Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 10:11:00 (2815)

     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Hæstv. forseti. Ég vil í tilefni síðustu ræðu hér upplýsa að ekki vannst tími til eða var gefið svigrúm til að skoða þetta atriði sem hv. síðasti ræðumaður nefndi frekar en önnur atriði sem spurst var fyrir um varðandi þennan sjóð sem hér er lagt til að leggja niður eða sameina Lánasýslu ríkisins. Upplýst var eða því var haldið fram að mikið lægi við að drífa þetta mál af fyrir jólaleyfi þegar þetta var til umræðu þá í efh.- og viðskn. Það vannst sem sagt allt of lítill tími til að skoða þetta mál í efh.- og viðskn. í annríki fyrir jól. Þó var ekki um það að ræða að þetta væri eitthvert ágreiningsmál þar sem andstæðar fylkingar tækjust á þar sem engu yrði um þokað. Þvert á móti var það svo, og er væntanlega, að um þetta mál er í sjálfu sér ekki neinn djúpstæður, pólitískur ágreiningur svo mér sé kunnugt um. Menn eru að sjálfsögðu tilbúnir og hafa yfirleitt verið það í öllum flokkum á undanförnum árum að endurskoða og endurskipuleggja meðferð þessara mála. Reyndar er það kunnugt að á undanförnum árum hefur margs konar vinna verið í gangi

sem miðað hefur að því að endurskipuleggja og hagræða í rekstri helstu fjárfestingarlánasjóða, opinberra lánasjóða landsins. Það er því ekki um það að ræða að slíkur ágreiningur hefði átt að hindra að menn hefðu tekið sér aðeins meiri tíma til að fara yfir málefni Framkvæmdasjóðs og m.a. fá það upplýst, sem er kannski ekki stórmál en lá þó fyrir, að Framkvæmdasjóður hefur veitt nokkrum minni sjóðum ákveðna þjónustu og haft umsjón með þeim í meira eða minna mæli. Þetta mun eiga við um Ferðamálasjóð og einhverja fleiri. Reyndar var óskað eftir því í efh.- og viðskn. að greinargerð yrði tekin saman um það hvernig menn hygðust standa að þessum breytingum, að Lánasýsla ríkisins yfirtæki Framkvæmdasjóð, hvernig yrði farið með praktíska hluti eins og starfsmannahald, tækjabúnað og starfrækslu sjóðsins eða sjóðanna á fyrstu mánuðum eða árum eftir að þessi lög tækju gildi. En það var ætlun hæstv. ríkisstjórnar að afgreiða þetta með slíkum hraði í desembermánuði sl. að lítið tóm gafst til að skoða þvíumlíkt. Í því ljósi er rétt að menn hafi í huga að við þær aðstæður var afstaða 1. minni hluta að leggjast ekki gegn afgreiðslu þessa frv. ef hæstv. ríkisstjórn teldi það réttast og vildi bera á því pólitíska ábyrgð að framkvæma þessa sameiningu eina og sér og aðhafast ekki annað að þessu sinni varðandi heildarskipulag fjárfestingarlánasjóðanna.
    Það lítur í sjálfu sér ekki út fyrir að vera óskynsamleg breyting að sameina þessa sjóði og koma þeim undir einn hatt. En ég get tekið undir það sem kom fram í framsöguræðu fyrir nál. 2. minni hluta að auðvitað hefðu menn fagnað því ef þetta hefði gerst í tengslum við víðtækari endurskoðun og uppstokkun á málefnum opinberra sjóða og fjárfestingarlánasjóða í landinu. Í nál. 1. minni hluta á þingskjali 261 er hins vegar harðlega mótmælt því moldroki sem núv. hæstv. forsrh. hefur þyrlað upp, m.a. um málefni Framkvæmdasjóðs. Hæstv. forsrh. hefur með mjög sérkennilegum hætti reynt að ata auri forvera sína í starfi og ýmsa fleiri pólitíska andstæðinga og einnig póltíska samherja ef betur er að gáð.
