Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:53:00 (2739)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Það er rétt sem hæstv. forsrh. upplýsti að þau bréf sem hér hefur verið vitnað til hafa verið lögð fram í efh.- og viðskn. sem hefur átt mjög góða umfjöllun um þetta mál sem hér hefur verið til umræðu. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni en það er hins vegar alveg ljóst að afstaða Seðlabankans í málinu hefur orðið til þess að stöðva málið. Það var upplýst af bankastjóra Landsbankans að hann hafði vitað óformlega um andstöðu bankans í málinu og því þótt nauðsynlegt að fá álit ríkisstjórnarinnar í málinu. Eftir að Seðlabankinn hefur veitt þetta álit og ríkisstjórnin framsent það til Landsbankans liggur það fyrir að Landsbankinn telur sér ekki fært að veita fyrirgreiðsluna.
    Því miður er mál þetta með þeim hætti að það virðist vera að það hafi komist vel til skila hjá opinberum aðilum í landinu að ekki bæri af opinberri hálfu að sinna mikið viðskiptamálum, það væri vettvangur fyrirtækjanna og einstaklinganna. En svo illa vill til að þótt frjálsræði hafi aukist í Rússlandi, þá eru mál þar enn á vegum stjórnvalda að nánast öllu leyti. Ég held hins vegar að það stoði ekki að tala mikið um fortíðina í þessu efni. Þarna hefur orðið margvíslegt klúður en aðalatriðið er að vita hvort ríkisstjórnin er tilbúin til þess að leita leiða í málinu á þessari stundu til að koma málinu farsællega í höfn. Mikill tími hefur tapast og því vil ég spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hvað þeir hyggist fyrir til þess að niðurstaða fáist í málinu þannig að hægt sé að salta eitthvað af síld til að senda inn á þennan mikilvæga markað. Ég hef skilið ríkisstjórnina þannig að að sé vilji hennar og ég vil ekki stuðla að því frekar á Alþingi að verið sé að tala mikið um fortíðina þó að það væri vissulega ástæða til.