Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 13:36:00 (2728)

     Ólafur Þ. Þórðarson (frh.) :
     Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. samgrh. er kominn í salinn og vænti þess að hann fari ekki svo langt að hann heyri ekki mál mitt.
    Ég hjó eftir því í umræðu um frv. til lánsfjárlaga að hæstv. fjmrh. telur ekki skynsamlegt að láta tékkheftið liggja lengi opið. Ástæðan er sú að hann óttast að það komi í ljós við nánari skoðun að sumt af því sem menn hafa verið að ráðgera fær illa staðist í framkvæmd og hætt við að heimamenn muni undir sumum kringumstæðum gera kröfur um aðgerðir. Ég á t.d. von á því að hreppstjóri þeirra Bílddælinga uni því nokkuð illa ef sú ákvörðun er tekin að leggja af Skipaútgerð ríkisins, en ætla Bíldudal engar samgöngur á landi í staðinn. Það liggur nefnilega ljóst fyrir að Bíldudalur er algjörlega einangraður frá Patreksfirði og Tálknafirði í venjulegu árferði tvo mánuði yfir vetrartímann og í þungu árferði er ekki gjörlegt að treysta því að hægt sé að opna veg um Hálfdán vegna þess hvernig vegstæðið þar er og hve snjóalög eru þar mikil og þetta vita heimamenn.
    Ég tel að gagnvart Vestfjörðum séu tveir staðir sem engar úrbætur blasi við, annars vegar Norðurfjörður á Ströndum og hins vegar Bíldudalur. Mér er ljóst að verið er að fara í þær aðgerðir sem munu leysa vanda Vestur-Ísafjarðarsýslu í þessum efnum, þ.e. jarðgöngin. Hitt er svo annað mál að ákvörðunin kemur þó það snemma að þeir þurfa trúlega aftur að færast yfir á það stig sem var þegar ég var þar ungur maður að alast upp. Þá flutti Fagranesið frá Ísafirði vörur fyrir Núpa.
    Hins vegar sýnist mér að það tiltæki sem verið er að fara út í hljóti að kalla á skýr svör hæstv. samgrh. við því hvort hann er reiðubúinn eða sveitarfélögin að standa fyrir lántöku fyrir þetta svæði að ábyrgjast að það verði endurgreitt á ákveðnum tíma og vegaframkvæmdinni verði flýtt.
    Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi kynnst því á þeim fundi sem hann var á í gær, þar

