Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 11:28:00 (2775)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon ):
     Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að forseti kanni hvort þeir fagráðherrar sem eiga mál undir í þessu safnfrv., þessum bandormi, séu hér til staðar til þess að hlýða á umræður um einstaka efnisþætti sem á þeirra mála- eða verksviði eru. Ég kem ekki auga á hæstv. forsrh. en hann mun hafa flutt þetta frv. Ég tel nauðsynlegt að þeir sem hlut eiga að máli sinni þingskyldum sínum og séu hérna til þess að taka þátt í umræðunni og svara fyrir einstök mál. ( Forseti: Það er rétt sem hv. þm. bendir á, enda var ekki ætlunin sú að frsm. minni hlutans hæfi ræðu sína fyrr en ljóst væri að hæstv. ráðherrar væru komnir. Forseti sér að hæstv. forsrh. er kominn í húsið og mun nú gera honum viðvart. Hann hlýtur að vera rétt ókominn hingað inn í salinn.) Já, ég þakka forseta fyrir það. En ég vil taka það fram að ég tel ekki síður ástæðu til að hæstv. ráðherrar hlýði á framsögu hv. form. nefndarinnar heldur en fulltrúa minni hlutans. Ég minni á að hér eiga fleiri hlut að máli, hæstv. menntmrh. sem I. kafli frv. fjallar nú um, ef svo má að orði komast, þ.e. grunnskólalögin, er hér til staðar. Síðan koma hæstv. heilbr.- og trmrh., hæstv. samgrh. og fleiri við sögu þannig að ég óska eindregið eftir því að þessir ráðherrar verði hér til staðar. Reyndar var fallist á það í umræðum á síðasta ári að óhjákvæmilegt væri að allir viðkomandi fagráðherrar væru hérna þegar unnið væri að lagasetningu sem væri þannig að sullað væri saman í einn lagabálk ólíkum og óskyldum fagmálum.
    Efh.- og viðskn. hefur unnið nær sleitulaust að þessu máli frá 6. eða 7. jan. sl. Og ég hygg að þær brtt. og þau nál. sem hér liggja fyrir segi allt sem segja þarf um það stig sem málið var á fyrir áramótin þegar hæstv. ríkisstjórn hugðist keyra það í gegn. Talsmenn stjórnarandstöðunnar héldu því þá mjög einarðlega fram að fyrir utan efnislega andstöðu við flest í þessu frv. væri það bersýnilega ekki í þeim búningi að boðlegt væri að afgreiða það, burt séð frá innihaldinu. Það voru orð að sönnu svo að ekki sé meira sagt. Um það vitna stíf fundahöld nefndarinnar og fjölmargar atlögur stjórnarliðsins til þess að lagfæra verstu agnúana í þessu máli, tæknilega og efnislega. Samkvæmt prentaðri dagskrá sem hv. þm. hafa væntanlega á borðum sínum eru brtt. þegar orðnar einar sex eða átta, þar af líklega fjórar frá meiri hlutanum og viðamiklar brtt. ýmist við frv., viðbætur við það eða brtt. við fyrri brtt. eru á síðara þingskjalinu sem hv. frsm. meiri hlutans mælti fyrir sem inniheldur hinar nýju brtt. meiri hlutans. Og þetta segir manni að málið var gersamlega óhæft til afgreiðslu í öllu tilliti þegar hæstv. ríkisstjórn hugðist knýja það í gegnum þingið fyrir jólaleyfi. Mig minnir að minni hlutinn hafi ritað undir nál. sitt 18. des. sl. og í framhaldi af því hafði hæstv. ríkisstjórn áhuga á að afgreiða málið.
    Hæstv. forseti, nú í upphafi umræðunnar er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessum handahófskenndu vinubrögðum og átelja þau. Einnig er óhjákvæmilegt að átelja framkomu hæstv. ríkisstjórnar við fjölmarga málsaðila úti í þjóðfélaginu, hagsmunasamtök, hópa og stofnanir sem hún hefur komið fram við á ótrúlegan hátt. Ég mun fara yfir það jafnóðum og ég geri grein fyrir einstökum efnisatriðum í nál. minni hlutans hvernig þessu hefur verið háttað. Til þess að gera langt mál stutt má segja að allar hefðbundnar samskiptareglur sem mótast hafa í áranna rás milli ríkisvalds og þolenda hafi verið brotnar. Og þar á ég ekki einungis við almannasamtök og hagsmunaaðila úti í þjóðfélaginu óskylda ríkisvaldinu sem að sjálfsögðu hafa ekki verið virtir viðlits í anda hins nýja stíls. Ég á líka við hinar einstöku stofnanir ríkisins sem eiga að framkvæma lög eins og Tryggingastofnun og Ríkisendurskoðun. Ýmsar spurningar vakna um viðhorf núv. stjórnarherra, ekki bara til almennings, almannasamtaka og hagsmunahópa úti í þjóðfélaginu, því það er löngu ljóst og orðið borðleggjandi að hæstv. ríkisstjórn hyggst ekki hafa samráð við slíka aðila og ekki virða þá viðlits. Og það vakna einnig upp spurningar um hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að standa að starfrækslu hins opinbera stjórnkerfis og rekstri opinberra stofnana í ljósi þess t.d. að þegar undirbúnar eru flóknar og vandasamar breytingar á almannalöggjöfinni, tryggingalöggjöfinni, þá er ekki talað við Tryggingastofnun. Það kemur í ljós þegar nefndamenn í fagnefndum þingsins óska eftir áliti Tryggingastofnunar eftir að viðkomandi hlutir hafa verið til umfjöllunar á Alþingi í nokkra daga að þá fyrst er haft formlegt samband við Tryggingastofnun út af viðkomandi máli. Þessi vinnubrögð, hæstv. forseti, leyfi ég mér að átelja harðlega í upphafi máls míns. Reyndar held ég að það eigi eftir að koma á daginn að vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar séu ákaflega ólíkleg til þess að auðvelda henni störfin á næstu mánuðum og árum ef hún skyldi sitja svo lengi, sem vonandi verður nú ekki. Ég sé ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar t.d. að skapa jákvætt andrúmsloft í röðum ríkisstarfsmanna sem er ætlað að ganga í raun og veru í skítverkin fyrir hæstv. ríkisstjórn, að skera niður þjónustu og þurfa síðan að standa frammi fyrir þeim sem þá þjónustu missa og taka að sér að segja nei-in fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ætli menn geri það með glaðara geði þegar framkoman við þá er eins og raun ber vitni?
