Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:57:00 (2800)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það var haft við orð úti í salnum áðan að bandormurinn væri lagstur í siglingar. Það má til sanns vegar færa. Langar umræður hafa orðið um samgöngur og ummæli ráðherra, sem reyndar voru ekki á dagskrá og hafa oft verið gerðar athugasemdir við það að menn færu út fyrir umræðuefnið. Ekki er laust við að svo hafi verið. Síðast í gær kvartaði fjmrh. undan því að alltaf væri verið að halda sömu ræðurnar og menn færu út um víðan völl, en það hefur áreiðanlega oft verið minni ástæða til þess að gera athugasemdir en nú.
    Virðulegi forseti, nú er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hinn svokallaði bandormur. Ég stóð í þessum ræðustóli um miðja nótt rétt fyrir jól þegar fram fór fyrri hluti þessarar 2. umr. en síðan þá hafa mikil tíðindi og vond gerst sem varða þetta frv. þannig að fyllilega er ástæða til að ræða þetta mál ítarlega. Ég óska eftir því að kallaðir verði til hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., því ég hef hugsað mér að beina til þeirra spurningum og eiga við þá orð.
    En áður en ég kem að efni frv. og þeim brtt. sem nú eru til umræðu vil ég fara nokkrum orðum um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli og ekki síst að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni í þessari umræðu um þingræðið og hegðun þingmanna í þessum málum. Vegna þess, virðulegi forseti, að ég er þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni lagasetning sem ekki eigi að eiga sér stað. Óskyldum málum er blandað saman í gríðarlega löngum lagabálki og eins og ég rakti í fyrri ræðu minni þá er verið að koma í gegn málum sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við, heldur er verið að breyta grundvallarlögum, eins og lögum um grunnskóla, til þess að koma ýmsum stefnumálum Sjálfstfl. í gegn.
    Ég lít þannig á að ábyrgð þingmanna sé mikil við afgreiðslu lagafrv. Það er skylda okkar að sjá til þess að lög séu þannig úr garði gerð að þau séu skýr og skiljanleg og það

er líka skylda okkar að sjá til þess að lög séu framkvæmanleg. Því miður hefur viljað brenna við að lagabálkar sem fela í sér fögur fyrirheit séu samþykktir en enginn vill taka ábyrgð á að reikna út hvað framkvæmd þeirra kostar eða hvort forsendur séu til þess að framkvæma það sem verið er að samþykkja. Í því samhengi get ég nefnt lögin um framhaldsskóla, sem menn eru nú lentir í miklum ógöngum með.
    Í nál. minni hluta efh.- og viðskn., sem fram kom eftir 1. umr., er sérstök bókun frá þeirri sem hér stendur og vil ég leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta:
    ,,Lagasetning af því tagi sem hér um ræðir, þar sem blandað er saman alls óskyldum málum og tækifærið notað til að koma í gegnum þingið lagabreytingum sem koma ,,ráðstöfunum í ríkisfjármálum`` ekkert við, er algjör óhæfa og óvirðing við löggjafarhlutverk Alþingis. Þá er tíðkað að gera ,,eyrnamerkta`` lögbundna tekjustofna upptæka að hluta til eða að fullu. Þar með er gengið þvert á fyrri samþykktir Alþingis og komið í veg fyrir að brýn mál nái fram að ganga. Lög á að virða en Alþingi þarf einnig að vanda sig betur og samþykkja ekki lög nema ljóst sé hvaða kostnað þau hafa í för með sér.``
    Þetta vil ég ítreka, herra forseti, og ef betur væri að verki staðið stæðum við ekki með frv. eins og þetta í höndunum, þar sem verið er að kippa ýmsum lagagreinum úr sambandi vegna þess að þau fela í sér ákveðinn kostnað og ríkið sækir fé til hinna ýmsu málaflokka.
    Ég vil líka minna á að það eru ráðherrarnir sem bera ábyrgð gagnvart Alþingi en ekki öfugt. Þingmenn eiga ekki að láta pína sig til að samþykkja alls konar óhæfu eins og hér er á ferð. Ég verð að segja að heldur raunalegt hefur verið að fylgjast með meiri hluta efh.- og viðskn. í þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur á hinum svokallaða bandormi, því greinilegt er að ýmsum sem þar sitja er ekki allt að skapi sem verið að keyra þar gegn.
    En ég ætla þá að víkja að því frv. sem hér er til umræðu og einbeita mér fyrst og fremst að þeim brtt. sem fram hafa komið, vegna þess að ég gerði mjög ítarlega grein fyrir afstöðu okkar kvennalistakvenna til frv. í heild við 1. umr. og í fyrri ræðu minni við 2. umr.
    Þá eru það fyrst skólamálin. Ekki aðeins vegna þess að skólamálin eru fyrsti kafli þessa frv. heldur verð ég að segja að þær breytingar sem frv. leggur til og sú brtt. sem síðan bættist við eru með þeim hætti að ég tel skólamálin alvarlegasta málið í þessum bandormi, þó þar sé margt mjög alvarlegt á ferð. Ég tel að skólamálin og þessar hörmulegu breytingar sem menntmrh. beitir sér fyrir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar séu þannig að þær eigi eftir að skaða samfélag okkar verulega.
    Óhjákvæmilegt er að rifja aðeins upp út á hvað þessar brtt. ganga. Í stuttu máli má segja að þær feli það í sér að verið er að fresta ýmsum ákvæðum grunnskólalaganna. Nokkur þeirra snerta sveitarfélögin og þann kostnað sem sveitarfélögin þurfa að greiða en síðan eru þarna ákvæði sem eru mjög alvarleg þar sem verið er að fresta ýmsum ákvæðum grunnskólalaganna. Nokkur þeirra snerta sveitarfélögin og þann kostnað sem sveitarfélögin þurfa að greiða en síðan eru ákvæði sem eru mjög alvarleg og snúa að því að skerða kennslustundafjölda í grunnskólum og að fresta þeirri fækkun nemenda í bekkjum sem til stóð.
