Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:07:00 (2802)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég var ekki að bera saman þann samdrátt sem átt hefur sér stað í Finnlandi og hér á landi heldur fyrst og fremst að benda á að Finnar hafa tekið annan pól í hæðina. Þeir hafa sett upp ákveðna forgangsröð. Þeir hafa hlíft menningarlífinu og frekar beint til þess fjármagni en að skera niður. Þar er fyrst og fremst um stefnumörkun að ræða en hjá þessari ríkisstjórn er ekki um neins konar forgangsröðun verkefna að ræða nema ef nefna mætti það að hlífa hinum ríku.
    Varðandi tilsjónarmennina sagði ég að það er fyrst og fremst hið mikla og víða verksvið sem þeir hafa, það mikla vald sem þeir fá innan stofnana, sem er gagnrýni vert. Í tillögunni segir: ,,Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal umfang starfsmannahalds, í samráði við ráðherra, eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni.`` Það kemur reyndar fram að ráðherrar geta haft hönd í bagga líka en þetta er býsna mikið vald sem þarna er á ferð.
    Mér voru að berast þau tíðindi að ASÍ hefur verið að gera einhvers konar samþykkt eða áskorun, ég veit ekki alveg á hvaða formi það er, til ríkisstjórnarinnar um að hún hætti við þjónustugjöldin og skerðingu barnabóta. Það hafa auðvitað komið slíkar tilkynningar frá þeim áður en hér er verið að boða að aukin harka sé að færast í kjarabaráttuna. Auðvitað var þess að vænta með þessum aðgerðum, sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þessi ríkisstjórn er að vekja óróa og efna til átaka og það er ekki það sem við þurfum á að halda.