeyri og örorkulífeyri þar sem miðað er við rétt rúmlega 66 þús. kr. Ég ætla ekki að gera þá skerðingu að umræðuefni nú, við fáum nægilegt tækifæri til þess þegar bandormurinn kemur aftur til umræðu, en að mínum dómi er þar á ferðinni mál sem því miður verður til þess að auka misrétti meðal gamals fólks en síst af öllu til að draga úr því. Ég ætla reyndar að koma aðeins að tekjuskerðingu á eftir.
    Nemendur í skólum eru enn einn hópurinn sem verður fyrir árásum af hálfu ríkisins. Við stóðum lengi í þeirri meiningu að það yrðu fyrst og fremst nemendur í framhaldsskólum og háskólum sem fengju að gjalda fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar, en nú blasir við að grunnskólanemar fá sinn niðurskurð líka. Nú stendur til að fjölga í bekkjardeildum og skera niður kennslu til að ná hinum flata niðurskurði. Þar á ofan bætist svo almenn kjaraskerðing sem orsakast af þeim gjöldum sem verið er að leggja á fjölskyldurnar í landinu og það er merkilegt hvernig einstakir hópar verða fyrir barðinu á ríkisstjórninni. Ef við tökum sjómenn sem dæmi geta sumir þeirra lent í fjórfaldri kjaraskerðingu. Það er í fyrsta lagi vegna þess aflasamdráttar sem fram undan er og ég ætla ekki að kenna ríkisstjórninni um hann, hún fær lítt við það mál ráðið enn sem komið er. En þar fyrir utan er skerðing sjómannaafsláttar, skerðing barnabóta og loksins skerðing ellilífeyris. Það á örugglega eftir að koma mjög við sögu í umræðunni hversu illa skerðing ellilífeyris bitnar á sjómönnum og hversu misjafnlega hún bitnar á sjómönnum. Ég reikna ekki með því að það séu margir sjómenn sem orðnir eru 60 ára og eldri með börn á sínu framfæri sem eru 18 ára og yngri, en þó kann það að vera, en mér finnst afar merkilegt og sérkennilegt hvernig ríkisstjórnin leyfir sér að ráðast aftur og aftur á sama hópinn.
    Þá ber að nefna þá sérstöku launaskerðingu sem opinberir starfsmenn verða fyrir vegna hins flata niðurskurðar, en það liggur fyrir að m.a. í skólakerfinu og þá einkum í grunnskólunum á ríkisstjórnin ekki annarra kosta völ en að ráðast á laun kennara og annars starfsfólks vegna þess að það er sá hluti sem fellur á ríkið af kostnaðinum við grunnskólakerfið. Eins og ég nefndi áðan verður þetta gert með niðurskurði á kennslu og fjölgun nemenda í bekkjum auk þess sem hugmyndir eru uppi um að velta kostnaði yfir á sveitarstjórnir með akstri á nemendum milli skóla þar sem hægt verður að koma slíkri ,,hagræðingu`` við.
    Ef við lítum aðeins nánar á þessa launaskerðingu opinberra starfsmanna, þar sem meiningin er fyrst og fremst að draga úr yfirvinnu, eru langsamlega stærstu vinnustaðirnir skólarnir og sjúkrastofnanir. Ég get nefnt ráðuneytin líka sem eru ef maður horfir á þau sem heild nokkuð fjölmennur vinnustaður. Og hverjir vinna í þessum stofnunum? Þar eru konur í miklum meiri hluta. En það vill svo sérkennilega til að það eru fyrst og fremst karlar sem vinna mesta yfirvinnu og því má reikna með því að þessi launaskerðing bitni að nokkru leyti á þeim, en það gildir reyndar ekki um skólana og sjúkrastofnanirnar þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Ég á eftir að sjá hvernig t.d. hjúkrunarfræðingar bregðast við sem margar hverjar vinna mikla yfirvinnu og það oft ekki vegna þess að þær vilji það heldur einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem er inni á deildunum þar sem skortir mjög vinnukraft.
