Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:56:00 (2741)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Mér er ekki alveg ljóst hvað þetta svar þýðir. Ég skal viðurkenna það, hæstv. forsrh., að ég var dálitla stund að átta mig því að forsrh. svaraði að ríkisstjórnin er tilbúin að beita sér fyrir lausn málsins á viðskiptalegum grundvelli. Hvað þýðir það?
    Ég held að þessa viðskiptahagsmuni þurfi að meta, hæstv. forsrh., og mér er mjög vel ljóst að í því felst nokkur áhætta. Hins vegar er að mínu mati réttlætanlegt að taka nokkra áhættu í þessu efni til þess að halda mikilvægum viðskiptahagsmunum og við verðum að meta það að Ísland er þriðja ríkið í heiminum sem gerir viðskiptasamning við Rússland. Mér hefur skilist að mikill vilji sé af hálfu þjóðarinnar að taka upp samskipti við Ísland. Það hefur m.a. verið mjög fróðlegt að hlusta á sendimenn íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu stóra ríki í þessu sambandi þannig að það er ekki nóg, hæstv. forsrh., að fá slíkt svar. Við erum tilbúnir til að gera það á viðskiptalegum grundvelli. Svo vill til að íslenska ríkisstjórnin er ekki í viðskiptum, hún er ekki í bisniss eins og sagt er. Hún er í öðrum málum. Þess vegna nægir þetta svar ekki, hæstv. forsrh., en ég skil það hins vegar ef ekki er hægt að skýra málið frekar á þessari stundu jafnvel þótt einn þingmaður stjórnarliðsins hafi óskað eftir neyðarfundi í ríkisstjórninni í gærkvöldi um málið þá skil ég það svo að það hafi ekkert frekar verið um málið fjallað á þeim vettvangi.