    Menntmn. Alþingis fékk nýja brtt. til umræðu eftir áramót en hún felur í sér að sú breyting verði á að miðað verði við 28 nemendur í 3.--10. bekk grunnskólans í stað þess að í bandorminum hafði verið gert ráð fyrir 29. En jafnframt er lagt til í þessari brtt. að heimilt sé við ákveðnar aðstæður að fjölga nemendum upp í 30.
    Ég ætla að lesa það álit sem minni hluti menntmn. sendi frá sér vegna þess að það skýrir nákvæmlega hvað hér er á ferð. Ég les þetta álit, með leyfi forseta:
        ,,Álit minni hluta menntamálanefndar um brtt. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.
    Menntamálanefnd hefur haft til umsagnar breytingartillögu við fyrsta kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 (bandorminn), sem fram kom við 2. umr. um málið. Í fyrsta kafla bandormsins eru lagðar til breytingar á grunnskólalögum sem ganga þvert á mótaða skólastefnu og eiga að leiða til þess að ,,komið verði í veg fyrir um 40 millj. kr. kostnaðarauka`` að sögn ráðuneytismanna. Nefndin ræddi á sínum tíma fyrsta kafla frumvarpsins og skilaði minni hluti nefndarinnar ítarlegu nefndaráliti sem birt er í þskj. 299 þar sem lagt er til að kaflinn verði felldur út úr frumvarpinu.
     Breytingartillagan sem nú var rædd þýðir um 40 millj. kr. sparnað til viðbótar þeim 40 millj. kr. niðurskurði sem frumvarpið felur í sér. Þar að auki er menntamálaráðuneytinu ætlað að skera niður um 180 millj. kr. í grunnskólum landsins vegna hins flata niðurskurðar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar tóku inn í fjárlög ársins 1992. Samtals er hér því um að ræða niðurskurð upp á um 260 millj. kr., en honum fylgja margháttaðar neikvæðar breytingar á skólastarfi. Því má ljóst vera að grunnskólinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegum niðurskurði sem á eftir að valda miklum skaða.
     Tillagan var rædd á þremur fundum og komu á fund nefndarinnar Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra, Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, Kári Arnórsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Viktor Guðlaugsson frá Félagi skólastjóra og yfirkennara, ásamt þeim Svanhildi Kaaber og Eiríki Jónssyni frá Kennarasambandi Íslands.
     Til að samhengið skiljist milli þeirra tillagna sem fyrir liggja og þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið í grunnskólum landsins er nauðsynlegt að rifja upp hvað felst í fyrsta kafla bandormsins. Megininntakið er að frestað er gildistöku nokkurra ákvæða í nýju grunnskólalögunum og vegur þar einna þyngst að frestað er fækkun nemenda í bekkjardeildum. Þá er að finna í 3. gr. frumvarpsins tillögu um varanlega heimild til ráðherra til að ákveða vikulegan kennslustundafjölda nemenda.
     Nú er lagt til samkvæmt breytingartillögunni að fjöldi nemenda skuli miðast við 22 í 1. og 2. bekk og 28 nemendur í 3.--10. bekk skólaárið 1992--1993, en auk þess skuli heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að fjölga nemendum upp í 30 í bekk.
    Samkvæmt grunnskólalögum á hámark nemenda í 3.--10. bekk að vera 28, en í bandorminum er gert ráð fyrir 29. Með breytingartillögunni er verið að opna fyrir fjölgun í bekkjardeildum í allt að 30 nemendur í stað gildandi lagaákvæða sem gera ráð fyrir þróun í þveröfuga átt. Bekkir með 28--30 nemendur eru allt of stórir. Með þessum tillögum er verið að veita menntamálaráðherra vald til að skera niður kennslu og fjölga í bekkjum frá því sem nú er. Þess ber að geta að meðalfjöldi nemenda t.d. á höfuðborgarsvæðinu er 23 nemendur í bekk og meðalkennslustundafjöldi 32 stundir á viku, en þær á að skerða samkvæmt því sem boðað hefur verið. Þessar tillögur fela því í sér verri kennslu og verri skóla. Það er ekki það sem þjóðfélag okkar þarf á að halda.
    Eftir að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var breytt standa mál í grunnskólakerfinu þannig að ríkið greiðir kennurum og öðru starfsfólki laun, en annað er í umsjá sveitarfélaganna. Ætli ríkið sér að spara í grunnskólakerfinu er um það eitt að ræða að skera launakostnaðinn niður. Að því er nú stefnt með því að:
    1. Skera niður kennslustundafjölda.
    2. Fjölga nemendum í bekkjum þannig að bekkjardeildir verði færri.
    3. Velta kostnaði yfir á sveitarfélögin, m.a. með akstri á nemendum sem gert væri að nýta húsnæði annarra skóla.
    Menntamálaráðherra hélt því fram er hann kom á fund nefndarinnar að kennslustundum yrði fækkað í efri bekkjum grunnskólans. Tók ráðherra dæmi af því að með því að fækka kennslustundum um tvær á viku í 4.--10. bekk næðist á haustmissiri sparnaður upp á 52 millj. kr.
    Kennarasambandið metur dæmið svo að niðurskurður upp á 40 millj. kr. þýði að 33 bekkjardeildir mundu hverfa og eigi að ná áætluðum sparnaði á árinu 1992 gæti það þýtt að skera verði niður 260--270 kennarastöður. Til samanburðar má nefna að á Vestfjörðum eru stöðugildi kennara í grunnskólum 140!
    Það er ljóst að framkvæmd þessara niðurskurðartillagna mun koma mjög misjafnlega niður á skólum og landshlutum. Erfitt mun reynast að fjölga nemendum í bekkjum í fámennum skólum og niðurskurðurinn mun því bitna harðar á þéttbýlisstöðum og þá einkum höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Ráðherra staðfesti á fundi menntamálanefndar að til umræðu væri að aka nemendum á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu, en sá kostnaður lendir á viðkomandi sveitarfélögum. Í þessu sambandi ber að nefna að það mál hefur ekki verið rætt við sveitarfélögin. Hugmyndir ráðherrans um akstur á nemendum milli skóla sýna svo ekki verður um villst að til stendur að fækka bekkjum og flytja þá nemendur sem ,,afgangs`` verða í aðra skóla þar sem þeim verður deilt niður á bekki.
