Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:19:00 (2793)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þetta var nú raunar ekki um gæslu þingskapa, hv. þm. talaði efnislega um þau atriði sem áður hafa verið hér til umfjöllunar í salnum og kom ræða hans auðvitað þingsköpum ekkert við.
    Í fyrsta lagi skýrði ég frá því áðan að samningur milli Samskipa og ríkisins væri til tæknilegrar yfirferðar í fjmrn. Það stóð svo á þegar ég fór hingað inn í salinn. Hvort þeirri tæknilegu yfirferð er lokið er mér ókunnugt. Samningurinn er óundirskrifaður. Ég skýrði einnig frá því að eftir hádegi í gær þegar ég hafði síðast samband við samninganefndarmenn um Esju, þá var verið að fara yfir ýmis atriði og mátti búast við því að þeirri samningsgerð lyki að öðru leyti.
    Hér hef ég fengið í hendur fyrri ræðu mína frá í gær. Þar er minnst á að Samskip hafi óskað eftir að ná samningum um rekstur Esju, að öðrum kosti muni þau leita út fyrir landsteinana að skipi til að annast þessa þjónustu. Þegar þar var komið sögu var tíma mínum lokið. Síðan gerði ég nánari grein fyrir þessu í seinni ræðu minni og þar vakti ég m.a. athygli á því að viðbrögð alþingismanna og Alþingis gætu kannski orðið til að spilla fyrir þeim samningum sem nú væri unnið að milli ríkisstjórnarinnar og Samskipa um Esju.

Það er svo fjarri öllu lagi að ég hafi ekki greint frá tilboði Samskipa og að umræður stæðu um þau. Það er svo fjarri öllu lagi sem það getur verið. Ég greindi frá þessum viðræðum. Ég geri ráð fyrir því, eins og andrúmsloftið er hér, að nægilegt svigrúm gefist til þess ef ég tek aftur til máls undir þessum undarlega lið að gæta þingskapa þá verði búið að vélrita síðari ræðu mína þannig að ég geti farið aftur með hana og þá mun það koma glöggt fram hvort ég hafi skýrt frá því sem um er talað. Þetta er nú svo einfalt mál. Það er verið að vélrita ræðuna og þar mun það koma glögglega fram.
    Ég sé svo, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta miklu fleiri orð en var að velta því fyrir mér undir ræðu hv. síðasta ræðumanns hvenær á ráðherraferli hans hann hefði orðið að segja af sér ef hann gerði sömu kröfu til sjálfs sín og annarra, að menn megi ekki fara með ósatt orð í þingsölum. --- [Fundarhlé.]