    Til viðbótar öllu þessu á að senda á opinbera starfsmenn sérstaka tilsjónarmenn samkvæmt hugmyndum ríkisstjórnarinnar ef þörf krefur. Ég ætla af velsæmisástæðum ekki að nefna það heiti sem þessir starfsmenn eru farnir að ganga undir, ég er svo kurteis og vel uppalin kona að ég get ekki látið þetta út úr mér, en það er alveg augljóst að með þessari aðferð, eins og hún er hugsuð hjá ríkisstjórninni, að senda tilsjónarmenn inn á opinberar stofnanir er verið að fara öfuga leið. Ég held að það væri miklu nær að leita samstarfs við starfsmenn. Ef vilji er til að spara í opinberum stofnunum er miklu nær að leita samstarfs við starfsmenn þessara stofnana vegna þess að þeir vita oftast best hvar og hvernig er hægt að spara. Við fengum einmitt eitt slíkt dæmi í efh.- og viðskn. þar sem sagt var frá því að þáv. yfirmaður hagsýsludeildar fjmrn. skrifaði bréf til Ríkissjónvarpsins, sem þá var reyndar eina sjónvarpsstöðin, og leitaði eftir samstarfi við starfsmenn þeirrar stofnunar um að spara og hagræða. Starfsmenn tóku mjög vel í þetta og fundu árangursríkar leiðir til sparnaðar. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. fjmrh., sem heldur um ríkispyngjuna, að hann hugleiði frekar þá leið en að fara að senda út þessa svokölluðu tilsjónarmenn. Að mínum dómi er það einfaldlega móðgun við ríkisstarfsmenn eins og þessar tillögur hafa verið settar fram. Ég sé að hæstv. fjmrh. hristir hausinn. Ég tek undir það, sem ég held að flestir hv. þm. geri, að oft getur verið nauðsyn á því að taka á málum og það af krafti, en eins og þetta hefur verið sett fram af ríkisstjórninni, það er sami brussugangurinn í hverju málinu á fætur öðru, er einfaldlega verið að storka fólki. Það er verið að storka starfsmönnum ríkisins. Það er miklu frekar ástæða til að reyna að bæta samskipti ríkisvaldsins og starfsmanna ríkisins en að egna fólk með þessum hætti. Það eru aðrar leiðir færar.
    Ég er búin að nefna nokkra þætti sem snúa að fjölskyldunum í landinu, fólkinu í landinu. Þar vil ég nefna eitt til viðbótar sem er atvinnuleysi. En allt þetta tengist að sjálfsögðu ramma fjárlaganna og stöðu ríkissjóðs. Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar er reiknað með 2,6% atvinnuleysi á næsta ári, en samkvæmt þeim fréttum sem kynntar voru í gær reyndist atvinnuleysi í desember vera komið í 2,4% af áætluðum mannafla. Og svo að ég vitni nú í Morgunblaðið, með leyfi forseta, segir þar: ,,Hafði atvinnuleysisdögum fjölgað um 22 þús. frá nóvember eða um 50% í desember.``
    Þetta eru mjög alvarleg tíðindi að mínum dómi og ég óttast að þetta boði að atvinnuleysi verði

töluvert meira en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir í sínum spám. Við hljótum að spyrja: Hvað kostar þetta atvinnuleysi þjóðfélagið? Hvað kostar þetta ríkissjóð? Hvað kostar þetta í vellíðan eða vanlíðan viðkomandi einstaklinga? Hvað mun þetta kosta í félagslegum vandamálum? Á endanum er það heilbrigðiskerfið sem situr uppi með þann kostnað þannig að við stöndum frammi fyrir því rétt einu sinni að menn verða að horfa á málin í víðara samhengi. Ég ætla að koma að því síðar að ég tel einmitt í tengslum við þessi lánsfjárlög að ríkisstjórnin hefði átt að fara aðrar leiðir og þá ekki síst til að koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Til að draga þetta saman standa fjölskyldur þessa lands ósköp einfaldlega frammi fyrir annars vegar kjaraskerðingu og hins vegar verri félagslegri þjónustu. Þessi kjaraskerðing getur orðið það mikil að fólk hreinlega standi frammi fyrir því að missa vinnuna. Þetta þýðir aukið misrétti milli þegnanna. Við sjáum að fram undan eru átök á vinnumarkaði og það verður slegist hér um hverja stöðu sem losnar, þ.e. ef ríkið ætlar að leyfa að það verði ráðið í þær stöður sem losna. Þetta þýðir aukið félagslegt og andlegt álag á fjölskyldurnar. Það er nú einu sinni svo að það eru konur sem sitja uppi með ábyrgðina á velferð fjölskyldunnar þannig að mín meginniðurstaða af þessu er sú að konur muni fara mjög illa út úr þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, bæði fjárhagslega, félagslega og andlega. Þar á ofan bætast svo við tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem líka þýða þrengri möguleika fyrir konur til að afla sér menntunar vegna hertrar endurgreiðslu og þeirrar staðreyndar að konur hafa lægri laun í okkar samfélagi en karlar. Þannig sé ég ekki betur en konur þurfi verulega að taka saman höndum til að hnekkja aðgerðum þessarar ríkisstjórnar.
