Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:26:00 (2756)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áður að ég hef of skamman tíma til að gera grein fyrir þessu máli við umræður eins og þessar. Það vekur hins vegar athygli hvernig hv. þm. Jón Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir brugðust við í ljósi þess að Samskip hf. gerðu tilboð í Esjuna á þriðjudag í síðustu viku. Sérstaklega var tekið fram í sambandi við það að ef ekki yrðu hafnar viðræður við þá um það tilboð mundu Samskip leita eftir skipi erlendis þar sem þau töldu nauðsynlegt vegna viðskiptahagsmuna að annast þjónustu við sína viðskiptavini á Austurlandi. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að ef Alþingi setur þetta mál í mikla óvissu getur komið að því að Samskip kjósi að draga sig í hlé og draga þar með til baka tilboðið sem þau hafa gert um að reyna að kaupa skip Skipaútgerðar ríkisins og láta starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins sitja fyrir um vinnu hjá sér. Við erum því að tala um að íslenskt skipafélag, sem nýtur trausts með ströndinni, taki yfir þá þjónustu sem Skipaútgerð ríkisins hefur gegnt. Jafnframt liggur það fyrir að þetta skipafélag mun láta starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins sitja fyrir. Ég hef ævinlega talið, þegar þessi mál hefur borið á góma, að mér bæri skylda til þess að reyna að halda þannig á málum ríkisins að dregið yrði úr útgjöldum þess. Á hinn bóginn lá það ljóst fyrir að við vildum halda uppi þjónustu við landsbyggðina og ég get ekki tekið undir þau ummæli sem hér féllu og gátu gefið í skyn, slitin úr samhengi, að það skipafélag sem ríkisstjórnin á nú í viðræðum við hafi ekki staðið sig gagnvart þeim einstaklingum og þeim stöðum sem Samskip hafa þjónað í gegnum árin og áratugina. Ég held þvert á móti að fólk hafi mjög góða reynslu af þessu skipafélagi og ekkert sé að óttast í þeim efnum.
    Ég vil líka taka skýrt fram að ekki er um það að ræða að ríkisstjórnin hafi verið að tína stélfjaðrirnar af Skipaútgerð ríkisins eða selja fyrirtækið í smáskömmtum, sem var orðalag ritstjóra Tímans, heldur hafði Skipaútgerð ríkisins mjög nána samvinnu við Samskip um reksturinn. Það lá fyrir að þjónustuna á Austurlandi annaðist Skipaútgerð ríkisins í beinum samningum við Samskip og líka þjónustuna við Færeyjar. Þegar Samskip

kjósa að taka þessa þjónustu í sínar hendur er auðvitað um gerbreytt viðhorf að ræða og alls ekki hægt að tala um þessi mál á sama grundvelli og áður.