Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:08:00 (2788)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það virðist þurfa tvær atrennur að hæstv. samgrh. til að fá hann til að svara einföldum spurningum. Þegar það tekst grípur forseti til þess ráðs að takmarka tíma ræðumanna. Sérstaklega þar sem hæstv. samgrh. vék að öðrum málum í leiðinni, sem er óhjávæmilegt að menn svari, en hins vegar er ekki tími til þess. Ég mun svara þeim athugasemdum sem frá honum komu varðandi fjárhag Ríkisskipa og hallarekstur á undanförnum árum. Ég vil þó segja stuttlega frá því að á síðasta ári var gerður upp ákveðinn fortíðarvandi frá forvera hans Matthíasi Á. Mathiesen, sem tókst næstum því það sem núv. samgrh. hefur tekist, að ganga að fyrirtækinu dauðu.
    Ég verð að segja að það kom mér ekki á óvart að hv. 4. þm. Reykv. léti þau orð falla að honum ofbyði. Mér hefur ofboðið margt á síðustu vikum og mánuðum í þessu máli en er orðinn það sjóaður að það síðasta ofbýður mér ekki. Ég vil aðeins segja að hæstv. samgrh. hefur ekki verið mjög mikið á sannleikans vegum í þessu máli.