    Þetta er fyrirkomulag sem óverjandi er að bjóða börnum upp á. Þær spurningar vakna hvort yfirleitt séu kennslustofur fyrir svo stóra bekki í skólum landsins og hvort virkilega sé ætlunin að troða börnum inn í skólastofur eins og rollum í rétt. Við hljótum einnig að spyrja hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þvinga foreldra til að grípa til sinna ráða með stofnun einkaskóla. Ef svo er standa þeir verst að vígi sem verst hafa kjörin í samfélaginu.
    Fulltrúar skólastjóra og kennara sem ræddu við nefndina lýstu harðri andstöðu við fyrirhugaðan niðurskurð og kom fram að verið væri að skapa neyðarástand í skólum og að búast mætti við miklum óróa meðal kennara, foreldra og nemenda. Þá var undirstrikað að alvarlegast væri að með þessum aðgerðum væri fyrst og fremst verið að skerða hag barnanna og verið að ganga þvert á framtíðarhagsmuni þeirra og þjóðfélagsins alls. Hér væri verið að stíga stórt skref til baka í skólamálum og þeim mun tilfinnanlegra þar sem áður hefði verið gripið til skerðinga og stofninn sem af væri tekið væri allt of veikburða. Að þessu sinni er seilst til svokallaðra viðbótarstunda sem skólarnir hafa til ráðstöfunar og notaðar eru til þeirra verkefna sem talin eru brýnust, svo sem eflingar íslenskukennslu, stærðfræði og tungumála.
    Þá ber að nefna að þótt einkum sé hér um að ræða hagsmunamál barna þessa lands, mun þetta einnig leiða til þess að kennarar verði fyrir verulegri kjaraskerðingu og uppsögnum. Kjör kennara eru til vansa og því óverjandi að ráðast á þá með þessum hætti.
    Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni hafa lýst áhyggjum vegna þess hvernig þetta mál horfir við þeim, en kjaraskerðing kennara kann að kalla á aukinn stuðning sveitarfélaga við kennara í dreifðum byggðum landsins.
    Minni hluti menntamálanefndar mótmælir harðlega því tilræði við skólakerfið sem felst í fyrsta kafla frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 og þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessar tillögur verður að fella! Það er hlutverk Alþingis að setja lög um grunnskóla og það á að vera í höndum þess að ákveða hvaða kennslu ber að veita. Vald til að fjölga eða fækka kennslustundum á ekki að vera í höndum ráðherra og ráðast af því hvernig vindurinn blæs í ríkisfjármálum.
    Góð menntun er fjöregg þjóðarinnar og sá grundvöllur sem framtíð okkar byggist á. Því er niðurskurður af því tagi sem ríkisstjórnin stefnir að óverjandi og óþolandi!
    Á samdráttartímum ber að efla menntun og rannsóknir vegna þess að þaðan er helst að vænta nýjunga og nýsköpunar í atvinnulífi. Víða í hinum iðnvædda heimi er verið að efla skóla og auka fjárveitingar til þeirra þar sem mönnum er ljóst að þannig má best búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.
    Því miður hefur núverandi ríkisstjórn markað stefnu sem gengur þvert á æskilega þróun. Hún situr við að saga af alla vaxtarbrodda og höggva á þær rætur sem eiga að næra íslenskt þjóðlíf. Að þessu sinni eru það börnin sem gjalda niðurskurðarins og er þar ráðist á garðinn þar sem hann lægstur. Hér er um ranga stefnu að ræða og aðgerðir sem verður að stöðva áður en alvarlegt tjón hlýst af. Því leggur minni hlutinn til að allar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í skólamálum verði felldar út úr frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.``
    Undir þetta álit skrifa auk mín Hjörleifur Guttormsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Valgerður Sverrisdóttir, minni hluti menntmn.
    Í áliti okkar koma fram helstu rök í málinu en við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða áhrif niðurskurðurinn muni hafa ef af verður og ég ítreka það enn og aftur að ég tel að um afar alvarlegt mál sé að ræða og lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir þessi voðaverk sem hún boðar.

    Herra forseti. Ég fór þess á leit að forsrh. yrði viðstaddur því að ég ætla að gera að umræðuefni ummæli hans um skólakerfið. ( Forseti: Forsrh. er í húsinu, það er verið að nálgast hann.) Já, þakka þér fyrir.
    Herra forseti. Það er orðið allvandræðalegt hvað þessum blessuðum ráðherrum gengur illa að sitja í þingsalnum. Við lendum í bið dag eftir dag, og þótt vissulega geti verið til það brýnar ástæður að menn þurfi að bregða sér frá er þetta orðið ansi þrálátt.
    Meðan ég bíð ætti ég kannski að nota tækifærið og beina spurningum til hæstv. menntmrh. Þetta mál heyrir að sjálfsögðu undir hann. Ég rakti áðan að áætlað er að ná 180 millj. kr. sparnaði í grunnskólakerfinu vegna hins flata niðurskurðar og ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvernig hann hyggist standa að þeirri framkvæmd. Við erum búin að afgreiða fjárlög og eins og menn minnast var sem betur fer felld út tillaga um skólagjöld í framhaldsskólum en það þýðir að þar vantar um 120 millj. kr. til að ná þeim endum saman sem gert var ráð fyrir. Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvernig staðið verði að niðurskurði í framhaldsskólum því að mér er kunnugt um það að í framhaldsskólunum eru menn teknir að fást við þessi sparnaðaráform og ég fæ ekki betur séð eins og vænta mátti en að þar séu mjög alvarleg mál á ferðinni. Ég vil beina þeirri athugasemd til hæstv. menntmrh. að menn gæti þess að niðurskurðurinn í framhaldsskólunum verði ekki til þess að lengja þann tíma sem þarf til þess að nemendur taki stúdentspróf. Það er einu sinni svo í framhaldsskólunum að til þess að taka stúdentspróf þurfa nemendur að ljúka ákveðnum fjölda eininga og ef þær einingar eru ekki í boði verða nemendur einfaldlega að bíða þangað til eitthvert námskeið er í boði sem verður til þess að þeir geti lokið námi. Því er betra að gæta sín aðeins áður en lagt er upp í ferð sem þessa.
