Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 19:09:00 (2726)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég tek fram í upphafi að ég nefndi fræðilega möguleika. Ég sagði ekki að ég hefði lausnirnar til þess að ná því einn, tveir og þrír.
    En, hæstv. fjmrh., í fyrsta lagi varðandi vextina. Þar held ég að sé reyndar borð fyrir báru, að þrátt fyrir að þeir verði lækkaðir eitthvað verði þeir ærið háir enn þannig að þeir ættu að veita verulegt aðhald.
    Í öðru lagi varðandi skattana. Því get ég svarað hæstv. fjmrh. hér og nú að ég gæti alveg skoðað það að leggja á skatta svo að einhverju nemur til viðbótar til að koma því jafnvægi á sem við hér ræddum um. Í það minnsta, hæstv. ráðherra, mundi ég haga skattlagningu á allt annan hátt en hæstv. núv. ríkisstjórn hefur gert með sínum nýju sköttum og ég ætla ekki að tíunda hvernig þeir koma niður.
    En í þriðja lagi er ekkert eitt atriði eins mikilvægt, eins og við sáum þegar þjóðarsáttin náðist á þjóðarsáttartímanum, til að skapa þær aðstæður sem ég nefndi eins og ríkisstjórn sem tekst að vinna tiltrú fólksins í landinu og aðila vinnumarkaðar og skapa á þann hátt þann grundvöll, það traust sem verður að ríkja til þess að eðlilegt ástand geti skapast.