    Nei, margt hefur verið með miklum endemum í þessum efnum, hæstv. forseti, og held ég að óhætt sé að fullyrða að leitun sé að því í þingsögunni að vinnubrögð sem tengjast einu máli hafi verið eins og raun ber hér vitni. Til þess að halda nú öllu til haga skal þó tekið fram að forsvarsmenn stjórnarliðsins í efh.- og viðskn. hafa verið menn til þess að viðurkenna þessar staðreyndir og skapa þar tíma og rúm fyrir allítarlega vinnu og skoðun sem tvímælalaust hefur lagað þetta mál tæknilega séð og í einstaka tilvikum hvað innihald snertir. En því miður sér varla högg á vatni vegna þess að málinu hefði þurft að vísa frá nánast eins og það leggur sig af þeim sökum að boðskapur þess er í raun hin mesta óhæfa og ég held að það sé ekkert of sterkt til orða tekið að þetta sem hér er verið að leggja til hljóti að flokkast undir skemmdarverk í meira og minna mæli á hinu íslenska velferðarkerfi. Því enginn getur deilt um það að þar er á ferðinni afturför t.d. í skólamálum. Í tillögum meiri hlutans er borðleggjandi verið að boða afturför í skólamálum. Það verður vaxandi misrétti vegna ýmissa breytinga sem verða t.d. í almannatryggingum og fleira mætti nefna af því tagi.
    Hæstv. forseti. Í I. kafla frv. eru fyrst ákvæðin sem lúta að breytingu á lögum um grunnskóla, lögum nr. 49/1991. Eins og áður hefur komið fram er minni hlutinn algerlega andvígur þeim ákvæðum. Þar er verið að smygla með í þessum svokölluðu sparnaðarráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar fagpólitískum breytingum á lögum um grunnskóla. Það er óhæfa að standa þannig að verki, ekki síst með tilliti til þess að hæstv. menntmrh. hefur boðað endurskoðun á lögum um málefni grunnskólans. Slíkar fagpólitískar ákvarðanir hafa í sumum tilvikum enga þýðingu fyrir útgjöld ríkisins, í öðrum tilvikum fresta þær ákvæðum sem hvort eð er er heimild til í lögum að fresta en í einstökum tilvikum opna þær möguleika fyrir hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. menntmrh. til þess að ganga beinlínis aftur á bak í skólamálum svo sem með því sem er ákvæði hinna nýju brtt. meiri hlutans sem bætist við brtt. frá því fyrir jól að heimila fjölgun nemenda í bekkjardeildum í ákveðnum tilvikum upp í 30. Þess vegna leggjum við til eins og áður að þessum kafla verði í heild sinni vísað til ríkisstjórnarinnar þaðan sem hann er kominn. Og við hvetjum hæstv. menntmrh. eindregið til þess að manna sig upp í að leggja fram þær breytingar á grunnskólanum sem hann vill merkja sér og gera að fána sínum í skólamálum með þeim hætti sem eðlilegt og réttmætt er þ.e. með frv. til laga um breytingar á lögum um grunnskóla en fela þær ekki inni í þessum bandormi ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál. Enda hefur samþykkt þessa hluta frv. sáralítil áhrif á útgjöld ríkisins samanborið við það sem hæstv. menntmrh. ætlar sér í formi hins flata niðurskurðar og bundið er í fjárlögum. Þá hverfa nánast þær tölur sem hér eru á ferðinni og einfalt að afgreiða þetta með þeim hætti.
    Minni hluti menntmn. hefur skilað ítarlegu áliti til efh.- og viðskn. Það minnihlutaálit er prentað með frhnál. minni hluta efh.- og viðskn. og munu talsmenn stjórnarandstöðunnar í menntmn. gera frekari grein fyrir ákvæðum þess. Ég sé því ekki ástæðu til, herra forseti, að fara ofan í þau en vek athygli þingmanna á fylgiskjölum með nál. minni hluta menntmn. Þar koma fram margar mjög athyglisverðar upplýsingar frá Kennarasambandi Íslands, samtökunum Samfok og upplýsingar úr fjölmiðlum þar sem birt eru orðrétt viðtöl við hæstv. menntmrh. Þar er aðallega til umfjöllunar sá mikli niðurskurður í skólakerfinu sem hæstv. menntmrh. er að vandræðast með og á handahlaupum undan í fjölmiðlunum þessa dagana. Ég treysti því að gerð verði ítarleg grein fyrir þessu af talsmönnum stjórnarandstöðunnar í menntmn. En ljóst er að ef öll áform hæstv. ríkisstjórnar ná fram að ganga verða mikil tíðindi í skóla- og menntamálum á þessu ári. Og satt best að segja hryggilegt að í velferðarríkinu Íslandi skuli menn standa frammi fyrir slíkum áformum á því herrans ári 1992.
    Hæstv. forseti, tímans vegna sleppi ég því að fjalla um þær greinar frv. sem ræddar voru í framsögu og í nál. minni hlutans fyrir jól eins og ákvæðin um breytingu á jarðalögum, um stjórn fiskveiða, kosningar til Alþingis og fleira því um líkt þar sem engin ný tíðindi hafa orðið. Ég vísa til þess nál. og þeirra umræðna og framsöguræðu sem þá voru flutt.