    Auðvitað er það staðreynd að núv. stjórnarflokkar bera umtalsverða ábyrgð á því sem þarna er á ferðinni og hæstv. forsrh. hefur harðlega gagnrýnt. Það er t.d. sérkennilegt að hæstv. forsrh. skuli algerlega ganga fram hjá þeirri staðreynd í sínum tilraunum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga og upphefja sjálfan sig að Sjálfstfl., hans eigin flokkur, ber auðvitað þunga pólitíska ábyrgð á mjög mörgum þeirra mála sem einmitt liggja til grundvallar þeim vanda sem í Framkvæmdasjóði er og þeim áföllum sem hann hefur orðið fyrir á undangengnum árum. Ég hygg að þegar frá líður muni hinn gassalegi málflutningur hæstv. forsrh. frá öndverðu sumri dæma sig sjálfur þar sem hann hugðist ryðja um koll nánast öllum andstæðingum sínum, að manni skildist, og höggva frá alla fortíð í stjórnmálum á Íslandi, dæma hana á einu bretti óalandi og óferjandi og að nú tækju við hinir hvítþvegnu heilögu menn sem aldrei hefði neitt orðið á eða neitt misjafnt gert. Það var greinilega ætlun hæstv. forsrh. að láta einhver meiri háttar vatnaskil verða í íslenskum stjórnmálum þar sem kæmi að hans þætti, þegar upphæfist öld hinna fullkomnu stjórnenda sem aldrei yrði neitt á.
    Um þetta vitnar t.d. mjög skýrt erindisbréf fortíðarvandanefndarinar sem hæstv. forsrh. skipaði eftir ríkisstjórnarfundinn 23. júlí sl. Ég hef áður vitnað í þetta ágæta erindisbréf. Ég held að það upplýsi með tiltölulega skýrum hætti hvað fyrir hæstv. forsrh. vakti m.a. í þessum sérkennilega málatilbúnaði. Það er svo greinilegt á öllu nefndarálitinu að megintilgangur þessarar herferðar allrar af hálfu hæstv. forsrh. var að finna sökudólga, að sakfella forvera sína bæði í embætti forsrh. að því er virðist og aðra þá sem að stjórnmálastörfum höfðu unnið á undangengnum árum. T.d. eru fullyrðingar í þessu merkilega skipunarbréfi fortíðarvandanefndarinnar um að hlutverk nefndarinnar skuli í fyrsta lagi vera að afla upplýsinga um þann fjárhagsvanda sem hingað til hefur ekki verið gerð grein fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Í skipunarbréfinu er beinlínis fullyrt að um allan þennan vanda hafi verið þagað sem nefndin hefur verið að fást við síðan. Það er gefið í skyn í hinu opinbera skipunarbréfi nefndarinnar að þarna hafi verið leynt upplýsingum, þagað um vandamál í rekstri hins opinbera eða sjóðum þess. Nú vita hv. alþm. auðvitað að þetta er rangt. Þessi fullyrðing í skipunarbréfi fortíðarvandanefndar forsrh., sem m.a. hefur fjallað um málefni Framkvæmdasjóðs, er röng. Auðvitað hefur á undanförnum árum verið með ýmsum hætti gerð grein fyrir mörgum af þeim vandamálum sem hér er rætt um.
    Dettur hæstv. forsrh. virkilega í hug að ætla að halda því fram við okkur alþingismenn, t.d. þá sem hafa setið á þingi síðan 1983, að aldrei hafi verið rætt um þann augljósa vanda sem var að skapast vegna óráðsíunnar við byggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar? Dettur hæstv. forsrh. það virkilega í hug að hann geti sannfært þá alþingismenn sem hér hafa setið eitt eða tvö kjörtímabil, sem sagt einu til tveimur kjörtímabilum lengur en hæstv. forsrh., þingmenn sem hafa tekið þátt í margvíslegum umræðum um þetta dæmalausa mál, byggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, m.a. hörðum umræðum sem urðu á Alþingi að mig minnir á árinu 1988? Það ár kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um það mál þar sem farið var rækilega ofan í saumana á umframkostnaði við bygginguna, m.a. sukkkostnaðinum sem leiddi af þeirri ákvörðun Sjálfstfl. að knýja fram opnun flugstöðvarinnar nokkrum vikum fyrir kosningar til Alþingis 1987. Sjálfstfl. bar höfuðábyrgð á því og þetta var eitt helsta kosningamál Sjálfstfl. á Reykjanesi eins og kunnugt er. Hv. þáv. þm. Matthías Á. Mathiesen lét mynda sig með öllum framboðslista Sjálfstfl. fyrir framan flugstöðina og væntanlega einnig núv. hæstv. forseti Alþingis. Hún var alveg sérstök skrautfjöður í hatt Sjálfstfl., þessi flugstöðvarbygging. ( Gripið fram í: Nei, hún var engin skrautfjöður.) Hún átti að verða það, hv. alþm., en það er rétt hjá þér, hún reyndist engin skrautfjöður frekar en fleiri fjaðrir, t.d. sú sem teiknuð er upp úr hinum selda hatti núv. hæstv. utanrrh. í Morgunblaðinu flesta daga. ( Fjmrh.: Það er betra en Þjóðleikhúsið.) Nú fara stjórnarliðar að ókyrrast. Það er von að þeim fari að líða svolítið illa. Er verið að ráðast á hv. þm. Árna Johnsen? Er verið að ráðast á formann byggingarnefndar Þjóðleikhússins með þessum smekklega hætti? (Gripið fram í.) Nei, til þess að við höldum okkur við dagskrárefnið og ég reyni að róa niður Sjálfstfl. og hjálpa hæstv. forseta við fundarstjórnina þannig að þetta fari ekki allt úr böndunum vegna ókyrrðar Sjálfstfl. í þingsalnum, þá er það auðvitað þannig að hæstv. forsrh. stendur hér ber að því að fara með hreinar blekkingar í hinu opinbera skipunarbréfi til fortíðarvandanefndarinnar sem m.a. fór yfir vanda Framkvæmdasjóðs.
