Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:50:00 (2737)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa gert tilraun til þess að svara þeim spurningum sem ég bar fram þótt það hafi verið á þann veg að hann treysti sér ekki til þess að segja neitt um það hvað ríkisstjórnin mundi gera ef hallinn á ríkissjóði mundi um mitt ár reynast meiri en stefnt er að.
    Enn fremur var auðvitað mjög athyglisvert og hæstv. forsrh. lýsti því yfir að ríkisstjórnin væri ekki tilbúin til þess að eiga neinar viðræður við samtök launafólks um breytingar í skattamálum eða annað sem gæti styrkt kjarastöðu launafólks fyrr en samningarnir eru allir komnir að einu borði. Það var afar merkileg yfirlýsing. Hún felur í sér að hæstv. ríkisstjórn hefur þá afstöðu að einstök aðildarfélög launafólks, aðildarfélög Alþýðusambandsins, aðildarfélög BSRB hafi ekki sjálfstæðan samningsrétt og að ríkisstjórnin ætli að krefjast þeirrar miðstýringar að fyrr en einstök félög og samtök launafólks eru í reynd búin að afsala sér sérstökum samningsrétti sé ríkisstjórnin ekki til neinna viðræðna. Allir skulu fara að einu borði og fyrr sé ríkisstjórnin ekki reiðubúin. Slík krafa um afsal réttinda launafólks er auðvitað afar óvenjuleg við þær erfiðu aðstæður sem eru í þjóðfélagi okkar. Ég mun hins vegar koma nánar að þessu í ræðu minni síðar í þessum umræðum.
    Ég vil hins vegar minna hæstv. forsrh. á það að hann svaraði ekki þremur af þeim spurningum sem ég bar fram til hans og ítreka hér. Í fyrsta lagi var spurningin um það hvort það væri í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar að menntmrh. hefði nú ákveðið að framkvæma bara helminginn af þeim flata niðurskurði í fjárlögum sem honum er ætlað. Í öðru lagi hver er afstaða forsrh. til þeirrar tillögu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flytur um Framkvæmdasjóð Íslands sem heyrir undir forsrh. en ekki fjmrh. og að lokum hvert er álit hæstv. forsrh. á þeirri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að ríkisstjórnin hefði aðeins náð rúmlega 30% árangri í þeim efnahagsaðgerðum sem hún beitti sér fyrir í maí, hvaða skýringar forsrh. teldi á því að ríkisstjórnin hefði náð svo litlum árangri.