    En ég ætla að staldra lítillega við 9. og 10. gr. frv. sem lúta að ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota. Þar eru ekki lagðar til nýjar breytingar en það kom nokkuð til umræðu í efh.- og viðskn. m.a. vegna þess að á nýbyrjuðu ári komu aðilar vinnumarkaðarins á fund nefndarinnar og höfðu fram að færa endurtekin og ítrekuð mótmæli við ákvæðum þessara greina. Rétt er að rifja það upp fyrir hæstv. alþingismönnum að þessi ríkisstjórn gjaldþrotanna, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., sem hefur gert gjaldþrotin að fána efnahagsstefnu sinnar eins og kunnugt er, er samtímis því að styðjast við gjaldþrotin sem sitt helsta efnahagsúrræði að leggja til að ríkið hætti þátttöku eða svo gott sem í greiðslum launa til fólksins sem missir ekki bara laun sín heldur og vinnu þegar fyrirtæki verða gjaldþrota úti í þjóðfélaginu. Um alllangt árabil hefur tryggingakerfi verið við lýði sem ríkið hefur kostað. Það er hinn sameiginlegi sjóður landsmanna sem tryggir að starfsfólk sem verður fyrir því að vinnuveitandi þess verður gjaldþrota og skuldar því laun þegar þrotabúið á ekki fyrir laununum eða mörg ár tæki að fá það uppgert og kemur þá til sögunnar sérstök ábyrgð ríkisins og laun þessa fólks eru greidd upp að vissu marki innan tiltekins ramma alllangt aftur í tímann. Þetta fyrirkomulag, að tryggja rétt launafólks með þessum hætti, er nánast orðið regla í öllum þróuðum ríkjum og reyndar komið inn í alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. En hæstv. ríkisstjórn ætlar að kippa að sér hendinni á þessu ári og velta öllum byrðum af þessum hlutum yfir á atvinnulífið, fyrirtækin og launafólkið. Það er mat aðila vinnumarkaðarins að launagreiðslugeta eða kaupmáttur launa verkafólks, skerðist allverulega af þessum sökum. Og til viðbótar verða þessi réttindi stórlega takmörkuð t.d. sá tími sem ábyrgðin nær til verður væntanlega styttur úr sex mánuðum niður í þrjá og fleira þar fram eftir götunum. Það þarf ekki að sökum að spyrja að aðilar vinnumarkaðarins sem þessa dagana eru að reyna að koma af stað viðræðum um kaup og kjör taka því næsta þunglega að fá slíka kveðju frá ríkisstjórninni einmitt núna. Maður skilur ekki hvað vakir fyrir þeim sem leggja slíkt til í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í þessu máli í ljósi þess að gjaldþrotum fer fjölgandi, að kjarasamningar eru lausir og að kaupmáttur hefur verið að skerðast í landinu. Í raun og veru er sama hvar á málið er litið, jafnfráleit er þessi málafylgja hæstv. ríkisstjórnar.
    Við þetta bætist svo að nýjustu tölur um atvinnuleysi eru harla dökkar. Atvinnuleysi fer því miður mjög vaxandi og í desembermánuði sl. var það hið mesta sem verið hefur á sama árstíma um áratugaskeið. M.a. í mínu kjördæmi og hv. þm. Norðurl. e. sem stendur þarna í dyrunum þar sem þetta ástand er mjög alvarlegt. Hvað segir það okkur? Jú, það segir okkur að í mjög mörgum tilvikum því miður bíður ekkert nema atvinnuleysi þess fólks sem missir vinnu sína vegna gjaldþrota fyrirtækja. Við akkúrat þær aðstæður á vinnumarkaðinum velur hæstv. ríkisstjórn sér að gera árás á réttindi og stöðu launamanna á vinnumarkaði. Þetta er mjög myndarlegt og ég er viss um að hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbjörn Gunnarsson, er stoltur af því að þetta skuli vera eitt af fyrstu málum hæstv. ríkisstjórnar í þingmannstíð hans sem hann fær að styðja. Við í minni hlutanum ítrekum mótmæli okkar við þessum ákvæðum. Við vörum hæstv. ríkisstjórn við því að lögfesta þessi ákvæði við núverandi aðstæður varðandi kjarasamninga og á vinnumarkaði og fordæmum að þarna skuli ráðist á garðinn.
    Í þriðja lagi, herra forseti, ætla ég að víkja að 12. gr. frv. sem fjallar um breytingu á lögum nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun. Þar er að sönnu ekki heldur lögð til breyting á frv. í brtt. sem fyrir þinginu liggja en nýjar upplýsingar hafa borist efh.- og viðskn. um efni þessara greina og einkum 12. gr. frv. en þær eru á þann veg að gagnstætt því sem látið var í veðri vaka er ekkert samkomulag við sveitarfélögin um að þau taki nú á sig einhliða skuldbindingu til að greiða 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði hverrar einustu félagslegrar íbúðar sem keypt er inn í hið félagslega kerfi eða byggð í viðkomandi sveitarfélagi. Það var látið í veðri vaka að um þetta væri samkomulag við sveitarfélögin. Okkur í efh.- og viðskn. lék þess vegna hugur á að fá það staðfest hvort svo væri eða ekki. Við óskuðum eftir bréflegri staðfestingu frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga á því að gert hefði verið samkomulag við sveitarfélögin um þetta efni. Svarið kom skýrt og afdráttarlaust að svo væri ekki. Og hafi menn haft ástæðu til að ætla það þá þarf ekki frekari vitnanna við en umfjöllun sambandsstjórnar sveitarfélaga á fundi sínum 13. des. sl. því þar gerði framkvæmdastjórn sambandsins grein fyrir þessu máli og hvernig samráði ríkisvaldsins við sveitarfélögin hefði verið háttað með eftirfarandi orðum. Með leyfi forseta les ég upp úr bréfi framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga sem efh.- og viðskn. Alþingis barst af þessu tilefni:
    ,,Forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga komu í haust á fund félmrh. þar sem óskað var eftir samráði við sambandið varðandi aukna kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í byggingarkostnaði félagslegra íbúða. Þar var gert ráð fyrir að kostnaðaraukinn næmi 3,5% af byggingarkostnaði félagslegra íbúða til viðbótar því 10% láni er sveitarfélög veita Byggingarsjóði verkamanna. Rætt var um að aukin kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna næmi um 128 millj. kr. miðað við byggingu 600 félagslegra íbúða á ári. Á fundi stjórnar sambandsins þann 13. des. sl. lá nánari útfærsla þessa máls ekki fyrir í formi lagafrv. En málið var kynnt þar með sama hætti og á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga 18. nóv. sl. Þar gerði Þórður Skúlason grein fyrir málinu og sagði eftirfarandi orðrétt á þessum opna fundi:
    ,,Þessi hugmynd hefur verið kynnt fyrir forsvarsmönnum sambandsins og þá í því formi að sveitarfélögin féllu frá innheimtu gatnagerðargjalds af félagslegum íbúðum eða tækju á sig 3,5% kostnaðarhlutdeild í byggingum með öðrum hætti.``
    Sambandið hefur ekki tekið neina afstöðu til þessara hugmynda enda ekki formlega eftir því leitað. Í framhaldi þessa var ekki um frekara samráð að ræða varðandi málið enda hafa samskipti ríkis og sveitarfélaga tekið aðra stefnu að undanförnu.`` Síðan endaði framkvæmdastjóri sambandsins bréf sitt á því að skora enn og aftur á Alþingi að fella niður 600 millj. kr. álögur á sveitarfélögin í formi löggæsluskatts sem á að setja á þau án nokkurs samráðs.