    Ef við snúum okkur svo að því hvernig þessar aðgerðir horfa við atvinnulífinu, þá blasir við að það er stefna þessarar ríkisstjórnar að draga úr fyrirgreiðslu til atvinnufyrirtækja í landinu. Nú eiga fyrirtæki að standa sig. Það á að draga úr hinu svokallaða sjóðasukki, það á hagræða eins og það er kallað. Vissulega er margt til í þessu. Það þarf víða að hagræða, það þarf víða að sameina fyrirtæki, en það þarf líka að meta tilvikin, það þarf líka að skoða málin þar í víðara samhengi, horfa á afleiðingarnar fyrir byggðirnar í landinu. Eins og málið blasir við okkur eru framlög til Byggðastofnunar skorin niður og Byggðastofnun verður verr í stakk búin til að aðstoða fyrirtæki en áður, enda er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.
    En það sem er kannski hvað alvarlegast varðandi atvinnulífið er vaxtapólitíkin, vaxtastefnan sem hér ríkir. Ég tek undir það sem fram kom í umræðunum í gær þar sem verið var að lýsa því sem talsmenn bankakerfisins hafa sagt og tjáð okkur sem sitjum í efh.- og viðskn. Þeir telja því miður að það sé heldur lítið útlit fyrir almenna vaxtalækkun, raunvaxtalækkun ef ríkið ekki beitir sínum tækjum. Nú kom fram í fréttum í gær að ríkið hefur lækkað vexti á spariskírteinum ríkisins í áskrift um 0,2%. Sú lækkun kann að koma einhverri hreyfingu á málin, en þetta er náttúrlega ákaflega lítið miðað við þá háu vexti sem við horfum fram á. Það er alveg ljóst og eru allir sammála um það að atvinnulífið getur ekki þróast og blómstrað við þessa hávaxtastefnu, það gengur ekki.
    Það var bent á það af talsmönnum bankakerfisins að hér á landi er ótrúlega lítill munur á þeim vöxtum sem eru á ríkispappírum og almennum vöxtum. Yfirleitt er það þannig í hinum svokallaða vestræna heimi að þarna á milli er nokkur munur vegna þess að ríkispappírar eru ríkistryggðir og þar af leiðandi ættu þeir að vera betri söluvara á markaðnum, en það er spurning hvort hinir háu vextir á ríkispappírum bera vott um að fólk hafi heldur lítið traust á pappírum ríkisins. Þetta er verulegt umhugsunarefni. Þetta kom fram á fundi í efh.- og viðskn. hjá talsmönnum bankakerfisins.
    Það er fróðlegt að geta þess og mér þótti það forvitnilegt sem fram kom hjá talsmönnum Seðlabankans að þeir gera nokkuð af því að kanna hugarfar fólksins í landinu. M.a. höfðu þeir látið spyrja að því hvað fólk teldi að hér væri mikil verðbólga. Það kom í ljós að fólk hélt að það væri miklu meiri verðbólga í landinu en reyndist vera. Það sama gildir eflaust um ríkispappírana að fólk heldur kannski að kjörin á þeim séu verri en þau eru eða að pappírarnir hafi ekki það gildi sem þeir hafa í raun. Ég held að það væri mikil ástæða til að velta fyrir sér slíkum spurningum varðandi húsbréfakerfið. Ég ímynda mér að almenningur haldi að kjörin þar séu einhver allt önnur en þau eru í raun og veru því að öðruvísi er eiginlega ekki hægt að skýra þessa gífurlegu eftirspurn eftir húsbréfum þar sem fólk er að tapa stórum upphæðum í stað þess að halda að sér höndum.
