Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:11:00 (2750)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Sú umræða sem fer fram um málefni Skipaútgerðar ríkisins og hvaða áhrif það hlýtur að hafa ef sú starfsemi leggst algerlega niður á fullan rétt á sér. E.t.v. má segja að í slíkri umræðu séu menn tilneyddir að skýra afstöðu sína í mjög stuttu máli.
    Ég skal játa að ég hrökk mjög við þegar ég sá þessa fyrirætlun í frv. til fjárlaga sem lagt var fram í haust. Vitaskuld er það áhyggjuefni hvernig hægt verður að veita þá þjónustu við afskekkta staði á landinu sem hafa treyst þjónustu Skipaútgerðarinnar í þeim efnum. En við megum samt ekki vera svo fastheldin á það sem alltaf hefur verið að við

séum ekki til viðtals um breytingar.
    Frá því að rekstur Skipaútgerðarinnar hófst hafa samgöngur tekið miklum breytingum í landi, lofti og á sjó. Við erum í æ ríkari mæli að færa flutningana yfir í landflutninga. Það getur hins vegar verið álitamál hvort það er akkúrat sú þróun sem er æskilegust. Þar geta komið til álita þættir eins og umhverfismál og hvort það sé það besta fyrir fólkið sem þjónustuna á að fá. En þó að við veljum að halda áfram samgöngum á sjó þarf það ekki að þýða að fyrirtæki eins og Skipaútgerðin þurfi að vera ríkisrekin.
    Það eru uppi hugmyndir um að stofna hlutafélag um reksturinn og ekki reynt til þrautar hvort það er mögulegt. Ég tel ekki raunhæft að álykta annað en ríkissjóður þurfi að styrkja þessar samgöngur eitthvað og getum við litið á það sem þjónustuskyldu við dreifðar byggðir. Einnig ber á það að líta að færi þessi þjónusta fram með vegasamgöngum þurfa þeir vegir viðhald af almannafé. Ef sú lausn er valin að þessi þjónusta skuli færast í þann farveg að vera leyst með bættum samgöngum á landi þá þarf að huga að því að bæta vegakerfið víða um land. En ég ítreka að það þarf að finna lausn á því máli hvernig flutningum til slíkra staða verður háttað í næstu framtíð áður en ákveðið er að leggja Skipaútgerðina niður. En ég vænti þess að hæstv. samgrh. hafi fullan hug á að finna þær lausnir í samráði við heimamenn og okkur þingmenn og starfsemi Skipaútgerðarinnar verði ekki lögð af án þess að þjónusta sú sem hún veitti verði tryggð með öðrum hætti.