Upplýsingar ráðherra um sölu Skipaútgerðar ríkisins

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 11:08:00 (2772)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég blandaði mér ekki í umræðurnar í gær um Ríkisskip, utandagskrárumræður og síðan þingskapaumræður. En ég kveð mér hljóðs til að taka undir með hv. 3. þm. Vesturl. að hæstv. samgrh. stendur hér ákaflega sérkennilega að verki gagnvart Alþingi Íslendinga svo að ekki sé fastar að orði kveðið.
    Hvernig stendur á því að hæstv. samgrh. sagði þinginu ekki frá samningum við Samskip í umræðunum í gær? Hvaða ástæða er til þess? Hvað á svona framkoma við Alþingi að þýða? Ef samgrh. vissi ekki að verið væri að ganga frá samningum, hvernig stendur þá á því? Hver fer með málið? Auðvitað samgrh. samkvæmt lögum landsins og stjórnskipan. Framkoma hæstv. samgrh. við Alþingi er auðvitað alveg einstök sem og við fólkið sem starfar hjá fyrirtækinu eða við undirbúningshópinn sem hefur starfað undir forustu hv. 4. þm. Reykv. Hvað er hér að gerast?
    Ég held, virðulegi forseti, að óhjákvæmilegt sé að það verði skapað rúm í umræðum í dag og á morgun til þess að ræða þessi mál við samgrh. og um vinnubrögð hans. Það er svo fáheyrt að einn ráðherra komi með þessum hætti fram við þingið að það er algerlega ólíðandi og er sérstakt tilefni til þess að ræða almennt um vinnubrögð ráðherra og samskipti þeirra við Alþingi yfir höfuð. En auðvitað alveg sérstaklega þá forakt sem hæstv. samgrh. sýndi þinginu í gær í umræðum sem stóðu í nærri klukkutíma, fyrst í utandagskrárumræðum og síðan í umræðum um gæslu þingskapa. Ég tek undir þau orð sem fram komu hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem einnig á sæti í samgn. Ég spyr: Hefur samgn. verið kölluð saman? Mér skilst að svo sé ekki. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að samgn. verði tafarlaust kölluð saman til þess að fjalla um þetta mál. Hér er um algerlega óþolandi framkomu að ræða. Til hvers erum við að tala við ráðherra? Til hvers erum við að biðja um umræður utan dagskrár eða innan dagskrár um mál þegar ráðherrar fara á bak við þingið með sannanlegum hætti eins og hæstv. samgrh. hefur gert. Þetta gengur ekki. Þetta er alveg ólíðandi, virðulegi forseti, og ég stóð upp til þess að taka undir þau orð sem fram komu hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um leið og ég skora á forseta að gera tvennt: Í fyrsta lagi að beita sér fyrir því að samgn. verði kölluð saman. Og í öðru lagi skora ég á forseta að setja ofan í við hæstv. samgrh. því þessi framkoma er ólíðandi dónaskapur gagnvart Alþingi Íslendinga, að ég tali nú ekki um aðra aðila sem um þetta eiga að véla eins og undirbúningshópinn og starfsfólk Ríkisskipa.