    Ef við skoðum atvinnulífið aðeins betur hlýtur sú staðreynd að blasa við að sá samdráttur sem ríkið boðar, bæði í framkvæmdum og sinni þjónustu, hlýtur að hafa áhrif í atvinnulífinu og kemur niður á mörgum fyrirtækjum. Það þýðir aftur minni tekjur ríkisins, minni verklegar framkvæmdir. Minni vinna í landinu þýðir líka minni tekjur ríkisins af sköttum. Þannig vakna margar spurningar um áreiðanleika þess sem ríkið er að gera, bæði áreiðanleika fjárlaganna og það hve þessi lánsfjáráætlun, sem hér er til umræðu, lánsfjárlögin, er raunhæf. Ég get skotið því að hér að ég tel að víða í fjárlögunum séu sértekjur ríkisstofnana ofáætlaðar þannig að þegar upp verður staðið stöndum við eflaust frammi fyrir mun meiri halla en gert er ráð fyrir og þörf fyrir meiri lántöku en gert er ráð fyrir nema tilsjónarmennirnir bjargi þessu öllu saman.
    Að lokum vil ég geta þess varðandi vinnumarkaðinn að eins og við vitum eru kjarasamningar fram undan og þar er staðan einfaldlega sú að það halda allir að sér höndum. Það eru allir að bíða eftir öllum. Og eins og bankamennirnir orðuðu það á fundi í efh.- og viðskn. liggur í loftinu að það verði samið um

vexti í þessum kjarasamningum. Það er kannski eitt af því sem sýnir okkur hversu einkennilegt þetta ástand er, þar sem frjálsir vextir eiga að vera í gildi, ef menn fara svo að setjast niður og semja um vexti. Þetta er dæmi um hversu sérkennilegt ástand ríkir í hagkerfinu.
    Hvaða leið er það sem verið er að fara? Við höfum velt því margoft fyrir okkur í öllum þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað í haust. Á hvaða leið er þessi ríkisstjórn? Þeir gáfu á sínum tíma út hvítu bókina svokölluðu, Velferð á varanlegum grunni. Það er margt sem hægt er að lesa út úr henni þó að margt sé óljóst, en þegar á heildina er litið er ljóst að ríkisstjórnin öll er orðin hásetar á galeiðunni hjá Adam Smith og að hér er verið að hverfa frá ýmsum þeim grundvallarsjónarmiðum sem hafa verið í gildi, bæði hvað varðar velferðarkerfið í heild og í afstöðunni til atvinnulífsins. Hér hafa um áratuga skeið verið í gildi hugmyndir um að tryggingar ættu að vera fyrir alla gegn greiðslu iðgjalda, en nú er verið að gera meira og meira af því að tekjutengja á þeim forsendum að það sé ekki réttlátt að borga hátekjufólki út úr tryggingunum. En það vakna ýmsar spurningar varðandi þessa tekjutryggingu. Við getum t.d. spurt að því hvort það sé ekki verið að kippa grundvellinum undan velferðarkerfinu. Fólk borgar sína skatta sem að miklu leyti renna til skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins, en ákveðinn hópur í samfélaginu nýtur ekki góðs af þessu sama kerfi.
    Önnur röksemd gegn þeirri tekjutengingu sem er svo mjög vaxandi er sú að reynslan hefur sýnt okkur að tilhneigingin er sú að miða við mjög lágar upphæðir hvort sem það er varðandi vaxtabætur eða þann ellilífeyri sem á að fara að skerða og það er varla liðið árið fyrr en byrjað er að krukka í þessar bætur og þessa tekjutengingu þannig að kjörin einfaldlega versna. Ég held í rauninni að það sé miklu betri leið að vinna þetta allt út frá skattakerfinu og miða fyrst og fremst við persónuafslátt og þær reglur sem þar gilda. Við erum sem sagt að horfa upp á hagfræði markaðshyggjunnar og hagfræði einkavæðingarinnar. Það er hagfræði sem segir að velferð einstaklinganna sé ekki á ábyrgð samfélagsins alls, eins og hér hefur reyndar verið í gildi frá því á landnámsöld, og það eigi ekki að vera að borga fyrir þjónustu sem maður notar ekki sjálfur. Það hefur margoft komið fram í umræðunum að þeir sem sitja nú á ráðherrastólum virðast löngu hafa gleymt því að fólk er að borga þetta með sínum sköttum. Þess vegna er óréttlátt að innheimta aukin gjöld fyrir hluti sem fólk er að borga með sínum sköttum.