    Ég sé að hæstv. forsrh. er sestur í hliðarsal og mig langar til þess að beina til ákveðnum spurningum til hans vegna þeirra ummæla sem höfð eru eftir honum í dagblöðum. En áður en ég kem að þeim spurningum langar mig til þess að rifja aðeins upp fyrir ráðherrum hvað stendur í þeirri hvítu bók sem þeir gáfu út í haust og heitir því undarlega nafni Velferð á varanlegum grunni, sem mörgum þykir nú orðið öfugmæli. En í kafla þessarar hvítu bókar, sem fjallar um mennta- og menningarmál, stendur, með leyfi forseta:
        ,,Skólarnir, ásamt heimilunum og fjölmiðlum, ráða mestu um hvernig nýjar kynslóðir Íslendinga læra mál sitt og taka menningu þjóðarinnar í arf. Skólarnir eiga að varðveita þennan arf, gæða hann nýju lífi og gefa nemendum veganesti sem eykur þeim víðsýni gagnvart öðrum þjóðum. Ríkisstjórnin mun leggja á það ríka áherslu að á öllum skólastigum verði móðurmálinu gert hátt undir höfði.``
    Hér ætla ég að nema staðar og spyrja hæstv. forsrh. hvernig ríkisstjórnin hyggist standa að eflingu íslenskunnar eftir að hún hefur skorið niður þær stundir í skólakerfinu sem einkum eru ætlaðar til þess að efla íslenskuna. Þá er ég að vísa til þess sem hæstv. menntmrh. sagði að hinar svokölluðu afgangsstundir eða þær stundir sem skólarnir hafa til ráðstöfunar í brýn verkefni hafa einkum verið notaðar til þess að efla íslenskukennsku, stærðfræði og tungumál.
    Áfram segir í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni:
    ,,Á kjörtímabilinu verður unnið að því að samræma gæðamat í skólakerfinu og stefnt að því að auka vægi rannsókna og þróunarstarfs í skólakerfinu.``
    Spurning mín er aftur þessi: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að stuðla að þessu eftir að hún sker niður laun kennara og þar með á auðvitað að höggva í yfirvinnuna, og nú þegar er búið að stöðva allt þróunarstarf í skólum? Það er allt þróunarstarf stopp í skólum, bæði vegna þess þrönga kosts sem skólarnir búa við en einnig vegna þess að kjaramál kennara eru með þeim hætti að menn hafa bara ekki lengur löngun til að stuðla þar að einhverju þróunarstarfi. Því spyr ég: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að efla þróunarstarf í skólum, sem ekki veitir af?
    Síðan segir hér: ,,Staða einkarekinna skóla í skólakerfinu verður skilgreind nánar`` og eftir þennan niðurskurð er kannski orðin full þörf á að farið verði að skilgreina það nánar hvað til stendur í þeim efnum. Enn segir hér:

    ,,Almenn markmið ríkisstjórnarinnar eru að draga úr miðstýringu skólakerfisins, að einfalda stjórnsýslu og auka sjálfstæði skóla frá því sem nú er hvað varðar kennslu,`` ég bið hæstv. forsrh. að taka sérstaklega eftir því, ,,stjórnun og fjárhag.`` Og ég spyr enn og aftur: Hvernig koma þær aðgerðir sem hér eru fyrirhugaðar heim og saman við þessa stefnu þegar verið er að draga í hendur menntmrh. allt vald til að ákveða hversu mikil kennsla skuli fara fram? Ef það er ekki miðstýring þá veit ég ekki hvað miðstýring er.
    Síðan segir hér áfram í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar í kafla um málefni leikskóla og grunnskóla: ,,Ríkisstjórnin vill vinna að því að koma á samfelldum skóladegi. Kapp verður lagt á að bæta úr kennaraskorti á landsbyggðinni. . . . Ráðgjöf í grunnskólum verður efld, bæði með tilliti til námsframvindu og persónulegra málefna nemenda.`` Ég spyr hæstv. forsrh. hvernig ríkisstjórnin ætli að vinna að þessu eftir að málum er þannig háttað að samfelldur skóladagur er kannski aldrei fjær raunveruleikanum en nú og þessi niðurskurður mun valda því að skóladagur styttist í stað þess að til stóð að lengja hann. Það má kannski segja að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði til þess að bæta úr kennaraskorti á landsbyggðinni því að væntanlega verður tugum kennara sagt upp en ég verð þó að segja að þetta er heldur nöturleg aðferð til þess að bæta úr þeim kennaraskorti.
    Eitt af þeim atriðum sem verið er að fresta hér í þessu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er einmitt það ákvæði grunnskólalaganna sem kveður á um ráðgjöf í grunnskólum þannig að ekki kemst þetta stefnumið ríkisstjórnarinnar í framkvæmd á næstunni. En því miður held ég að ástand hjá grunnskólanemum sé ekki með þeim hætti að þessu megi fresta. En ég spyr og ítreka það við hæstv. forsrh. að okkur hlýtur að leika mikil forvitni á að vita hvernig ríkisstjórnin ætlar að framfylgja þessari stefnu sinni.
    Í dagblöðum, líklega í gær, er haft eftir forsrh. að íslenska skólakerfið sé of dýrt. Forsrh. brá sér á bjartsýnisráðstefnu og hefur líklega ekki veitt af því að hann hefur ekki haldið uppi miklu bjartsýnistali hér innan sala en þarna leyfði hann sér að vera bjartsýnn og bjartsýnin birtist í því að íslenska skólakerfið sé of dýrt og þá hlýtur náttúrlega að vera þangað fjármagn að sækja. Hér er haft eftir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Kostnaður við kennslu á hvert skólabarn á Íslandi hefur vaxið stórlega á undanförnum árum og ég er þeirrar skoðunar að lækka megi kostnað og draga úr námsframboði án þess að það komi niður á árangri skólanna.`` Ég vil óska eftir skýringum hæstv. forsrh. á þessum ummælum. Hvað er það sem er of dýrt í íslenska skólakerfinu?
    Nú er það svo, eins og ég nefndi áðan, að það er fyrst og fremst launakostnaður sem ríkið hefur á sínum herðum. Nú getur forsrh. sjálfsagt verið að vísa til skólakerfisins í heild, tala um byggingar og annan kostnað en ég vil spyrja hæstv. forsrh., er hann þeirrar skoðunar að laun kennara séu of há? Eru það launin sem eru of há? Ég vil gjarnan fá svar við þessu.