    Þetta staðfestir svo ekki þarf frekari vitnanna við að ekkert samkomulag er um þetta atriði og þarna er því um að ræða enn eina atlöguna að sveitarfélögum í landinu, einhliða íþyngjandi ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn er hér að leggja til við Alþingi að fallast á. Það er mikill skaði, hæstv. forseti, að félmrh. skuli ekki vera genginn í þingsalinn því að sannarlega er þetta mál sem varðar hæstv. félmrh. og þau verða fleiri hér á eftir í þessu frv. sem óhjákvæmilegt er að ræða við hæstv. félmrh. Mér þætti ástæða til að forseti kannaði hvar hæstv. félmrh. heldur sig á hnettinum á þessari stundu og hvort hæstv. ráðherra á langt til þings. ( Forseti: Hæstv. félmrh. er í húsinu samkvæmt töflu forseta og forseti hefur þegar látið vita af því að hæstv. ráðherra sé óskað hér.) Það væri nú fróðlegt, hæstv. forseti, að gera könnun meðal ráðherranna um það hvort þeim er eitthvað sérstaklega illa við þingsalinn. Það er eins og þeim líði svo illa í þessum húsakynnum að þeir tolli hér aldrei stundinni lengur. ( Forsrh.: Þeir sitja nokkuð vel núna miðað við þingmenn.) Ja, það er nú spurning. Eru ekki ráðherrar um sjötti hlutinn af þinginu? Þeir ættu því að vera hér nokkrir miðað við þingmenn.
    Herra forseti. Ég tel að sérstök ástæða sé til að vekja athygli alþingismanna á því ákvæði sem hér er á ferðinni í 12. gr. frv. Svo ótrúlega vildi til þegar fulltrúar minni hluta efh.- og viðskn. fóru að skoða þetta ákvæði, ræða það og spyrjast fyrir um það lá til að mynda enginn skilningur fyrir á því hvort um væri að ræða afdráttarlausa kvöð á sveitarfélögin að greiða þessi 3,5% í allar félagslegar íbúðir án tillits til þess hver byggði þær eða hvort eingöngu væri um að ræða þann huta félagslega íbúðarhúsnæðisins sem er á vegum sveitarfélaganna sem framkvæmdaraðila. Það reyndist t.d. nauðsynlegt að fá úr því skorið með viðtölum við félmrn. og Húsnæðsstofnun hvað fyrir mönnum vekti í þessum efnum. Rétt er að það komi fram að forsvarsmenn húsnæðismála hjá Reykjavíkurborg mótmæltu þessu ákvæði. Enda varðar það Reykjavíkurborg allmiklu því að hér er drjúgur hluti allra félagslegra íbúðarbygginga í landinu. Þá hafa hv. alþm. það sem sagt svart á hvítu samkvæmt þessum upplýsingum að annars vegar er um að ræða einhliða íþyngjandi ákvæði sem ríkisstjórnin leggur til að sveitarfélögin verði skylduð til að taka á sig og nemur útgjöldum fyrir þau upp á um 120 millj. kr. að talið er og hins vegar er um það að ræða að sveitarfélögin eru skylduð til að greiða 3,5% af kostnaðarverði hverrar einustu íbúðar í félagslega kerfinu án tillits til þess hver byggir hana. Með öðrum orðum, þó að til að mynda algerlega óviðkomandi félagasamtök byggi svona íbúðir sem sveitarfélögin hafa ekkert yfir að segja þá skulu þau eftir sem áður greiða 3,5% af kostnaðaverði íbúðanna. Nú vil ég taka fram til að forða misskilningi að yfirleitt eru þessar íbúðarbyggingar af hinu góða og það er svo sem ekki ástæða til að ætla annað en að sveitarfélögin séu velviljuð samtökum eins og Búseta, Félagsstofnun stúdenta eða öðrum slíkum sem ráðast í íbúðarbyggingar fyrir sína félagsmenn en það er ákveðin spurning hvort það er eftir sem áður eðlilegt að lögfesta svona atriði með þessum hætti þegar það ofan í kaupið er gert án samkomulags við sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru þvinguð til að leggja fram þessar greiðslur jafnvel til óskyldra aðila hvað sem tautar og raular með þessu ákvæði án þess að samkomulag sé um það við þau.
    Það gleður mig stórlega að hæstv. félmrh. skuli sjá sér fært að vera hér í þingsalnum um stund og ég vænti þess að hæstv. félmrh. séu ljós efni þeirra ákvæða sem ég er hér að ræða. Það varðar 10. og 11. gr. frv., bandormsins, hæstv. félmrh., og ég var að veita hv. alþm. upplýsingar um að samkvæmt bréflegum gögnum, sem efh.- og viðskn. hefur, var ekkert samkomulag við sveitarfélögin um þetta atriði. Sömuleiðis var staðfestur sá skilningur sem nauðsynlegt er að liggi alveg ljóst fyrir og félmrh. ætti að leiðrétta ef ekki er réttur af minni hálfu að þetta ákvæði feli í sér fortakslausa kvöð á sveitarfélögin að leggja fram þessi 3,5% í allar félagslegar íbúðir án tillits til þess hver byggingar- eða eignaraðilinn er. Þetta var sá skilningur sem var upplýstur í nefndinni og nauðsynlegt er að enginn vafi leiki á því.
    Ég vil svo að endingu um þetta atriði taka fram að eins og ég hef áður sagt tel ég fulla ástæðu til að ætla að sveitarfélögin hefðu verið velviljuð því að leggja þarna sitt af mörkum og jafnvel verið tilbúin að gera um það samkomulag ef komið hefði verið fram við þau á sæmilega heiðarlegan hátt og átt við þau eðlileg samskipti um þessi mál og önnur á undanförnum vikum. En svo var ekki enda kemur það skýrt fram í bréfi framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga og reyndar í fleiri bréfum frá stjórn sambandsins að öll hafa þessi samskipti þróast á hinn versta veg nú að undanförnu.