    Ég fæ ekki betur séð en hér sé að taka gildi hagfræði sem hefur verið ríkjandi víða í Evrópu og Bandaríkjunum á undanförnum árum og var hér fyrir nokkrum árum kennd við hið hæfilega atvinnuleysi. T.d. í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum hefur hreinlega verið tekin sú stefna að það sé hin rétta hagfræði að atvinnuleysi sé á bilinu 7--10%. Menn tala núna um uppsveiflu í danska hagkerfinu og þar sé allt atvinnulífið blómstrandi á meðan þar er milli 7 og 10% atvinnuleysi. Mér þætti gaman að vita hvernig þessi blómsturtíð blasir við því atvinnulausa fólki sem þar er og öllum þeim félagslegu vandamálum sem þar er við að glíma.
    Eins og við vitum eru það Sjálfstfl. og Alþfl. sem standa að þessum breytingum og það þarf kannski enginn að verða hissa á því að Sjálfstfl. skuli ríða á vaðið. Þetta er í samræmi við hans sögu og hans stefnu í 60 ár eða svo, í anda Jóns Þorlákssonar, en það kemur okkur kannski á óvart hversu skyndilega þessi stefna náði yfirhöndinni í Sjálfstfl. því að þar höfðu nú ýmis önnur viðhorf verið við lýði. Eins og ég hef rakið áður úr þessum ræðustól á Sjálfstfl. ekki minnstan hlut að þeirri miðstýringu og forræðishyggju sem hér hefur ríkt og hann hefur fordæmt svo harðlega á haustmánuðum.
    En það sem kemur þó meira á óvart er afstaða Alþfl. og sú stefnubreyting sem orðið hefur hjá Alþfl. Nú er það svo að ég verð að viðurkenna að mér er frekar hlýtt til Alþfl., ekki síst vegna hans sögu fyrstu áratugina, og mér er ansi hlýtt til núverandi formanns þingflokksins, enda er hann gamall vinur minn. (Gripið fram í.) Hann heyrir þetta. Ég hlýt því að velta dálítið vöngum yfir því hvert Alþfl. er kominn þó að það sé ekki mitt að segja honum fyrir verkum. En við sem störfum í pólitík og erum að velta fyrir okkur pólitískri þróun í okkar samfélagi hljótum að skoða hvað er að gerast í þessum flokki og hvers megi vænta af honum. Hér situr prestur á forsetastóli og ég ætla að leyfa mér að predika aðeins yfir Alþfl. og minna hann ögn á fyrir hvað hann stóð áður fyrr. (Gripið fram í.) Já, það er langt síðan, enda ætla ég að fara aftur til ársins 1934. ( VE: Ætlarðu að fara aftur til þess þegar Hjörleifur var í Austur-Þýskalandi?) Nei, ég ætla að fara enn lengra aftur í tímann. Ég ætla reyndar að tengja þetta því hvernig Alþfl. stendur í dag.
    Árið 1934 vann Alþfl. sinn stærsta kosningasigur. Hann fékk þá tæplega 22% atkvæða og fékk tíu þingmenn. Hann fékk reyndar 22% atkvæða 1978, fékk aðeins betri kosningu, en kosningasigurinn 1934 var á grundvelli stefnuskrárinnar sem ég hef hér þar sem Alþfl. gerði áætlun fyrir árin 1935--1939 og setti fram sína hugmyndafræði um hvernig hann vildi sjá þjóðfélagið. Hér er nefnilega margt ákaflega merkilegt sem vekur spurningar um hugmyndaþróun á þessari öld, en eins og við vitum á sér stað mikil gerjun í hugmyndafræði þessa mánuðina og þessi árin og við hljótum að spyrja um ýmsar þær grundvallarhugmyndir sem hér hafa verið hafðar í heiðri og kannski ekki síst vegna þess sem fram undan er og hvaða afstöðu við ætlum að taka til velferðarkerfisins og þeirrar grundvallarspurningar hvort við eigum að gæta bræðra okkar og systra.