    Ég þarf líklega ekki að taka það fram að ég er algerlega ósammála þessum ummælum forsrh. og það kemur í ljós í plöggum frá OECD að íslenska ríkið leggur minna fram til skólamála en nokkurt ríki innan OECD, enda er því miður um afturför að ræða í íslensku skólakerfi. Og eins og bent hefur verið á í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að undanförnu um skólamál þá þýðir sú skerðing á kennslustundafjölda, sem verið er að leggja til, að ef horft er aftur til ársins 1974, þegar grunnskólalögin voru sett, þá stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að það er búið að skerða kennslu grunnskólanema um sem nemur heilum degi eða heilu grunnskólaári, heilu ári í grunnskólanámi. Þetta er í þriðja sinn á einum áratug sem kennsla er skert. Og ef þetta er ekki öfugþróun í heimi þar sem kallað er á sífellt meiri menntun þá veit ég ekki hvað öfugþróun er.
    Það er öllum kunnugt að Sjálfstfl. hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á einstaklingsfrelsi og hefur hampað einstaklingnum mjög í öllum sínum málflutningi en ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað verður um velferð einstaklingsins í svona skólakerfi sem svo þröngur stakkur er skorinn?
    Fyrir allmörgum árum var tekin upp sú stefna í íslenska skólakerfinu að blanda nemendum saman óháð getu og þroska en sú stefna krefst þess að bekkir séu fámennir. Það var jafnframt kveðið á um það í lögum að sinna ætti þörfum einstaklinganna og ég er alveg viss um að forsrh. og ég getum verið sammála um að ekki veitir af að sinna þörfum einstaklinganna. En hér er verið að ganga þvert á þau markmið. Ef meiningin er að fjölga nemendum í bekkjum upp í allt að 30 þá bitnar það á einstaklingunum, það bitnar á kennurum, það bitnar á kennslunni og það bitnar á framtíð þessarar þjóðar. Því er það ekki að ástæðulausu að við leggjum til að þessi kafli frv. verði felldur og það verði horfið frá þessari hörmungarstefnu því að þetta er ekkert annað en hörmung og afturför.
    Ég held að ég láti þetta nægja um skólamálin en þó ætla ég að geta þess að lokum að þrátt fyrir allt hafa menn verið að gera hér ýmsar tilraunir í skólamálum. Má nefna sem dæmi Fossvogsskóla hér í Reykjavík þar sem gerð hefur verið tilraun með einsetinn skóla en það blasir við með þessum niðurskurði að þeirri tilraun mun ljúka. Það verða ekki fjárveitingar til þess að halda þessari tilraun áfram þannig að hér ber allt að sama brunni.
    Það er margt fleira í þessu frv. sem vert er að ræða og ég ætla næst að víkja að skerðingu ellilífeyris og örorkubóta. Ég verð að segja að mér finnst það hálfhörmulegt að standa hér í þessum ræðustóli á Alþingi Íslendinga og taka fyrst til umræðu árás á börn og unglinga og að verið sé að skerða framtíðarmöguleika þeirra og framtíðarmöguleika þessarar þjóðar og víkja svo næst að því að verið er að skerða ellilífeyri gamla fólksins. Ég bara veit ekki á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Hvers konar stefna er þetta? Hvers konar hugmyndfræði er þetta? Meðan hinir ríku í þessu þjóðfélagi, þeir sem hafa peningana, fjármagnseigendur, hálaunafólk, eru látnir í friði. Nú sé ég að hæstv. heilbrrh. sperrir upp augun því eins og við vitum úr sjónvarpsþætti þá á hann ákaflega erfitt, sjálfur jafnaðarmaðurinn, að þurfa að standa í þessum aðgerðum en vísar til þess að verið sé að skerða ellilífeyrinn hjá hálaunafólki og vissulega er það rétt að ýmsir hátt launaðir fá greiddan lífeyri úr mörgum sjóðum en málið er það að með þessum aðgerðum er verið að auka misrétti meðal aldraðra. Kjör aldraðra, þeirra sem njóta ellilífeyris, þeirra sem þurfa að bæta á sig vinnu og stunda vinnu m.a. vegna þess að þeir fá mjög lítið úr lífeyrissjóðum, en eins og við vitum eru greiðslur úr lífeyrissjóðum ekki teknar hér með inn í dæmið. Kjör þessa fólks eru ákaflega misjöfn og eftir sem áður standa fjármagnseigendur utan við og það er einmitt margt gamalt fólk sem hefur tekjur af ýmiss konar fjármagni og eignum.
    Það þarf vart að taka fram að eins og þessi mál horfa við í þessu frv. þá höfnum við kvennalistakonur þeirri leið sem hér er farin og ég vil endurtaka það sem ég sagði í umræðum um lánsfjárlögin hér í fyrradag að eftir þessar aðgerðir og það sem við höfum horft upp á undanfarin ár þar sem menn hafa verið að gera tilraunir til tekjutengingar þá er ég orðin verulega hugsandi um þá aðferð. Nú er ég þeirrar skoðunar að hlutverk almannatrygginganna sé fyrst og fremst að aðstoða þá sem þurfa á aðstoð að halda. En í hvert skipti sem ríkisvaldið beitir sér fyrir tekjutengingu, hvort sem um eru að ræða vaxtabætur eða ellilífeyrinn nú og barnabæturnar, þá er viðmiðunin alltaf svo lág að tekjulágir hópar lenda í þessum skerðingum og það veit hamingjan að sú viðmiðun sem hér er höfð, þ.e. rúmlega 66 þús. kr., er ekki neitt neitt. Þetta er ekkert til að lifa af jafnvel þó að maður sé gamall og ætti það þó ekki að skipta máli. Eins og þessum tekjutengingum er háttað, bæði hvað varðar ellilífeyri og barnabætur, þá er ekki annað hægt en að hafna þessu þó að ég geti verið sammála því grundvallaratriði að það eigi að miða við aðstæður fólks.
