Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:10:00 (2789)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það kom mér nokkuð á óvart vegna þess hversu hæstv. samgrh. fór nákvæmlega út í þjónustuna sem yrði við Austfirði að Norðurland eystra var ekki mikið nefnt í þeirri umræðu nema núna í andsvörum er það kom fram að Eimskip mundi sjá um þjónustu milli Akureyrar og Austfjarða. Nú hefur okkur þingmönnum Norðurl. e. borist bréf frá heildsölum á Akureyri þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum út af samgöngum milli Akureyrar og Austfjarða vegna mikilvægra viðskipta sem þar fara á milli. Þeir nefna einnig í sínu bréfi að mokstur yfir Mývatnsöræfi og Möðrudalsöræfi væri ein leið sem væri áhugaverð og óska eftir því að þingmenn kjördæmisins beiti sér fyrir því að þessi leið verði mokuð reglulega og henni haldið opinni yfir veturinn. Er það kannski ástæða þess hversu lítið hæstv. samgrh. fjallaði um þetta mál í sinni löngu ræðu áðan að hann muni beita sér fyrir því að mokstur verði hafinn á þessari leið?