Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 15:37:00 (2691)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að þeir seðlabankamenn eru orðnir feimnir við að kalla verðbólguspána sína verðbólguspá. Það kom fram í efh.- og viðskn. og það geta aðrir nefndarmenn staðfest að bæði talsmenn viðskiptabankanna og reyndar talsmenn Seðlabankans sjálfs voru svolítið kindarlegir þegar þeir ræddu um þessa verðbólguspá sem ekki er verðbólguspá. Ég man ekki nákvæmlega hvaða nafn var verið að reyna að gefa henni, eins konar leiðsögn eða tilsögn um vaxtaþróunina, en það mátti bara ekki kalla hana spá af tilteknum ástæðum. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. En það er engu að síður álit Seðlabankans sem viðskiptabankarnir vita af um verðbólguþróunina og það álit sem viðskiptabankarnir styðjast við er um tvöfalt hærra en núverandi verðbólgustig. Það er staðreynd.
    Varðandi svo það hvort hér verði vaxtalækkun eða ekki vaxtalækkun, þá ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. í einlægni: Ætlar hann sér virkilega að byggja málflutning sinn á næstu dögum og vikum upp á því að hann ætli að lækka vextina á ríkisskuldabréfunum um 0,2% til þeirra sem hvort sem er eru með bundna áskrift að bréfunum, að út á það og það eitt eigi að verða vaxtalækkun í landinu? Hæstv. fjmrh. er þar með líka að lýsa því yfir að það standi ekki til að lækka vextina á almennu skuldabréfunum og viðskiptabankarnir hafa lýst því yfir að þá verði engin vaxtalækkun af ástæðum sem ég fór rækilega yfir hér áðan. Þjóðviljinn fer auðvitað með rétt mál sem ég gerði og hér áðan. Út á þessi 0,2%, hæstv. fjmrh., til áskrifendanna verður engin vaxtalækkun.