Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:52:00 (2769)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggja til eitt eða annað um áframhald umræðna um lánsfjárlög, en ég kemst ekki hjá því þegar rætt er um gæslu þingskapa að skýra frá því að haldnar hafa verið margar ræður við 2. umr. málsins, sumar mjög langar og yfirleitt allar afar efnislíkar, nánast sömu ræðurnar aftur og aftur, tekið á annan klukkutíma hver ræða þannig að málið er nú ansi vel rætt. Satt að segja hafði ég vonast til þess að málið hlyti þá afgreiðslu í kvöld að hægt væri að ljúka 2. umr. þess. Hins vegar ef sérstakar óskir koma fram um það að halda umræðum áfram á morgun, sem kemur mér reyndar á óvart, þá sé ég því ekkert til fyrirstöðu ef það mætti greiða fyrir afgreiðslu málsins.
    Það hefur komið mér einnig á óvart, virðulegur forseti, að taka til andsvara samkvæmt nýjum þingsköpum með því að reyna að svara helstu spurningum sem til mín hefur verið beint eftir hverja ræðu en það hefur einhvern veginn viljað þannig til að næstu ræðumenn hafa ekki hlustað á umræðurnar og þess vegna ekki hlustað á svörin, hvorki á ræðu né svör þannig að aftur og aftur hef ég mátt svara sömu fyrirspurnum. Ég bið þess vegna hv. þm. sem hóf máls um gæslu þingskapa að sjá til þess ef hann getur að menn þeir sem ætla að taka þátt í 2. umr. séu í salnum þannig að hægt sé að greiða fyrir fundarstörfum. Sjálfur hef ég reynt eftir bestu getu að sitja í þingsalnum. Þetta er mál sem heyrir undir fjmrh. og það eru að sjálfsögðu ekki efni til þess að aðrir ráðherrar sitji undir umræðunni að öllu leyti. Þeir hafa þó flestir hverjir orðið við þeim tilmælum sem til þeirra hefur verið beint. En vegna óska hv. þm., sem ég virði ákaflega mikils, tek ég undir það að ekki er ástæða til að eyða matartímanum núna að þessu sinni í þetta mál og treysti þá á gott samstarf svo að hægt sé að ljúka afgreiðslu málsins.