    En það eru vissulega ýmsar spurningar varðandi ellilífeyrinn sem hér er á ferð og örorkubæturnar. Fyrst og fremst er náttúrlega sú spurning hvort hér sé um áunninn rétt að ræða. Á tímabilinu 1959--1971, þegar breytingar voru gerðar á tryggingalöggjöfinni, greiddi fólk ákveðna upphæð sem var mörkuð sérstaklega til lífeyris í ellilífeyrisgreiðslur og það er vissulega spurning hvort þar sé um eign að ræða. Reyndar hefur ríkislögmaður komist að þeirri niðurstöðu að þessi aðgerð sem hér er á ferðinni stríði ekki gegn lögum.
    Þetta er auðvitað líka spurning um siðferði. Þetta er líka spurning um það hvort ríkið hafi rétt til að svipta fólk þeim rétti sem það telur sig hafa unnið til og greitt fyrir á umliðnum árum. Og það er svolítið merkilegt að þetta tímabil, þegar þessar greiðslur áttu sér stað frá 1959--1971, er einmitt tímabil viðreisnarstjórnarinnar. Og nú þegar þessir sömu flokkar eru sestir við stjórnvölinn þá taka þeir til baka þennan rétt sem fólk taldi sig eiga

á þeim tíma.
    Það er ekki hægt að tala hér um almannatryggingarnar án þess að nefna sjómenn sérstaklega en það hlýtur að vera stór spurning hvernig á því stendur að þessi ríkisstjórn ræðst á sjómenn aftur og aftur. Þetta er þriðja aðgerðin af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem bitnar sérstaklega illa á sjómönnum og þar er ég að tala um sjómannaafsláttinn, barnabæturnar og nú ellilífeyrinn því að við vitum auðvitað að allverulegur hluti sjómanna hefur góðar tekjur, sem betur fer, og því verða þeir illa fyrir barðinu á þessum skerðingum.
    Það er svo aftur önnur spurning hvort réttlætanlegt sé að sjómenn njóti réttinda umfram aðrar stéttir í landinu en þetta hafa þeir samið um í sínum kjarasamningum og við þá á að standa. Þessu á ekki að breyta nema í samráði við sjómenn. Svo háttar til að sjómenn einir stétta geta hafið töku ellilífeyris 60 ára gamlir. Og eins og fram hefur komið þá eru hvorki meira né minna en 500 sjómenn í þessum 2.500 manna hópi sem verða fyrir skerðingu þannig að ef hægt er að benda á einn einstakan hóp, sem hér verður fyrir barðinu á ríkisstjórninni, þá eru það sjómenn. Þar að auki bætist við að lífeyrisgreiðslur, þ.e. greiðslur til sjómanna úr lífeyrissjóðum sjómanna eru ákaflega mismunandi vegna þess að togarasjómenn hafa borgað í lífeyrissjóð um alllangan tíma en það er tiltölulega mjög stutt síðan bátasjómenn fóru að borga í lífeyrissjóði. Þess vegna standa þeir mjög misjafnlega að vígi og þessi skerðing kemur afar misjafnlega niður á þeim. Og ég get ekki séð að með nokkrum hætti sé þessi aðgerð réttlætanleg gagnvart þessum hópi en þeir sem þekkja til sjómennsku vita að það er ákaflega slítandi starf og því eðlilegt að sjómenn hætti störfum fyrr en aðrar stéttir og þeir þurfa auðvitað að eiga möguleika til þess. En vilji ríkisstjórnin breyta þessum réttindum sjómanna sem verið er að afnema hér einhliða þá á auðvitað að ræða það við sjómenn. Kjarasamningar eru lausir og ríkisvaldið getur auðvitað beint því til samningsaðila að taka á þessum málum. Ég ætla að láta þetta duga um þessi lífeyrismál en aðrar kvennalistakonur munu taka mjög rækilega á því stóra máli sem hér er á ferð.
    Ég get ekki látið hjá líða að ræða aðeins um samskipti ríkisins og sveitarfélaganna sem hafa verið alveg með endemum í þessu máli. Það hefur komið fram hvað eftir annað og við höfum heilan bréfabunka til vitnis um að þau samskipti hafa þróast mjög til hins verra. Það stafar auðvitað af því að ríkisstjórnin hefur einhliða tekið ákvarðanir og nánast skipað sveitarfélögunum fyrir verkum en það vill svo til að í gildi er ákveðinn samningur milli sveitarfélaganna og ríkisins sem ríkið hefur nú einhliða þverbrotið. Með þessum lögum er verið að leggja gjöld á sveitarfélögin upp á rúmlega 600 millj. kr. Þar inni í er hinn umdeildi lögregluskattur sem reyndar hefur verið lækkaður nokkuð og það gerðist reyndar vegna mikillar og harðrar baráttu stjórnarandstöðunnar hér fyrir jól en hann er inni eftir sem áður og er nefskattur sem lagður verður á hvern einasta mann í sveitarfélögunum, hvort sem í viðkomandi sveitarfélagi er nokkur löggæsla eður ei en vonandi njóta menn nú einhvers af fyrst þetta verður lagt á.
    Ég ætla aðeins að nefna húsnæðismálin en við 2. umr. kom upp að nokkur misskilningur virtist vera á ferð varðandi það 3,5% óafturkræfa framlag sem sveitarfélögin eiga að leggja til félagslegra íbúða. Við komum aftur inn á samskipti ríkisins og sveitarfélaganna. Svo virðist sem sveitarfélögin hafi ekki skilið hvað þarna var á ferð, m.a. fulltrúar Reykjavíkurborgar. Þeir höfðu ekki áttað sig á því að með tillögunni var átt við allar félagslegar íbúðir en ég verð að taka undir þau rök að það er afar óeðlilegt að kjör þeirra sem kaupa eða leigja félagslegar íbúðir séu með mismunandi hætti eftir því hver eignaraðilinn er. Hins vegar vil ég ítreka að þarna hefur verið farið heldur óviturlega að með því að ræða málið ekki betur við sveitarfélögin. Reiknað er með að þetta kosti sveitarfélögin um 120 millj. kr., 116 millj. ef nákvæmlega er reiknað, og eins og gefur að skilja lendir þetta fyrst og fremst á Reykjavíkurborg. Mér heyrðist á fulltrúa Reykjavíkurborgar, sem kom á fund efh.- og viðskn., að þar væru menn ekki par hrifnir af þessu. En við skulum minnast þess að Reykjavíkuríhaldið hefur aldrei verið neitt sérstaklega hrifið af félagslegum íbúðum og ég er svo sem ekkert sérstaklega að vorkenna Reykjavíkurborg að þurfa að leggja eitthvað af mörkum.