    Að lokum í framhaldi af þessu og með þessum rökstuðningi þá leggjum við til að þessum kafla frv., um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun, verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar og hún taki húsnæðismál til skoðunar með öðrum hætti en hér er á ferðinni. Mörg önnur rök mætti færa fyrir því að gera svo en ætla ég tímans vegna ekki að halda hér út í umræður um stöðu húsnæðismálanna almennt eins og ástandið varðandi húsbréfin og afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum, illdeilurnar sem verið hafa uppi innan ríkisstjórnar og milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um þau mál o.s.frv. Allt er það kunnugt og bíður síns tíma að taka á þeim hlutum.
    Þá ætla ég, hæstv. forseti, að ræða næst í fjórða lagi eitt aðalefni þessa frv. og sérstaklega þó þeirra brtt. sem meiri hlutinn hefur lagt hér fram í framhaldi af ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar og lúta að breytingum á lögum um almannatryggingar. Í bréfi frá hæstv. forsrh. þann 7. jan. sl. bárust inn í efh.- og viðskn. hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um skerðingu á grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Að vísu var ljóst að eitthvað af þessu tagi var í vændum frá hæstv. ríkisstjórn því að í fjárlagafrv. hafði verið boðað að spara skyldi allnokkurn pening í almannatryggingakerfinu en útfærslan á þeim hugmyndum kom fyrst fram í dagsljósið með bréfi hæstv. forsrh. frá 7. jan. Þær eru á þann veg að þennan sparnað á allan að hafa með því að skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega, þó þannig innan örorkulífeyrisþegahópsins að þær tekjur sem af skerðingunni leiða ganga til útjöfnunar innan hópsins. Með öðrum orðum er skerðing hjá tekjuhærri örorkulífeyrisþegar og þeir fjármunir færast yfir til þeirra sem lægri eða engar hafa tekjurnar.
    Þarna er brotið blað í sögu almannatrygginga á Íslandi því að lengst af hefur þessi hluti greiðslnanna verið án tekjutengingar og það er kunnugt að talsmenn Samtaka aldraðra líta á þennan grunnlífeyri sem áunninn rétt í reynd sem þar með sé ef ekki beinlínis lögformlega óheimilt að skerða þá í öllu falli siðlaust eins og formaður Samtaka aldraðra í landinu hefur margítrekað sagt á undanförnum dögum í fjölmiðlum. Þar er vísað til þeirrar staðreyndar að um áratugaskeið hefur verið innheimt af þeim sem nú eru á ellilífeyristökualdri sérstakt iðgjald til að mæta kostnaði hins opinbera af greiðslu grunnlífeyris.
    Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessarar deilu enda hef ég ekki forsendur til þess. Ljóst er að deilan er studd þeim ákveðnu rökum af hálfu talsmanna aldraðra að með greiðslu iðgjaldsins um áratuga skeið, sem hefur sérstaklega verið merkt kostnaði ríkisins vegna þessara útgjalda, hafi myndast a.m.k. siðferðislegur réttur til þessa lífeyris. En að sjálfsögðu veigrar ríkisstjórnin sér ekki við að svipta burtu þessum réttindum af þúsundum aldraðra í landinu og verður svo sannarlega ekki sagt að ríkisstjórnin sé að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur, a.m.k. ekki í efnahagslegu tilliti þessa dagana, hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Það ber að taka það fram að við skoðun bæði í heilbr.- og trn. og í efh.- og viðskn. hefur tekist að lagfæra fáein atriði svo sem að setja fyrir það að skerðing þessara grunnréttinda muni sjálfkrafa svipta menn ýmsum öðrum tengdum bótum en eins og málið var fram lagt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar var það slík hrákasmíð að t.d. hefðu þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem áttu að fá skertan grunnlífeyri einnig misst barnalífeyri. En það tókst í nokkrum tilvikum að lagfæra slíka augljósa fingurbrjóta í frv. Hitt er svo öllu alvarlegra að við skoðun nefnda á málinu komu fjölmörg álitamál skýrt fram í dagsljósið. Framkvæmd skerðingarákvæðanna er geysilega erfið og vandasöm og flækir almannatryggingakerfið til mikilla muna þar sem ofan á allt annað sem áður þurfti að reikna út og skoða bætist nú við að taka þarf til skoðunar nánast á persónulegum grundvelli skattframtal hvers einasta elli- og örorkulífeyrisþega og reyna þar að lesa út úr því með hvaða hætti skuli skerða grunnlífeyri hans ef slíkt kemur til. Það þarf auðvitað ekki frekari vitnanna við um það hvað verið er að gera. Inn í þá gatslitnu almannatryggingalöggjöf sem hefur sárlega þarfnast heildarendurskoðunar um árabil á enn að bæta þessum flækjum. Enda fórna þeir menn höndum sem eiga að standa að framkvæmd málsins og tekur alveg steininn úr þegar það var svo upplýst í nefnd --- hæstv. heilbr.- og trmrh., ef það væri hugsanlega hægt að fá eitt viðtalsbil. ( Heilbrrh.: Það er dýrt.) Svona innanbæjarsímtal við hæstv. ráðherra og hæstv. fjmrh. fyndi sér eitthvað annað sér til skemmtunar en að ræða við vin sinn, hæstv. heilbr.- og trmrh. nákvæmlega meðan verið er að fjalla um þessi ákvæði almannatryggingalöggjafarinnar. Er fallist á það? Á ég að taka höfuðhreyfingar hæstv. heilbrrh. þannig? ( Fjmrh.: . . .  ekki til skemmtunar.) Nei, ég veit það, hæstv. fjmrh., það er ekki til skemmtunar að ræða við heilbr.- og trmrh., ég biðs forláts, það var mjög misráðið af mér að láta mér detta það í hug.
