Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:43:00 (2765)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það hefur vakið athygli mína að forseti telur aldrei við hæfi að gera athugasemd við framgöngu ráðherra í salnum eða í umræðum. En forseti er nokkuð oft að temja sér það að leiðbeina eða setja ofan í við einstaka þingmenn.
    Nú er það þannig, virðulegi forseti, að hér leyfir forsetinn umræður utan dagskrár í hálftíma til þess að hæstv. samgrh. svari spurningum. Hv. málshefjandi Kristinn H. Gunnarsson bar upp þessa spurningu og hæstv. samgrh. svaraði henni ekki. Tilefni þessarar þingskapaumræðu er það að hæstv. samgrh. svaraði spurningunni ekki. En hæstv. forseti sá enga ástæðu til þess að hvetja hæstv. samgrh. til þess að svara spurningunni og fara þannig eftir þingsköpunum. Það gerði hæstv. forseti ekki. Í staðinn er sagt við þingmenn að þeir megi ekki gera athugasemd við það að ráðherra svari ekki spurningum sem þeir eru beðnir um að svara og forseti leyfir sérstaka umræður til þess að þeir svari. Ábending mín var til komin vegna þess að ef forsetinn og ríkisstjórnin hafa áhuga á því að umræður í þinginu hafi ákveðinn tilgang og að þingsköpum sé hlýtt, hæstv. forseti, þá ber ráðherrum að svara spurningum sem veittur er sérstakur tími utan dagskrár á Alþingi til þess að þeir svari.
    Vandi þessarar umræðu er sá að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bar upp skýra spurningu og fékk ekkert svar og það sem verra var, hæstv. samgrh. vék ekki að spurningunni einu orði, hvorki í fyrri ræðunni eða seinni ræðunni. Þetta er svona álíka, virðulegi forseti, eins og einhver kveddi sér hljóðs utan dagskrár á Alþingi til þess að spyrja hæstv. menntmrh. um málefni Háskólans á Akureyri og hæstv. menntmrh. svaraði með því að tala eingöngu um málefni Kennaraháskólans í Reykjavík. Þannig var framganga hæstv. samgrh. Hann talaði eingöngu um Samskip í sínum tveimur ræðum en svaraði því ekki hvort hann hefði slitið viðræðum við samstarfshópinn sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur verið í forsvari fyrir. Þess vegna ítreka ég það, virðulegi forseti, að til þess að spara tíma í þinginu og greiða fyrir umræðum komi forseti þeim ábendingum á framfæri við hæstv. ráðherra að ef tími er veittur utan dagskrár á Alþingi til þess að veita svör við ákveðnum spurningum þá geri ráðherrarnir tilraun til þess að svara þeim spurningum.
    Ég vil svo enn á ný ítreka þá ósk mína til hæstv. samgrh. hvort sem hann gerir það

í þingsalnum eða með opinberri yfirlýsingu utan við þingsalinn að hann segi það alveg skýrt og skorinort: Er hann búinn að slíta viðræðunum við samstarfshópinn eða ekki? Íbúar byggðarlaganna í kringum landið, fólkið sem stendur að samstarfshópnum og einnig forsvarsmenn Samskipa eiga kröfu á því að fá að vita þetta skýrt. Það er óeðlilegt að hæstv. ráðherra sé að spila einhvern felupóker í þessu máli. Hann komi fram --- ég vil nú ekki notað orðið óheiðarlega en a.m.k. mjög óeðlilega --- því að í meðferð málefna ríkisfyrirtækja og sölu er auðvitað alveg nauðsynlegt að ráðherra svari því skýrt hvort þeir hafi slitið viðræðum við hugsanlegan kaupanda eður ei. Þetta er ekki eitthvert vasaspil fyrir hæstv. ráðherra samkvæmt hleypidómum hans eða eigin geðþótta.