Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 14:33:00 (2688)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
     Herra forseti. Kjarni málsins er sá: Hvað stendur eftir af hugmyndafræði Alþfl.? Hvað er það sem hann vill gera í þessu samfélagi? Er það að standa vörð um velferðarkerfið, er það að skapa hér jöfnuð og jafnrétti eða er það að hleypa frjálshyggjunni algerlega lausri? Það er kjarni málsins.
    Ég tók það fram í minni ræðu áðan að margt af því sem ég las upp úr þessari gömlu stefnuskrá er að sjálfsögðu úrelt og þá ekki síst samyrkjubúskapurinn sem betur fer sem hvergi hefur gengið nema þá helst í Ísrael þar sem hann er rekinn reyndar undir öðrum formerkjum. Ekki er ég að leggja til að hér verði tekinn upp samyrkjubúskapur þó að samvinna bænda mætti hins vegar vera meiri og nýtni t.d. á vélakosti og fleira slíku ef þeir geta komið því við.
    Hins vegar er öllum hollt að hyggja að fortíðinni og spyrja að því á hvaða grundvelli þeir standa. Hv. 17. þm. Reykv. er formaður þingflokksins og er því hinn ábyrgi aðili í salnum. Mér finnst því eðlilegt að beina til hans því sem athyglisverðast er úr fortíð og nútíð, enda fátt um aðra þingmenn flokksins hér.
    En kjarni málsins er þessi: Fyrir hvað stendur Alþfl. og fyrir hvað ætlar hann að standa? Ætlar hann að hverfa frá þeirri stefnu að standa vörð um velferðarkerfið eða ætlar hann að standa með okkur sem viljum efla, bæta og verja það?