sem hann flutti ræðuna um Ísland hinna miklu möguleika, að Verktakasamband Íslands telur að ekki séu mörg stórverkefni sem þeir geti boðið í á næsta ári og þess vegna hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort það sé ekki rétt undir slíkum kringumstæðum að flýta vissum framkvæmdum sem óneitanlega hefðu getað beðið ef ákvarðanir eins og þessar hefðu ekki verið teknar.
    Nú er það ekki venja Engeyjarættar að snúa við leggi þeir í róður og ég tel að það sé borin von að ég komi hæstv. samgrh. til að breyta sinni ákvörðun um Ríkisskip. Hins vegar er ég sannfærður um að svo vel þekkir hann til fyrir vestan að hann hefur sjálfur hugleitt það hvernig eigi að leysa vanda Bíldælinga. Ég tel ekki ásættanlega lausn hvort heldur sem samgrn. dytti í hug að ætla að láta Fagranesið þjóna þessum stað frá Ísafirði eða að það ætli að láta Baldur sigla til Bíldudals endrum og sinnum. Ekki er til nema ein skynsamleg lausn á þessu máli og það er að flýta vegalagningu yfir Hálfdán. Það er eina skynsamlega lausnin.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þó að mér sé ljóst að við eigum þá eftir hitt vandamálið, Norðurfjörð á Ströndum, þá er þar um mun minni flutninga að ræða og það er staðreynd að vöruflutningar þar eru meira bundnir vissum umsvifum ef svo mætti komast að orði. E.t.v. væri hægt að leysa það að hluta til með því að skip kæmu þar á vissum tíma og tækju þar vöru og eins er hitt hugsanlegt að vitaskipið Árvakur gæti þjónað byggðinni þegar þar eru lokaðar samgöngur.
    Ég vil þó líka segja að auðvitað er ekki nein ásættanleg lausn þar heldur nema að gert verði átak í vegagerð norður eftir þannig að hægt sé að þjóna byggðarlaginu á landi stóran hluta ársins. En hvað um það, hæstv. samgrh. hlýtur að gera sér grein fyrir því að fjmrh. vill loka tékkheftinu núna vegna þess að honum er ljóst að þrýstingurinn á vissar aðgerðir á ýmsum sviðum, m.a. það sem ég er að tala hér um, hlýtur að koma fram í vaxandi þunga þeim mun meir sem menn nálgast þann tímapunkt að horfa á þessa stóru breytingu.
    Ég ætlaði, herra forseti, að víkja að einu atriði varðandi félmrh. sem tengist þessu frv. Eins og allir vita er verið að taka hér stórar ákvarðanir um ríkisábyrgðir á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þessi bréf eru jafn vel tryggð og venjuleg ríkisskuldabréf. Munurinn er aftur á móti sá að sá fáránleiki er til staðar að þau eru útbúin með happdrættisúrdrætti til ákvörðunar hvenær þau eiga að greiðast sem hefur orðið til þess að þar er um gífurleg afföll að ræða. Afföllin eru svo mikil að hefði þetta átt sér stað fyrir 20 árum hefði verið talin hrein glæpamennska að selja þessi bréf með slíkum afföllum. Því til stuðnings vil ég minna enn einu sinni á það þegar ritstjóri Frjálsrar þjóðar hóf aðför að lögfræðingi sem var þekktur fyrir að selja víxla með afföllum í einum af bönkum landsins og það er ekki ofsögum sagt um það að lögfræðingurinn varð ærulaus af tiltækinu.
    Ég segi þetta hér og nú vegna þess að Húsnæðisstofnun sjálf ræður verulega miklu um það hvort hún lækkar þessi afföll eða ekki. Hún getur lækkað þau með einni aðgerð og hún er sú að Húsnæðisstofnun samþykkir að taka húsbréf sem greiðslu fyrir húsbréf.Hún þarf ekki stærri aðgerð til þess að minnka afföllin. Þá mundu þeir hinir mörgu sem í dag skulda gera sér lítið fyrir og fara á húsbréfamarkaðinn og kaupa þar bréf, með afföllum vissulega, og borga Húsnæðisstofnun með þeim bréfum. Húsnæðisstofnun mundi enga fjármuni frekar láta út en hún gerir í dag, en hins vegar yrði þessi aukna eftirspurn eftir bréfunum til þess að lækka afföllin og sér hver heilvita maður að þá mundu báðir aðilar græða, þ.e. þeir sem í dag þurfa að sæta hinum miklu afföllum og þeir sem þannig gætu lækkað greiðslur sínar. Mér er ljóst að Húsnæðisstofnun hefur neitað að taka við slíkum bréfum sem hún hefur útbúið sjálf sem greiðslu á móti jafnhárri peningalegri greiðslu og þætti mörgum skrýtið ef Seðlabanki Íslands neitaði að taka á móti þúsundköllum sem hann hefði sjálfur gefið út nema með afföllum.
    Ég held þess vegna að það hljóti að vera umhugsunarefni hvort viljandi er verið að halda afföllum háum af bréfunum og í hvers þágu er það gert. Er þetta enn ein krafa hins íslenska fjármagnsmarkaðar um að njóta meiri verndar en Burstagerð blindra gerir á Íslandi, sem lifir í óvernduðu umhverfi og keppir við innflutta fjöldaframleiðslu og hefur

enga vernd? Það er náttúrlega umhugsunarefni fyrir alþingismenn ef við höfum búið svo um hnútana að blindir þurfi að keppa á heimsmarkaði á fullu samkeppnisverði, en íslenski fjármagnsmarkaðurinn skuli vera verndaður á þennan hátt.
    Nú er það svo með hæstv. ráðherra að þó ekki sé lesið upp af forsetastóli að þeir hafi beðið um fjarvistarleyfi er ekki þar með sagt að þeir séu hér viðstaddir. Ég hef komið þeirri beiðni á framfæri að nú væri öfugt kerfi upp tekið, þ.e. að lesið yrði af forsetastóli þegar þeir væru við því að það er mun einfaldara og mun meira upplýsingagildi sem það hefði fyrir þingið en að lesa það upp hverjir óska um fjarvistarleyfi. Þótt hæstv. félmrh. sé ekki við vil ég engu að síður koma þessum ábendingum á framfæri og hugsanlegt er að það sé svo gott samband á milli hæstv. fjmrh., sem er vinmargur, og félmrh. að hann hafi einhverjar skoðanir á þessu máli, því að óneitanlega er þetta húsbréfakerfi undir verndarvæng fjmrh. eins og sjá má vegna þess að heimildin um lántökurnar fer í gegnum lánsfjárlögin. ( Forseti: Forseti telur sig vita það með réttu að hæstv. félmrh. muni vera veik og vera þess vegna fjarverandi). Þá sæmir að sjálfsögðu ekki, herra forseti, að veita henni aðför undir þeim kringumstæðum frekar en hjá Hvamm-Sturlu forðum við mun erfiðari aðstæður og lýk ég hér máli mínu.