    En ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. heilbr.- og trmrh. geri okkur grein fyrir því í þinginu hvernig hann hyggst standa að framkvæmd þessara mála. Í fyrsta lagi óska ég eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. svari því hvers vegna var ekki haft samband við Tryggingastofnun ríkisins við undirbúning málsins. Hvað á það að þýða að ráðast í svona tiltektir, ef svo má að orði komast eða hitt þó heldur, í tryggingalöggjöfinni og hafa ekki um það hið minnsta samráð við Framkvæmdastofnun ríkisins á þessum sviðum? Hefur hæstv. heilbrrh. aldrei lesið lögin sem kveða m.a. á um verksvið Tryggingastofnunar, til hvers hún er rekin? Hefur hæstv. heilbrrh. einhvern veginn fengið þann skilning inn í höfuðið að hún sé einhver sérstök skítverkastofnun til þess eingöngu að framkvæma þau hervirki sem hæstv. ráðherra stendur nú fyrir í tryggingamálum?
    Staðfest er svo ekki verður um deilt að ekkert samráð var haft við Tryggingastofnun við undirbúning málsins. Síðan koma talsmenn Tryggingastofnunar á fund heilbr.- og trmn. og efh.- og viðskn. og bera sig sáran undan því hvernig í ósköpunum þeir eigi að fara að því að framkvæma þessa vitleysu. Þeir telja sig þurfa stórkostlega aukinn mannafla til þess að geta það og þeir biðjast undan því að framkvæmdin hefjist fyrr en a.m.k. 1. mars. Það þýðir ekki fyrir hæstv. heilbrrh. að neita þessum staðreyndum, þær liggja fyrir. Annaðhvort er hann að bera það upp á nefndarmenn í heilbr.- og trn. og efh.- og viðskn. að þeir séu að ljúga eða hæstv. heilbrrh. ætli að setjast niður og hætta að hrista höfuðið. Því að þar kom skýrt fram að í fyrsta lagi telur stofnunin sig þurfa aukinn mannafla og fyrir því liggja bréf, hæstv. ráðherra, og í öðru lagi telja þeir nánast óframkvæmanlegt að hefja framkvæmd á þessum skerðingum fyrr en í fyrsta lagi 1. mars. Hvað gerði hæstv. heilbrrh. þá? Hann kallaði mennina til fundar og sagði: Þið gerið þetta samt. Og þetta byrjar 1. febr.
    Og svo komu þessir lúbörðu opinberu starfsmenn, sem eiga í vændum sérstaka lögreglu yfir höfði sér frá ríkisstjórninni til fundar við nefndina og sögðu: Ja, þetta er bara eins og í hernum. Það er gefin skipun og við hlýðum, hvort sem við getum það eða getum það ekki. Þetta verður framkvæmt hvort sem það er hægt eða ekki hægt. Heilbrrh. er búinn að segja það. Punktur, málið afgreitt. ( Gripið fram í: Hershöfðingi.) Það er auðvitað hárrétt sem hér er kallað fram í, auðvitað starfar hæstv. heilbrrh. miklu líkar því að hann væri hershöfðingi í einhverjum miðaldaher þar sem minnsta refsing var að höggva af mönnum höndina og næsta refsing var að höggva af mönnum hausinn. Dómskerfið og réttarkerfið var ekki flóknara í hernum á þeim tíma. Hæstv. heilbrrh. starfar í þessum anda. Hann kallar starfsmenn sína sem eru með faglegum rökum að reyna að koma vitinu fyrir ráðherra og aðra sem hlut eiga að máli inn á teppið og segir: Þið gerið þetta samt, hvort sem það er hægt eða ekki hægt.
    Ég bið hæstv. heilbrrh. að upplýsa það í ræðustól á Alþingi að þessir aumingja starfsmenn, þessi hrjáðu menn sem þarna eiga hlut að máli, hafi farið með rangt mál. Ég ætla að lesa fyrir hæstv. heilbrrh. bréf sem fjallar um þetta efni úr því að hann er svona vantrúaður á að verið sé að fara með rétt mál. Við óskuðum eindregið eftir því þrátt fyrir nauman tíma að Tryggingastofnun reyndi að leggja á það mat hvaða áhrif þetta hefði á starfsemi stofnunarinnar og hvað þyrfti til að framkvæma áform ríkisstjórnarinnar um skerðingu á grunnlífeyri. Við fengum bréf frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrisdeild, dags. 14. jan. 1992 og segir þar:
    ,,Í framhaldi af umræðum í dag varðandi framkvæmd lífeyristrygginga, ef fyrirhugaðar lagabreytingar á lögum nr. 67 frá 1971 ná fram að ganga, vil ég taka fram eftirfarandi varðandi þörf á auknu starfsliði.
    Ráða þarf tvo starfsmenn í sex mánuði að mínu mati vegna þessa.
    Virðingarfyllst,     Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrisdeild, Hilmar Björgvinsson.``
    Ég ætla að upplýsa það hér og ég tel mig hvorki brjóta þar trúnað né segja rangt frá að bréfið er hógvært miðað við það sem efh.- og viðskn. mátti skilja á máli talsmanna Tryggingastofnunar þegar þeir lýstu sínum sjónarmiðum munnlega í þessum efnum. Hér eru að sjáfsögðu á ferðinni samviskusamir og hollir og trúir embættismenn sínum yfirboðara og hershöfðingja, hæstv. heilbrrh., og taka greinilega eins vægt til orða og þeir samvisku sinnar vegna geta. Efh.- og viðskn. hefur svo sannarlega ástæðu til að ætla að þetta sé vægt að orði komist varðandi þau vandkvæði sem framkvæmd þessara mislukkuðu óþurftarákvæða um skerðingu á ellilífeyri og örorkulífeyri hafa í för með sér fyrir framkvæmdaraðilann Tryggingastofnun ríkisins.
    Svo er auðvitað upplýst að stofnuninni er að sjálfsögðu bannað að ráða nýja menn, algjörlega hreint ,,Berufsverbot``. Og það er bannað að vinna yfirvinnu. Sjái menn nú í anda þetta aumingja starfsfólk sem fær síðan gamla fólkið til viðtals við sig tugum og hundruðum saman og á að standa með blóðugan niðurskurðarhníf hæstv. heilbrrh. í hödnunum og rífa af þessu fólki bæturnar. Því er bannað að vinna yfirvinnu, bannað er að bæta við mannafla til að framkvæma skítverkin. Nú verður herstjórnin ekki fullkomnari en þarna ber raun vitni hjá hæstv. heilbrrh.
    Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að nefndarmenn í heilbr.- og trn. geri betur grein fyrir hinum beinu áhrifum skerðingarákvæða ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst að hér eru á ferðinni stórkostlega alvarlegar breytingar á högum aldraðra í landinu og þetta mun enn auka á aðstöðumun aldraðra eftir því hvernig eða hvort þeir hafa einhverjar tekjur. Ég hygg að mat allra þeirra sem þessi mál hafa skoðað sé að það versta við breytinguna sé að það eru eingöngu launatekjur aldraðs fólks og reyndar öryrkja sem koma til skerðingar á grunnlífeyri. Launatekjur upp á nokkra tugi þúsunda króna geta svipt þetta fólk með öllu þessum réttindum, áunnum að það telur, en á sama tíma er ekki hróflað við greiðslu grunnlífeyris þó að menn hafi margfaldar tekjur, jafnvel hundruð þúsunda króna, í fjármagnstekjur, eignatekjur eða frá lífeyrissjóðum. Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að þetta mun auka enn á aðstöðumun aldraðs fólks í landinu. Ekki er hróflað við högum eignastéttarinnar, forréttindastéttarinnar, frekar en venjulega. En það aumingja gamla fólk sem er að reyna að drýgja tekjurnar eitthvað og finnst kannski eins og fleirum að það sé erfitt að lifa af 60 þús. kr. á mánuði af almannatryggingunum einum og bótunum sem þeim fylgja og freistast þess vegna til þess að fara út á vinnumarkaðinn og reyna að lagfæra aðeins sína stöðu með því. T.d. verður opinberum starfsmönnum, sem er gert að hætta á vinnumarkaðnum við sjötugsaldur, alveg sérstaklega refsað með þessum breytingum fyrir það. Auðvitað er verið að ýta þessu fólki út af vinnumarkaðnum. Það er verið að hvetja það til að hætta vegna þess að það hafi svo sem ekkert upp úr því að vera að vinna einhver nytsöm störf sem valdi eingöngu skerðingu á lífeyri þeirra á móti.
    Eitt af því sem við, minni hlutinn í efh.- og viðskn., létum taka saman fyrir okkur og er á bls. 12 í nál. minni hlutans var tafla um jaðarskattsprósentur þessa fólks. Svo ganga menn um með þann misskilning að á Íslandi sé ekki nema 40% skattur af tekjum eftir að persónufrádráttur hefur verið að fullu nýttur. Svo er ekki. Það er algjör misskilningur. Jaðarskattsprósenturnar eru öllu skrautlegri þegar í hlut eiga elli- og örorkulífeyrisþegar. Hvernig eru þær? Þær eru þannig að fyrstu 5.215 krónurnar sem einhleypur ellilífeyrisþegi fær í laun --- vel að merkja fyrir vinnu sína, ekki ef hann á skuldabréf eða eignir --- skerða bætur hans um 100%, jaðarskattsprósentan er 100%. Það er ekki mjög hvetjandi fyrir einhleypan ellilífeyrisþega sem fær fullar bætur og heimilisuppbót að fara út á vinnumarkaðinn og vinna a.m.k. ekki fyrir 5.215 krónunum því að þær eru allar teknar af honum, hver ein og einasta. Við gætum hugsað okkur að þetta væri t.d. smávægileg þóknun fyrir nefndarstörf eða fundasetur ef aldraður og reyndur maður vildi taka að einhverju leyti þátt í einhverri starfsemi og fyrir það væri greidd smávægileg þóknun. Það eru vinnulaun. Og fyrstu 5.215 krónurnar hverfa jafnharðan gegnum 100% skattlagningu. Maður þakkar eiginlega fyrir að það skuli ekki vera svona 105% þannig að hann þurfi að borga með sér. Það væri eiginlega bara næsta skref hjá mönnum að gera það.
    Að vísu skal taka fram til þess að halda öllu til haga að þetta er ekki nýtt ákvæði. Svona hefur þetta verið því miður um þennan hluta skattbilsins en afrek hæstv. ríkisstjórnar koma hér aðeins aftar og nýja skattprósentan hennar sem verður auðvitað lengi uppi. Síðan er það svo að enginn skattur er frá næstu krónum, frá 5.215 og upp að 16.280. Þeirra tekna njóta menn í þessu tilliti án skattlagningar. En þar með er það líka búið og breytir nú heldur um því að frá 16.280 kr. og upp í 20.630 í launatekjur á hverjum mánuði er skattprósentan 60%. Þá versnar enn í því að frá 20.630 og upp í 65.847 eru 76%, rúmlega þrjár krónur af hverjum fjórum, teknar af því fólki sem þarna dirfist að ætla að laga stöðu sína eða drýgja tekjur sínar með vinnulaunum. Og er þá svo komið að jafnvel frændur okkar Svíar, sem lengi áttu og eiga kannski enn heimsmet í skattlagningu í þessu efni, komast sennilega ekki með tærnar þar sem við höfum hælana. Vegna þess, hæstv. heilbrrh., að hér er ekki hátekjufólk á ferð, eða hvað? Er þetta hátekjuskatturinn sem mikið hefur verið rætt um? Er hann fundinn þarna hjá hæstv. ríkisstjórn og hún nú búin að reka af sér slyðruorðið og hafi tekið til við að leggja á hátekjuskatt á Íslandi? Og hafi fundið til þess breiðu bökin, gamla fólkið og öryrkjana?
    Á tekjubilinu 65.847 og upp í 114.339 á mánuði hverjum eru síðan teknar 55%, rúmlega önnur hver króna, af því fólki sem reynir að laga stöðu sína með vinnulaunum. Þá fyrst kemst þetta fólk niður á sömu skattprósentu og aðrir landsmenn. Sem sagt þegar það er komið með yfir 114 þúsund krónur í tekjur færist skattprósentan niður í þau 40% sem aðrir landsmenn búa við.
    Nei, herra forseti, hér eru auðvitað svo ótrúlegir hlutir á ferðinni að maður er satt best að segja alveg gáttaður, ég segi nú ekki orðlaus því það kemur sjaldan fyrir ræðumann, en gáttaður er ég. Og ég held að ástæða sé til að teikna upp þennan skemmtilega feril um jaðarskattprósentuna á ellilífeyrisþegana og hafa hann til sýnis á almannafæri. Í raun og veru er það svo að þarna hefur verið tekið upp ákveðið hátekjuskattþrep en bara á lágtekjufólk að vísu. Og það er kostuleg niðurstaða í þessu máli að hátekjuskattþrepið skyldi lenda á lágtekjufólki.