    Árið 1934 var helsti andstæðingur Alþfl. Sjálfstfl. Þeir höfðu nýlega ást við í bæjarstjórnarkosningum þar sem Alþfl. lýsti því yfir, það kemur fram í stefnuskránni, að það væri opinbert kosningasamband milli nasista og sjálfstæðismanna, bæði í Reykjavík og Vestmannaeyjum. ( ÖS: Við þurfum að taka vel á því.) Einmitt. Í þessari fjögurra ára áætlun . . .  (Gripið fram í.) Einmitt, hér er bent á mikilvæga staðreynd. Fortíðin skiptir okkur miklu máli. Árið 1934 ríkti kreppa í landinu og ég ætla að taka fyrst fram að ég er ekki að gera neina samlíkingu á því ástandi sem þá ríkti og því sem nú er fram undan heldur er ég fyrst og fremst að fiska eftir ákveðnum hugmyndum. ( Fjmrh.: Hvað er á dagskránni?) Það eru lánsfjárlög og það kemur að þeim, þetta kemur nefnilega allt lánsfjárlögunum við, hæstv. fjmrh. Við erum að tala um þann ramma sem lánsfjárlögin, fjárlögin og bandormurinn mynda um ríkisfjármálin og umhverfið og það sem innan þess ramma er skiptir allt máli fyrir það hvernig og hvort stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Þess vegna skiptir saga Alþfl. frá 1934 líka máli í þessu samhengi.
    Ég ætla að rifja upp nokkur atriði úr stefnuskrá Alþfl. frá 1934 til að brýna nú formann þingflokksins og aðra alþýðuflokksmenn, sem hér eru ekki margir, til að standa fast á hugmyndum um velferðarkerfið. Hér segir á bls. 7, með leyfi forseta:
    ,,Starfsskrá Alþýðuflokksins, 4 ára áætlun fyrir næsta kjörtímabil, er:
    1. Að hrundið verði þegar í stað framkvæmd með löggjöf og framtaki hins opinbera auknum atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun er gerð sé til ákveðins tíma (4 ára) og hafi það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar með aukinni kaupgetu og neyslu hinna vinnandi stétta og auknum markaði innan lands.
    Stofnuð sé ráðgefandi nefnd sérfróðra manna, þingi og stjórn til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt tillögur um hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, . . .  ``
    Þarna er sem sagt að finna ákveðna heildarsýn hjá Alþfl. Hann reynir að horfa á þjóðfélagið í heild og undirstrikar hér mikilvægi þess að menn geri áætlanir. En því miður skortir enn mjög mikið á að svo sé.
  ,,2. Að vinna að því að tekjum ríkissjóðs verði varið að svo miklu leyti sem unnt er til aukinnar atvinnu í landinu, einkum til stuðnings aukinnar framleiðslu (vega- og brúargerðir, hafnar- og lendingarbætur, rafvirkjanir, verksmiðjur til að vinna úr framleiðsluvörum landsmanna o.s.frv.).``
    Þetta atriði vil ég benda á sérstaklega vegna þess sem ég ætla að koma að hér á eftir varðandi það sem ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að gera og eigi að gera.
  ,,3. Að vinna að því að vísindin verði tekin í þjónustu atvinnuveganna til lands og sjávar með því að gefa hæfustu mönnum sem besta aðstöðu til rannsókna og leiðbeiningastarfs.
    4. Að allar landbúnaðarframkvæmdir séu skipulagðar með tilliti til ræktunarskilyrða og auðveldra flutninga afurða á markað (nýbýlahverfi, samyrkjubyggðir). Verksmiðjur séu þegar unnt er settar þar sem fjölbyggðar sveitir eru í grennd svo að bændum verði af þeim sem mestur stuðningur vegna aukins markaðar landbúnaðarafurða.
    5. Að taka fyrir alla þjóðjarðasölu, tryggja ríkinu forkaupsrétt að öllum jörðum er ganga kaupum og sölum og setja lög um erfðafestuábúð leiguliða á ríkisjörðum með hagkvæmari skilmálum fyrir þá en sjálfseignarbændur eiga nú almennt við að búa.``
    Ég ætla að hlaupa yfir nokkra punkta. Ef ég man rétt er þetta í 36 atriðum þannig að ég ætla ekki að lesa upp alla þessa stefnuskrá.
    Í ellefta lagi --- og taki nú fjmrh. sérstaklega eftir ( Fjmrh.: Eigum við ekki frekar að koma í andaglas?):
    ,,Að vinna að almennri lækkun vaxta, m.a. með lækkun innlánsvaxta.
