Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 14:58:00 (2780)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Fyrst segir hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hneykslast á því að hér sé hæstv. ráðherra heimilt að taka upp umræðu sem alls ekki er á dagskrá. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., sem talaði á undan mér og lagði fram ákveðnar spurningar fyrir mig og ég gat ekki svarað þeim svo vel væri á þeim stutta tíma, tveimur mínútum, sem andsvar tekur til, enda hafði hann gagnrýnt mig í gær fyrir það að ég kæmi ekki nægilegum skýringum að. Ég var að svara hv. þm., flokksbróður hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, og veit ég ekki hvort hún var frekar að finna að þingmanninum með sínum athugasemdum eða ráðherra fyrir að taka mark á spurningunum.
    Hitt atriðið liggur ljóst fyrir. Ég rakti í gær að viðræður stæðu yfir við Samskip um tilboð þeirra í Esjuna og það var meginefni máls míns í gær. Ég sagði því síður en svo ósatt, ég sagði nákvæmlega frá því hvernig málin stóðu.