Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 19:05:00 (2723)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það vill svo til að ég bað um að veita andsvar áður en hv. 2. þm. Vestf. óskaði eftir að ræða um þingsköp, en hann er það miklu fyrirferðarmeiri en ég að það heyrðist betur til hans, þannig að það komi skýrt fram, og ég hygg að það hafi verið vitni að því í þingsalnum.
    Ég ætla ekki að ræða um alla ræðu síðasta ræðumanns. Hún var nánast eins og aðrar ræður sem hér hafa verið fluttar, eins og ræða sem flutt var af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fyrr í dag. Ég hef veitt svör við ýmsum þeim atriðum sem þar komu fram. En það er þó eitt atriði sem mér finnst ástæða til að leiðrétta því það vekur mér þann ugg að menn átti sig ekki alveg á því út á hvað efnahagsmálin ganga þessa stundina. Það er þegar sagt að hér á landi sé tilbúinn samdráttur. Ég er með fyrir framan mig nýjasta eintakið af The Economist. Þar er mynd af hagvexti í Evrópuríkjum, reyndar öðrum ríkjum líka innan OECD. Það kemur í ljós að Ísland er langsamlega neðst á blaði vegna þess að við höfum orðið fyrir gífurlegum afturkipp í okkar efnahagsmálum.
    Þá segir hv. ræðumaður: Þetta er hægt að leysa með því að fara út í framkvæmdir eins og vegaframkvæmdir og þá má lækna ástandið. Því miður stendur eftir, þrátt fyrir þessa miklu kreppu, þrátt fyrir allar aðgerðirnar sem við erum að beita um þessar mundir, að á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 15 milljarðar kr. Með öðrum orðum: Við erum að taka inn í landið stórkostlegar upphæðir frá útlöndum, 15 milljarða, og þessum upphæðum ætlum við að veita inn í þjóðfélagið umfram það sem við framleiðum sjálfir. Að þessu leytinu til er allt annað ástand nú uppi í þessu þjóðfélagi en var á sínum tíma þegar skuldir voru litlar sem engar í útlöndum og þær ,,teóríur`` áttu við sem hv. þm. vitnaði til.