    Enn eitt mál sem snertir sveitarfélögin eru hafnagjöldin sem nú á að innheimta í höfnum landsins. Þarna var á ferðinni afar illa unnin tillaga. Hún batnaði að vísu nokkuð í meðförum nefndarinnar þar sem fólk sá ýmsa galla á tillögunni sem bent var á en eftir stendur að þarna er verið að seilast inn á verksvið sveitarstjórnanna. Gjöld af höfnum eru einn af tekjustofnum sveitarfélaganna og ríkið er að leggja á aukagjöld sem verður auðvitað velt út í verðlagið.
    Þá kem ég að hinni margumræddu og margfrægu tillögu um tilsjónarmennina, sérsveitirnar eða svarthúfurnar eða hvað maður á að kalla þessar sveitar fjmrn. Auðvitað vaknar strax sú spurning hvers vegna í ósköpunum sé verið að koma tillögu um sérstaka tilsjónarmenn inn í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Tilgangurinn er auðvitað sá að tilsjónarmennirnir sjái til þess að stofnanir ríkisins haldi sig innan fjárlaga og ekki allt fari úr böndunum. Sannast sagna var tillagan alveg með endemum þegar hún kom fyrst inn í efh.- og viðskn. og segja má að hún hafi verið algerlega galopin og þá í þeim skilningi að tilsjónarmönnunum var veitt allsherjarvald, einræðisvald yfir viðkomandi stofnunum. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar tóku sönsum og löguðu tillöguna nokkuð þannig að hún er þó a.m.k. skýrari eins og hún lítur út núna en eftir stendur að ábyrgð og valdsvið tilsjónarmannanna er meira en hægt er að sætta sig við. Ég held að tillagan um tilsjónarmenn verði ekki til þess að bæta samskipti ríkisins við starfsmenn sína og þurfa þau þó sannarlega að batna. Eins og hér hefur verið staðið að málum er um hreina ögrun við ríkisstarfsmenn að ræða. Hér er farin sú leið að beita valdi og miðstýringu og forsjárhyggju sem ríkisstjórnin hefur oft lýst andúð sinni á í stað þess að fara leið samvinnu og samráðs sem er auðvitað hin rétta leið ef menn vilja ná árangri. Það var rifjað upp í efh.- og viðskn. að þess eru nokkur dæmi að menn hafi verið sendir inn í stofnanir ríkisins til þess að reyna að laga þar til, en því miður hefur það stundum farið svo að árangurinn hefur verið verri en enginn. Myndast hefur togstreita og það er ekki hin rétta leið að senda einhvers konar vönd inn í ríkisstofnanir, einhverja ógnun við stjórnendur.
    Ég minnist þess að í umræðum um lánsfjárlögin þar sem þessir tilsjónarmenn komu nokkuð til umræðu komst hæstv. fjmrh. svo að orði að það væri oft svo að stjórnendur ríkisstofnana væru faglegir aðilar en hefðu heldur lítið vit á fjármálum, ef ég skildi hann rétt. Ég skrifaði þetta ekki orðrétt niður og mér þykir horfa undarlega við ef stjórnendur ríkisstofnana eru ráðnir án þess að gengið sé úr skugga um að þeir hafi stjórnunarhæfileika, hafi eitthvert vit á fjármálum. Ég held að það hljóti að vera eitt af grundvallarskilyrðunum að menn hafi eitthvert vit á því hvernig á að reka stofnanir ef þeir eiga yfirleitt að geta verið stjórnendur. Benda má á að yfirleitt hefur verið meira vandamál hjá ríkinu að halda í góða stjórnendur vegna þeirra launakjara sem boðið er upp á hjá ríkinu en að ástæða sé til þess að senda tilsjónarmenn á stjórnendur ríkisfyrirtækja. Hér er auðvitað um fjármálalegt atriði að ræða og ég hlýt að spyrja fjmrh. hvernig staðið verði að ráðningu tilsjónarmanna. Er meiningin að starfsmenn fjmrn. verði sendir út í hinar ýmsu stjórnarstofnanir? Og í hvaða launaflokki verða tilsjónarmenn? Verða stöðurnar nokkuð auglýstar? Ég vil einnig spyrja hæstv. fjmrh. hvort til standi að hanna sérstaka búninga á þessa starfsmenn og hugsanlega líka stígvél. Svona sérsveitir eru oft klæddar í ákveðna búninga.
    Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort ekki hefði verið ástæða til þess að endurskoða lögin um Stjórnarráð Íslands, koma með brtt. við þau ef vilji er til þess að taka á stjórnun ríkisstofnana og bæta hana því að þar á slíkt ákvæði fremur heima. Ég vil ítreka það enn og aftur að ég held að það sé nauðsynlegt bæði að ríkið geti sent slíka skoðunarmenn og að stofnanir geti óskað eftir því að fá slíka menn til aðstoðar. Ég held að það sé brýnt atriði vegna þess að auðvitað getur komið upp sú staða í ríkisstofnunum að rangar ákvarðanir hafi verið teknar. Eitthvað verður dýrara en reiknað hafði verið með og menn geta þurft á aðstoð að halda en eins og hér hefur verið staðið að málum er ekki hægt að sætta sig við þetta. Valdsvið tilsjónarmannanna er allt of rúmt. Þeir geta tekið ákvarðanir um fjárhag ríkisstofnana og eiga að skipta sér af starfsmannamálum. Með öðrum orðum geta þeir gengið inn í ríkisstofnanir og hugsanlega sagt þar upp fólki. Ég tel það ekki vera verkefni slíkra manna heldur ættu þeir fyrst og fremst að aðstoða við endurskipulagningu fjármála ef nauðsyn krefur.