    Þriðja sérálit fortíðarvandanefndarinnar er útkoman hjá Framkvæmdasjóði. Það er nauðsynlegt ef hæstv. forsrh. heldur þessu áfram og viðurkennir ekki að þetta orðalag erindisbréfsins sé villandi að við förum yfir það t.d. hvernig gerð hefur verið grein fyrir þessum vanda m.a. hjá Framkvæmdasjóði á undanförnum árum með ýmsum hætti. Það er ekkert nýtt, hæstv. forsrh., ef vaxtamunurinn í byggingarsjóðunum safnast upp ár frá ári að hann skapi vanda. Það hefur verið rætt hér á Alþingi á undanförnum árum oft og iðulega hvernig með það eigi að fara. Einnig hefur verið rætt oft og iðulega um vandann vegna byggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, m.a. í mjög hörðum umræðum sem urðu á Alþingi þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út og upplýsti um þennan hneykslanlega kostnað sem varð við þessa byggingu, m.a. vegna ákvörðunar Sjálfstfl. um að knýja fram opnun flugstöðvarinnar fyrir alþingiskosningarnar 1987. Þá var hv. 7. þm. Reykn. utanrrh. Ég hygg að komið hafi í hlut okkar nafnanna að ræða þessa skýrslu sérstaklega í umræðum sem ég óskaði eftir á þeim tíma. Þá var hv. þm. Steingrímur Hermannsson utanrrh. og var að reyna að svara og klóra eftir atvikum yfir eins og hann gat skammir samstarfsflokksins, Sjálfstfl., sem þá var. En það gekk ekki vel því að Ríkisendurskoðun gerði á þessu mjög greinargóða úttekt sem var satt best að segja einhver harðasti áfellisdómur sem fallið hefur í einu framkvæmdamáli af þessu tagi þangað til upplýsingar fóru að berast af afrekum fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík. Þá er e.t.v. mögulegt að þetta met Sjálfstfl. hafi verið slegið en metið hélst þó innan fjölskyldunnar og það má vera nokkurt huggunarefni þeim sjálfstæðismönnum að það færðist bara um set frá Reykjanesi til Reykjavíkur.
    Í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar, hæstv. forsrh., sem við getum grafið upp og ég get útvegað hæstv. forsrh. úr því að hún er honum ekki kunnug, voru augljósar upplýsingar lagðar fram um að þarna blasti við mikill vandi vegna þess hvernig byggingarkostnaður flugstöðvarinnar hafði farið úr öllum böndum. (Gripið fram í.) Það mun hafa verið hv. fyrrv. þm. og hæstv. fyrrv. forsrh. og formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, og þessi

afrek voru aðallega unnin, eins og kunnugt er, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. á árunum 1983--1987 og mjög harðlega gagnrýnt og við þeim varað m.a. af okkur alþýðubandalagsmönnum.
    Ríkisendurskoðun benti sem sagt á, ég held ég muni rétt að þetta hafi verið á árinu 1988, væntanlega fyrri hluta þess árs, að þarna blasti við geysilegur vandi vegna þess að óhugsandi væri að tekjur af starfsemi í flugstöðinni í Keflavík, leigutekjur af húsnæðinu og hagnaður af starfsemi sem þar væri, gæti borið þennan ofboðslega fjárfestingarkostnað. Það er nokkurn veginn sambærileg niðurstaða við það sem nú kemur fram hjá fortíðarvandanefndinni. Þar er, ef ég man í grófum dráttum rétt, talið að e.t.v. geti flugstöðin sjálf og tekjur sem þar skapast borið um helming af þessum kostnaði, alls ekki meira, afgangurinn falli á ríkissjóð. Hæstv. forsrh. kallar það fortíðarvanda þegar eitthvað slíkt gerist. Hann hefur farið hörðum orðum um þá sem skapað hafa þennan fortíðarvanda.