    Nú, herra forseti, ég ætla, áður en ég hverf frá þessum kafla um tryggingamálin, sem út af fyrir sig væri hægt að ræða vikum saman svo kostulegur er hann, að víkja lítillega að einni stétt sem fær alveg sérstaka útreið þarna og hefur reyndar í fleiri tilvikum orðið sérstaklega fyrir barðinu á hæstv. ríkisstjórn. Það væri gaman að vita hvort þeir væru hér á staðnum, hv. 16. þm. Reykv. Guðmundur Hallvarðsson og hv. núv. sitjandi 1. þm. Vestf. Guðjón A. Kristjánsson. Þessir menn eru báðir trúnaðarmenn í samtökum sjómanna, hæstv. forseti. Ég óska eftir því að þeim verði a.m.k. gert aðvart um að ég ætli að ræða hér málefni sjómanna. Það er ekkert ólíklegt að þeir hafi einhvern áhuga á þeim málum þar sem í hlut eiga formaður Sjómannafélags Reykjavíkur og formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Mér finnst það alveg sjálfsagt mál að þeir verði látnir vita af því að hér standi til að ræða málefni sjómanna ef forseti vildi vera svo vænn.
    Það kemur að sjálfsögðu í ljós, sem menn hefðu mátt segja sér fyrir og voru reyndar furðu lengi að uppgötva, samanber hversu seint umræða fór af stað um hlut sjómanna í þessu máli, að þeir eru sú stétt sem verður auðvitað alveg sérstaklega fyrir barðinu á þessari skerðingu vegna þess að sjómenn, einir allra stétta, hafa rétt til að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur. Þeir geta þá, með sama hætti og aðrir landsmenn við 67 ára aldur, sent inn umsókn um að þeir ætli sér að hefja töku lífeyris og nýta sér þau réttindi sem þeir hafa hingað til notið í þeim efnum. En þessi réttindi verða í reynd nánast afnumin með þessari skerðingu, í reynd verður það svo ,,de facto``, hæstv. heilbrrh., þó að ,,de jure`` verði það ekki. Þannig er það og auðvitað er það reyndin sem skiptir hér máli. Og hún verður sú samkvæmt upplýsingum sem nefndir þingsins hafa fengið, óhrekjanlegar, að í reynd verður þetta nánast afnumið hjá um 500 sjómönnum. ( Heilbrrh: Nei, ekki alveg.) Skert verulega hjá flestum þeirra og afnumið reyndar hjá mjög mörgum. Um það ætla ég að birta hæstv. heilbrrh. upplýsingar hér á eftir af því að ég veit að hann hefur þær ekki. ( Heilbrrh: Jú, jú.) Af því að það var efh.- og trn. sem aflaði þeirra og dró þær fram í dagsljósið með viðtölum við talsmenn sjómanna og lífeyrissjóði sjómanna. Og það hafði enginn gert fram að þeim tíma, hæstv. heilbrrh., vegna þess að plöggin eru dagsett í framhaldi af þeim fundum sem heilbr.- og trn. og efh.- og viðskn. áttu með þessum aðilum.
    Nefndin fékk til viðtals við sig þá Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og einnig Árna Guðmundsson forstöðumann Lífeyrissjóðs sjómanna. Það kom mjög skýrt fram að þessar breytingar munu hitta þorra sjómanna á lífeyristökualdri mjög þungt af þeim ástæðum að verulegur hluti þeirra hefur einhverjar launatekjur sem eðlilegt má telja og nánast liggur í hlutarins eðli að menn sem eru um sextugt eða lítið yfir sextugt munu, eftir því sem þeir geta, reyna að bæta stöðu sína með vinnu á vinnumarkaðnum. Og svo kemur annað til sem mönnum virðist hafa yfirsést í þessu efni en skiptir auðvitað miklu máli og það er að lífeyrisréttindi sjómanna eru ákaflega misjöfn og í mjög mörgum tilvikum bágborin. Það þýðir að sjómenn hafa ekki með sama hætti og fjölmargar aðrar stéttir umtalsverðar lífeyristekjur sem ekki skerða grunnlífeyrinn. Og nú skal taka það fram til að forða misskilningi að fyrir því ákvæði eru í sjálfu sér mjög sterk rök sem ræðumaður er sammála. Það hefði verið reiðarslag fyrir lífeyrissjóðina ef þessi skerðing til viðbótar öllu öðru hefði dregið úr áhuga manna á því að greiða í lífeyrissjóðina. Þannig að fyrir því eru vissulega rök að tekjur manna úr lífeyrissjóðum valdi ekki sérstaklega skerðingu á grunnlífeyri þeirra. En það þýðir hins vegar að stéttir sem eru misjafnlega settar gagnvart lífeyrisrétti fara mjög illa út úr þessu dæmi. Og þannig er það með mikinn hluta sjómanna.
    Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að vita hvort þessir hv. þm. sem ég nefndi áðan eru í húsi og geta komið til umræðunnar og einnig væri auðvitað mjög gaman ef hæstv. sjútvrh. væri hér á svæðinu. Þannig háttar til að þessi réttindi sjómanna tengjast auðvitað kjörum þeirra með þeim hætti sem þeir sjálfir segja að þeir hafi litið á sem félagsmálapakka í tengslum við kjarasamninga. ( Forseti: Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson mun vera hér í húsinu og forseti hefur komið skilaboðum til hans að ræðumaður vildi gjarnan láta hann vita að hann sé að fjalla um mál sem tengjast sjómönnum ef hann hefði áhuga á að hlusta. En hæstv. sjútvrh. mun hafa brugðið sér frá í augnablikinu. Ef hv. þm. hefur áhuga á að fresta ræðu sinni í hálftíma þá er forseti tilbúinn að gera hálftíma matarhlé.) Ja, ræðumaður er auðvitað alveg tilbúinn í hálftíma matarhlé, það stendur ekki á því. Ég teldi það reyndar ágætis hugmynd, hæstv. forseti, ef ég má leyfa mér að hafa skoðun á því. ( Forseti: Ef forseti má hafa skoðun á því þá finnst honum það líka góð hugmynd.) Eigum við þá ekki bara að sameinast um það? --- [Fundarhlé.]