Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:32:00 (2713)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum, og vonandi ekki hv. þm. sem hér hafa talað, að stórfelldar breytingar eru nú í gerjun í þeim ríkjum sem áður tilheyrðu hinum víðlendu Sovétríkjum. Okkur berast á hverjum degi fréttir af erfiðleikum þeirra. Þess vegna er ákaflega sérkennilegt svo að ekki sé meira sagt að menn lýsi því hér yfir að það sem þurfi sé bara vilji til að eiga viðskipti við þessar góðu þjóðir án þess að menn geri grein fyrir því við hvern þau viðskipti ættu að fara fram.
    Ég vil benda á að þær fjórar vikur sem liðnar eru frá því að bankastjórn Landsbankans skrifaði ríkisstjórninni eru einmitt þær vikur sem einna örlagaríkastar hafa orðið í sögu Sovétríkjanna. Þar er allt í uppnámi, (Gripið fram í.) virðulegi þingmaður, og ég bið þingmanninn að halda nú stillingu sinni þótt breytingin hafi e.t.v. valdið honum hugarangri. Það er náttúrlega málið að þetta eru hinar raunverulegu ástæður fyrir töfum. Allan þann tíma sem þarna hefur liðið hafa menn leitað fangs á málinu, m.a. með því að koma á framfæri við hina nýju banka sem eru að myndast í Rússlandi viðskiptasamningnum sem gerður var í byrjun desember, leita að réttum viðskiptalegum leiðum til að tryggja í senn íslenska og rússneska hagsmuni.
    Mér virðast, virðulegi forseti, ýmsir möguleikar ókannaðir í þessu máli. Ég nefni afhendingu á minna magni síldar, ég nefni lægri lánveitingu, ég nefni möguleika á einhvers konar vöruskiptum, möguleika á því að þeir innlendu aðilar sem hér eiga fyrst og fremst fjárhagslegra hagsmuna að gæta setji Landsbankanum þær tryggingar sem nauðsynlegar eru. Loks er hugsanlegt að á alþjóðlegum tryggingamarkaði megi kaupa tryggingar gagnvart því að rússneski bankinn kynni að vanefna skuldbindingar sínar gagnvart Landsbankanum eða saltendum. Því miður virðast þessi atriði lítt eða ekki hafa verið könnuð af bankanum eða síldarsölufyrirtækjunum, en það er einmitt þeirra að gera það. Þetta eru allt saman fyrst og fremst viðskiptaleg verkefni. Vissulega eru þessi verkefni vandasöm úrlausnar við ríkjandi aðstæður. En það er fráleitt að vísa þeim einfaldlega á ríkið og sitja svo með hendur í skauti. Það er næsta sérkennilegt að þegar þeir austur í Rússlandi eru að brjótast undan ríkisforsjánni skuli menn á Íslandi þrábiðja um hana.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta koma fram, en ítreka að að sjálfsögðu munu Íslendingar taka þátt í neyðaraðstoð við þær þjóðir sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. Að því máli er nú unnið á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég vil þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að víkja að aðstoðinni í sínu máli og hafa hér uppi málefnalegar ábendingar um hvernig mætti á þessu máli taka. En síðast en ekki síst vil ég minna á að það er ekki ríkisstjórnarinnar að taka ákvarðanir um einstakar lánveitingar Landsbankans. Til þess höfum við ráðið bankastjóra að mér skilst á sæmilegum kjörum.