Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:06:00 (2703)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Herra forseti. Sú niðurstaða sem Landsbanki Íslands hefur komist að um að veita ekki lánafyrirgreiðslu svo saltsíldarsamningar við hið rússneska lýðveldi mættu komast á veldur sannarlega miklum áhyggjum. Nú hefur hæstv. viðskrh. upplýst að ríkisstjórnin hafði ekki afstöðu til þessa máls og hefur ekki haft hingað til. Það er einhliða ákvörðun Landsbanka Íslands að veita ekki þessa lánafyrirgreiðslu. Þess vegna er tímabært að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ríkisstjórnin verði ekki að móta afstöðu til þessa máls, hvort ríkisstjórnin vilji stuðla að því að síldarsala komist á eða ekki. Það er skammur tími til stefnu. Helst þyrfti að halda neyðarfund í ríkisstjórninni í kvöld til að fá úr því skorið fyrir fólkið sem starfar við síldarsöltun hvort síldarsöltunin geti hafist innan tíðar eður ei vegna þess að tíminn er úti um næstu mánaðamót vegna náttúrulegra aðstæðna.
    Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það er á dagskrá að fjalla um hvort íslenska bankakerfið ætlar að hjálpa til með lánafyrirgreiðslu svo viðskipti geti átt sér stað við útlönd. Það hefur gerst áður. Beiðni kom fram um það upp úr árinu 1981 vegna fiskimjöls til Póllands á þrengingartímum þar. Sú beiðni var samþykkt og nam langtum hærri upphæðum en hér er verið að fjalla um og hafði Seðlabanki Íslands þar forustu með Landsbanka Íslands og Útvegsbankanum. Einnig hefur íslenska bankakerfið komið við sögu til að liðka fyrir útflutningi á ullarvörum til Sovétríkjanna.
    Hér eru miklir hagsmunir í húfi að síldarsöltun megi halda áfram í landinu. Rússland hefur verið mikilvægt viðskiptaland okkar Íslendinga og það verður að treysta enn frekar böndin um viðskipti við fólkið þar í landi. Ég skora á hæstv. forsrh. að hafa nú forustu um það með viðskrh. að ríkisstjórnin móti afstöðu í þessu máli sem verði skýr og öllum ljós en ábyrgðinni ekki velt lengur á Seðlabanka eða Landsbanka Íslands.