Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 10:02:00 (2813)

     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Virðulegur forseti. Á þskj. 269 er nál. frá 2. minni hluta efh.- og viðskn. en undir það rita Halldór Ásgrímsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Við getum tekið undir það að lánastofnanir verði sameinaðar. Að því hefur verið unnið um langt skeið með misjöfnum árangri. Allmargar nefndir hafa verið skipaðar sem hafa fengið það hlutverk að koma með tillögur um hvernig fjárfestingarlánasjóðirnir gætu starfað sem best saman og ekki síst með sameiningu þeirra í huga.
    Um þetta mál hafa verið alldeildar meiningar og hafa þar rekist á hagsmunir atvinnuvega eins og kunnugt er. Því hefur ekki fengist niðurstaða í það mál en nú nýlega eða fyrir um það bil einu ári skilaði nefnd tillögum um þetta efni og þar var gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður Íslands sameinaðist öðrum fjárfestingarlánasjóðum sem ég skal ekki fara nánar út í.
    Í tengslum við þetta mál hafa verið rifjuð upp mörg önnur mál, þ.e. lánamál Framkvæmdasjóðs Íslands, með misjöfnum hætti, og hefur hæstv. forsrh. helst haft forgöngu um þau mál. Eins og kunnugt er hefur hæstv. forsrh. talið að flest af því sem gert hefur verið hafi verið af hinu illa og gagnrýnt mjög ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ég ætla ekki

að fara út í þá umræðu en hæstv. forsrh. er mikið gefinn fyrir það að tala um fortíðina og finna sökudólga fyrir því sem gerst hefur í fortíðinni og fer alllangt aftur í tímann.
    Auðvitað hafa verið gerð mistök í íslensku samfélagi og menn geta út af fyrir sig eytt tíma sínum í það að finna sökudólga. Hæstv. forsrh. hefur aðallega haft þá iðju að kenna þau við Framsfl. hvort sem hans flokkur hefur verið í samstarfi við Framsfl. eða ekki. Þingmenn Sjálfstfl. hafa látið í það skína að þeir hafi ekki haft nein áhrif þar á.
    Vissulega væri ástæða til þess, virðulegur forseti, að halda um þessi efni langa ræðu en ég ætla ekki að fara út á þá braut hér. Við í 2. minni hluta nefndarinnar óskuðum eftir því að fá að ræða við stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands um þessi mál en svo vill nú til að þingflokksformaður annars stjórnarflokksins sat síðast í stjórn þessa sjóðs og er einn af þeim sem er ábyrgur fyrir lánveitingum sjóðsins í nálægustu fortíð og ætti því að geta upplýst okkur um það. Gæti hæstv. forsrh. áreiðanlega leitað sér margvíslegs fróðleiks hjá honum. En við þeirri beiðni okkar að kalla fyrir stjórn sjóðsins var ekki orðið sem mér finnst mjög óeðlilegt og þegar flutt er frv. til laga um að leggja niður Framkvæmdasjóð Ísland, þá skuli ekki vera gefið ráðrúm til þess að ræða það mál og mál þessu tengd við stjórn viðkomandi sjóðs. Ástæðan fyrir því er áreiðanlega tímaskortur en fyrir jólin var það ætlan stjórnarmeirihlutans að koma mörgum málum fram á Alþingi án þess að undirbúningur þeirra gæfi nokkurt tilefni til slíks ásetnings. Þar af leiðandi voru mál tekin út úr nefnd í nokkrum flýti oft og tíðum. Þetta mál er eitt þeirra sem þannig er ástatt um en síðan er liðinn rétt rúmur mánuður því að nál. eru dagsett fyrir og eftir miðjan desember.
    Við teljum ekki tímabært að ganga frá þessu máli og erum þeirrar skoðunar að rétt sé að það fylgi þeirri vinnu sem hefur átt sér stað um sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna og viljum bíða eftir niðurstöðum í þeim efnum en teljum hins vegar mikilvægt að því sé flýtt eftir því sem nokkur kostur er. Með tilliti til þessa munum við undirritaðir nefndarmenn sitja hjá við afgreiðslu málsins.