Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:00:00 (2701)

     Egill Jónsson :
     Herra forseti. Það hafa borist fregnir af því að síld væri gengin á veiðislóðir og það liggur fyrir að Íslendingar hafa gert rammasamning um viðskipti við Rússland. Þetta eru þau málsatvik í þessu máli sem ég lít á sem grundvallaratriði. Hér eru fyrir hendi og hafa verið fyrir hendi þeir kostir sem leggja

grundvöll að auknu atvinnulífi á Íslandi sem menn hafa ekki frekar gert ráð fyrir að yrði uppi á borðinu á þessu ári, markaður og veiði. Þess vegna eru það út af fyrir sig alveg ómögulegir kostir í málflutningi eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh. áðan að Landsbankinn og ríkisstjórnin séu að kasta þessu máli á milli sín svo að ekki dögum heldur vikum og jafnvel mánuðum skiptir.
    Það er augljóst mál að þegar slíkir kostir berast á borð okkar Íslendinga sem þessir á að sjálfsögðu að taka á þeim með þeim hætti að það sé hægt að hefja veiðar og sölu. Það er augljóst mál og grundvallaratriði að Íslendingar geti náð sínum fyrri viðskiptum í þessum efnum og með tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið á stjórnarháttum í austri er auðvitað ekki nema sjálfsagt að taka einhverja áhættu til að byggja nýjar brýr á milli hinna fornu viðskiptaaðila.
    Ég vil þess vegna eindregið skora á ríkisstjórnina og minna hana á þær skyldur sem hún hefur í þessu máli með því að bregðast við með þeim hætti að síldarsöltun geti hafist hér að einhverju marki.