    12. Að vinna að því að styrkt verði með ríkisábyrgð eða beinu fjárframlagi útgerðarfyrirtæki bæja og sveitarfélaga eða samvinnufélaga, sjómanna og verkamanna, svo og að smáútvegsmönnum verði tryggð hagkvæm lán til atvinnureksturs.
    13. Að vinna að sem fullkomnastri landhelgisgæslu á bátamiðum landsmanna og auknum öryggisráðstöfunum til slysavarna. . . .
    15. Að breyta skatta- og tollalöggjöfinni þannig að tollum verði létt af nauðsynjum, en beinir skattar að sama skapi hækkaðir af háum tekjum og stóreignum.
    16. Að afla ríkinu aukinna tekna með arðvænlegum ríkisfyrirtækjum í verslun, framleiðslu og iðnaði.
    17. Að vinna að því að dregið verði úr beinum, óþörfum eyðsluútgjöldum ríkissjóðs, að strangt eftirlit verði haft með rekstri opinberra stofnana og skyldar ríkisstofnanir settar undir sameiginlega stjórn að svo miklu leyti sem unnt er. Launagreiðslur ríkisins og opinberra stofnana verði samræmdar til hagsbóta fyrir láglaunamenn.
    18. Að koma í veg fyrir að ríkisstofnanir, svo sem bankar, tóbakseinkasala, síldarverksmiðjur, ríkisprentsmiðja og aðrar slíkar stofnanir, verði lagðar niður eða fengnar í hendur einstökum mönnum, en í stað þess verði þær efldar á allan hátt og öðrum bætt við.
    19. Að gera fjárlögin svo úr garði að þau verði sem réttust mynd af fjárhagsástæðum ríkissjóðs þar sem hvorki séu faldar væntanlegar tekjur né fyrirsjáanleg útgjöld.
    20. Að vinna að hallalausum búskap ríkissjóðs með því meðal annars að reisa rammar skorður við því að stjórnin geti eytt tekjum hans umfram áætlun fjárlaga eftir eigin geðþótta (fjárlagadómur er úrskurði um allar greiðslur ríkissjóðs).
    21. Að ákveða með löggjöf að tekjuafgangur góðæra verði lagður til hliðar til aukinnar atvinnu og

framkvæmda á krepputímum, sbr. frumvarp Alþýðuflokksins um jöfnunarsjóð ríkisins. . . .
    23. Að koma á fullkomnum alþýðutryggingum á þeim grundvelli sem lagður er með frv. því um almennar alþýðutryggingar sem þingmenn Alþýðuflokksins hafa borið fram á undanförnum þingum (sjúkra-, slysa-, örorku-, elli- og atvinnuleysistryggingar).
    24. Að koma á ríkiseinkasölu á lyfjum til aukins öryggis og lækkunar á lyfjakostnaði. . . .
    26. Að reisa rammar skorður við áfengisnautn í landinu með róttækri áfengislöggjöf og ríflegum styrkjum til bindindisfræðslu og annarrar bindindisstarfsemi með því markmiði að útrýma sem fyrst öllu áfengi úr landinu.
    27. Að breyta framfærslulöggjöfinni og endurbæta hana meðal annars með því að gera allt landið að einu framfærsluhéraði og að styrkja sérstaklega ekkjur og einhleypar mæður til að framfæra börn sín.
    28. Að efla byggingarsjóði verkamanna og stofna til sambands þeirra á milli til sameiginlegra lánsútvegana, að koma á sameiginlegum innkaupum á byggingarefni til verkamannabústaðanna, svo og til húsabyggingar- og landnámssjóðs, og að finna leið til að reisa viðunandi hús fyrir sveitabændur við því verði er búskapur þeirra geti risið undir. . . .
    30. Að öll skólagjöld verði afnumin og efnilegustu nemendum úr alþýðustétt tryggð ókeypis vist við æðri menntastofnanir.`` ( ÖS: Af hverju beinir þú þessu til mín?)
    Og nú vil ég biðja fjmrh. að leggja líka eyrun við og reyndar aðra sem hér hafa verið og eru ráðherrar. 32. liðurinn í þessari stefnuskrá Alþfl.:
    ,,Að vinna að því að öllum verði gefin jöfn aðstaða til að keppa um stöður við hvers konar opinberar stofnanir og að eingöngu verði valið í stöðurnar eftir hæfileikum umsækjendanna.`` ( HÁ: Á þetta við um tilsjónarmenn?) Það hlýtur að vera.
