Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 10:09:00 (2814)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls leitaði ég eftir því að fá það upplýst hvaða skuldbindingar Ísland hefði tekið á sig þegar það þáði Marshall-aðstoð. Ég lít ekki á það sem neitt leynisamkomulag sem gert var þegar Ísland þáði Marshall-aðstoð. Ég lít á það sem hluta af því sem við gerðum í erfiðri stöðu þegar við þurftum að rífa okkur út úr efnahagsvanda eftir að nýsköpunarstjórnin hafði sóað öllum gjaldeyri Íslendinga og hér voru erfiðir tímar. En það er gersamlega ólíðandi að fá ekki upp gefið hvaða skuldbindingar voru þá undirritaðar og hvaða samningar voru gerðir í tengslum við Mótvirðissjóðinn. Eins og allir vita var hann sá sjóður sem seinna breytti um nafn og þróaðist yfir í það að verða Framkvæmdasjóður Íslands. Fyrst voru þessir fjármunir  . . .  ( Forseti: Forseti vill nú spyrja hv. þm. . . .  ) Mitt erindi er einfalt. Ég spurði hæstv. ráðherra um þessi mál, leitaði eftir því við utanrrh. að hann upplýsti þetta og ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. eða staðgengill hans upplýsi þetta mál við þessa umræðu.