    Ég ætla ekki að gera önnur mál sem í þessu frv. er að finna að umtalsefni. Ég hef gert það mjög rækilega áður. Þó vil ég enn og aftur minna á að í II. kafla frv. er að finna ýmis skerðingarákvæði þar sem markaðir tekjustofnar eru skertir og minna þingheim á það að enn er tækifæri til þess að breyta tillögunum. Ég vil sérstaklega minna á Húsafriðunarsjóðinn sem fær allt of lítið í sinn hlut en þarf að gíma við mjög brýn menningarverkefni og menningarverðmæti sem þarfnast varðveislu og þetta er ábyrgðarhluti af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig hún ætlar sér að standa að þeim málum. Ég hef rakið það áður að ýmsir af gömlu torfbæjunum okkar liggja undir skemmdum og ég nefni þar sérstaklega Glaumbæ í Skagafirði, en ég gæti nefnt fleiri dæmi og ég má ekki til þess hugsa að þar verði skaði sem ekki megi bæta.
    Það er orðinn veruleiki að leggja á bókaútgáfu Menningarsjóðs niður. Þegar er hafin útsala á þeim lager sem þar er að finna og ég vil benda þingmönnum á það sérstaklega að þar er að finna mörg góð fræðirit sem vert er að kynna sér. Þarna er um gamla stofnun að ræða sem verið er að breyta og erfitt er að sjá ástæðuna fyrir þeirri breytingu.
    Í lokin, herra forseti, vil ég reyna að draga aðeins saman hvað felst í þessu frv. sem er til umræðu. Í stuttu máli má segja að verið sé að staðfesta þann niðurskurð sem fram kom í fjárlagafrv. sem er orðið að lögum. Í öðru lagi er hér verið að staðfesta margfalda árás á velferðarkerfið. Í þriðja lagi er verið að velta gjöldum yfir á almenning og í fjórða lagi er verið að leggja álögur á sveitarfélögin í landinu. Ríkisstjórninni er ekkert heilagt. Það er sama hvort það eru börnin, gamalmennin eða menningarlífið sem þar á í hlut. Mér dettur í því sambandi í hug fréttapistill frá Finnlandi, sem ég heyrði í gærkvöld í Ríkisútvarpinu, þar sem sagt var frá því að finnska ríkisstjórnin glímir nú við mikla erfiðleika í fjármálum finnska ríkisins vegna þess áfalls sem Finnar hafa orðið fyrir þar sem viðskipti við hin fyrrverandi Sovétríki hafa hrunið. Þeir hafa orðið að draga saman seglin og skera niður en þeir hafa ekki skorið niður fjárframlög til menningarmála. Þeim er nefnilega ljóst að á samdráttartímum er nauðsynlegt að efla andann og gefa fólki kost á að fylla tómstundir sínar með ýmsum góðum verkefnum og þar blómstra nú leikhús, bókasöfn og ýmiss konar tómstundaiðja og þar tel ég að um rétta stefnu sé að ræða.
    Sú samdráttarstefna sem felst í þessu frv. og öðrum tengdum frumvörpum gengur þvert á alla viðurkennda hagfræði á samdráttartímum og ég lýsi enn þeirri skoðun minni að ríkisstjórnin sé að setja af stað keðjuverkun sem eigi eftir að valda okkur miklum erfiðleikum og muni taka langan tíma að bæta. Við höfnum þessum tillögum og þessu frv. í heild þó að í því sé að finna einstaka atriði sem hægt sé að sætta sig við. Við höfnum þessu vegna þess að ekki er um neina forgangsröð að ræða af hálfu ríkisstjórninnar. Ráðist er á nánast hvern einasta aðila í þjóðfélaginu nema ríka fólkið. Ekkert mat er lagt á þarfir og nokkrir ákveðnir þjóðfélagshópar verða sérstaklega fyrir barðinu á ríkisstjórninni og ég hef áður nefnt þá hér, börnin, gamalmennin, öryrkja og reyndar líka bændur. En nú kemur í ljós að búvörusamningurinn hefur reynst bændum allgóð vörn þó að ríkisstjórnin hafi reyndar þegar leyft sér að brjóta hann og kippa grundvellinum undan þeirri þróun sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins átti að standa fyrir með þeim niðurskurði sem er á ferð í þessu frv. Hér er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og enn og aftur segi ég, við höfnum þessari stefnu og við höfnum þessari ríkisstjórn. Hún hefur ekkert umboð til þeirra hluta sem hún er að framkvæma. Því miður er ríkisstjórnin að setja allt á annan endann í þjóðfélaginu. Kjarasamningar eru fram undan og ég tel að fram undan sé verulegur órói og átök, ekki síst vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Það er ekki það sem þjóðin þarf á að halda. Það sem við þurfum á að halda er að sækja peningana þangað sem þeir eru, stokka upp ríkisstofnanir í samráði við starfsmenn ríkisins ef þess er þörf. Sérstaklega hlýtur framganga Alþfl. í þessum málum að vekja athygli sem er aldeilis með ólíkindum og ég rakti fyrir tveimur dögum hvernig Alþfl. hefur brugðist nánast öllum hugsjónum sínum. Þeir alþýðuflokksmenn ættu að kynna sér það sem gerðist í Svíþjóð þar sem sænski sósíaldemókrataflokkurinn undir forustu Ingvars Carlssonar fór út í niðurskurð á velferðarkerfinu, sem hugsanlega var þörf á, ekki ætla ég

að dæma um það, en svo mikið er víst að þeir hófu niðurskurðinn algerlega óundirbúið og án þess að ræða það við fólkið í landinu og það kostaði þá mikið fylgistap. Ég hygg að það sama bíði Alþfl. með þessu áframhaldi. En það sem við þurfum nú á að halda er bjartsýni og dugur til þess að taka á þeim vandamálum sem við okkur blasa. Við þurfum að bretta upp ermar og spýta í lófana, gera áætlanir um það hvað við getum gert til þess að bæta ástandið sem vissulega er ekki nógu gott og versnar stöðugt vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.
    Við kvennalistakonur höfum jafnan verið tilbúnar til þess að leggja góðum málum lið og við erum svo sannarlega reiðubúnar til þess að benda á leiðir og höfum gert það hvað eftir annað, leiðir til þess að bæta hér ástandið, leiðir til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð. Það á að fara varlega í niðurskurð og afla tekna þar sem peninga er að finna.