    ,,33. Að setja upp stofnun er hafi það verkefni að útvega ungu fólki atvinnu við hvers eins hæfi og að skipuleggja starfsemi meðal atvinnulausra unglinga þeim til menntunar og þroska.``
    Ég ætla að láta þetta duga. Það er auðvitað ýmislegt af því sem hér er sem komist hefur í framkvæmd eða orðið er úrelt. Hér er mikil skipulagshyggja á ferðinni og arfur sem Alþfl. vill ekkert sérstaklega kannast við nú á dögum, en vissulega eru þarna á ferð ýmsar þær grundvallarhugmyndir sem við höfum byggt á allan þennan tíma frá því að Alþfl. og Alþýðusambandið og reyndar Framsfl. var stofnaður, þ.e. hugmyndir um að það sé á ábyrgð samfélagsins að aðstoða þá sem verr standa að vígi. Og mér finnst vera afar umhugsunarvert hvernig Alþfl. hefur í mörgum efnum snúið við blaðinu og stendur að þeirri frjálshyggjustefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað.
    Ég vil þá að lokum koma að því hvað ég tel að hér hefði átt að gera. Eins og ég kom að í upphafi míns máls dregst lánsfjárþörf opinberra aðila, ef horft er á heildarmyndina, töluvert saman vegna þess að hætt var við áform um byggingu álvers og við kvennalistakonur höfum bent á að einmitt í framhaldi af þeirri stefnu sem hér hefur verið ríkjandi þess efnis að það mikilvægasta sé að fólk hafi vinnu og hér eigi að halda uppi atvinnu teljum við réttlætanlegt við þessar aðstæður að ríkið taki lán á erlendum eða innlendum markaði eftir því hvernig á stendur til að stuðla að atvinnusköpun. Ég held að við þessar aðstæður sé í raun ekki um annað að ræða vilji menn halda uppi atvinnu. En því miður virðist svo sem hugmyndin um hið hæfilega atvinnuleysi hafi rutt sér hér til rúms og fái að grasséra í friði.
    Í öðru lagi tel ég að ríkisstjórnin hefði átt að fara þá leið að leita til starfsmanna ríkisins eftir hugmyndum um sparnað og hagræðingu og vinna í samráði við starfsfólk í stað þeirra storkandi hugmynda um tilsjónarmenn sem ég gerði áðan að umtalsefni.
    Í þriðja lagi ætti ríkisstjórnin að nýta þær leiðir sem eru til að afla tekna fyrir ríkissjóð en hún frestar stöðugt að koma í framkvæmd eða vill ekki koma í framkvæmd og þar er ég að tala um skatt á fjármagnstekjur, hærra skattþrep sem reyndar er nú verið að koma á hjá ellilífeyrisþegum. Hér má beita ýmiss konar lúxussköttum, taka á skattsvikum og vanskilum og að lokum að taka á þeim svarta markaði sem hér blómstrar, en hamingjan má vita hversu miklu er skotið undan á þeim markaði.
    Mín lokaniðurstaða af öllu þessu er sú að við stöndum eftir með þá spurningu hversu raunhæf fjárlögin og lánsfjárlögin eru. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvort hæstv. fjmrh. með alla sína tilsjónarmenn muni takast að halda lánsfjárlögunum innan þeirra marka sem frv. gerir ráð fyrir. Mín spá er sú að halli ríkissjóðs verði töluvert meiri en ráð er fyrir gert og einnig að við munum á næsta þingi sjá annað frv. til lánsfjárlaga. En við skulum sjá hvað setur. Meginatriðið er það að hér er á ferð stefnubreyting sem veldur því að misrétti er að aukast í þjóðfélaginu. Hér er hvað eftir annað ráðist á hópa sem litlum vörnum koma við og iðulega eiga í vök að verjast. Hér er verið að saga vaxtarbroddana af og höggva á þær rætur sem eiga að næra þjóðlífið og þá er ég ekki síst að vísa til skólakerfisins og þeirra rannsókna sem hér þyrfti að stunda til þess að hér verði einhver þróun og atvinnusköpun. Þetta er stefna sem við kvennalistakonur höfnum. Okkar trú er sú að við eigum að byggja hér upp samfélag jafnréttis og jöfnuðar. Þess vegna höfnum við þessu frv. og munum ekki greiða því atkvæði okkar.