    Í þessu erindisbréfi var hann enn við sama heygarðshornið og fullyrðir þar m.a. að gera eigi sérstaklega grein fyrir þeim fjárhagsvanda sem hingað til hafi ekki verið gerð grein fyrir. Síðan segir í 2. tölul.: ,,Gera tillögur um leiðir til að einangra þennan fortíðarvanda þannig að með skýrum hætti megi draga markalínu milli þess sem hefur viðgengist og þess sem er fyrirhugað.`` Það er þessi markalína sem ég var að nefna áðan sem hæstv. forsrh. hefur greinilega ætlað að draga í gegnum íslenska stjórnmálasögu, þessi miklu vatnaskil milli hinna fullkomnu og hinna ófullkomnu, fortíðarinnar, hinnar ófullkomnu fortíðar þar sem alltaf var að safnast upp vandi og hinnar fullkomnu framtíðar hæstv. forsrh. sem hann ætlar að innleiða í íslenskum stjórnmálum. Þar verður mönnum aldrei neitt á og engin mistök gerast og enginn fortíðarvandi safnast upp.
    Þetta voru í grófum dráttum hugmyndirnar eins og þær birtast m.a. í skjölum og hafa haft talsvserð áhrif á umfjöllun um þetta mál, stöðu Framkvæmdasjóðs Íslands og þá ákvörðun núv. ríkisstjórnar að færa þann sjóð undir Lánasýslu ríkisins.
    Auðvitað er það staðreynd, hæstv. forseti, að ágætlega fer á því að núv. stjórnarflokkar beri ábyrgð á þessari ákvörðun vegna þess að þeir bera líka mjög ríka ábyrgð á mörgum þeim málum sem við er að glíma í Framkvæmdasjóði. Nú ætla ég ekki að fara að draga hér inn nafngreinda einstaklinga í þessum flokkum sem komið hafa að einstökum málum eins og hinu umtalaða Álafossmáli. Það vekur þó óneitanlega athygli vegna þess hvernig umræður verða stundum, t.d. þegar rætt er um einkaframtak annars vegar og opinberan rekstur með þeim einfaldaða hætti að yfirleitt sé reglan sú að allt sé fullkomið í einkarekstri en ófullkomið í opinberum rekstri. Það sé óhrekjandi lögmál að hlutirnir gangi ævinlega betur undir formerkjum einkaframtaksins og manni er ætlað að skilja það svo að jafnvel þeir einstaklingar sem helga sig einkaframtakinu hljóti þar með að vera miklu gáfaðri og betri og duglegri en aðrir menn. Þess vegna er það dálítið sérkennilegt að þetta stærsta vandamál Framkvæmdasjóðs frá upphafi vega og stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar var undir stjórn einkaframtaksmanna. Þar var hver silkihúfan upp af annarri og alveg náskyldar upp til hópa núv. stjórnarflokkum sem mesta ábyrgð bera á framgangi þess máls í gegnum tíðina. Það slæddist að vísu einn og einn framsóknarmaður inn vegna aðildar Sambandsins að því, en stjórn Álafoss og framkvæmd þessa máls hefur á undanförnum árum að langmestu leyti verið í höndum Sjálfstfl. og síðan hafa nokkrir eðalbornir kratar tengst þessu máli í gegnum setu sína í nokkrum mismunandi stjórnum. Ekki þarf að taka fram að Alþfl. er þegar búinn að vera í ríkisstjórn á fimmta ár samfellt og hefur á þeim tíma farið í verulegum mæli með þetta mál, t.d. farið með iðnrn.
    Ég held að óhjákvæmilegt sé að taka þetta fyrir í tengslum við þetta mál þótt það sé kannski ekki í sjálfu sér svo stórt að ástæða sé til að fjölyrða mikið um það, enda ekki verið að tala gegn því hér sem slíku. Hins vegar er óhjákvæmilegt að mótmæla þessum endurteknu tilraunum hæstv. forsrh. til að þyrla upp moldviðri um þessi mál. Það hefur reyndar verið gert, m.a. í ítarlegri ræðu sem hv. 8. þm. Reykn. flutti við 1. umr. málsins og er hluti af þessu nál.
    Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara um þetta öllu fleiri orðum. Það er að vísu svo að hugur minn hefur staðið til þess að fara í dálítið ítarlegar umræður einhvern tíma um þessi fortíðarmál, m.a. í tilefni af því að Þorláksmessuskýrslan kom á borð okkar þingmanna þegar við komum úr jólaleyfi, þessi fölbláa sem gefin var út á Þorláksmessu. Um svipað leyti og menn voru að setja ofan í sig skötuna kom þessi fölbláa skýrsla ríkisstjórnarinnar út, að vísu ekki eins lyktandi og skatan, en innihaldið hefði svo sem alveg gefið tilefni til þess. Þar er ítarlega fjallað um Framkvæmdasjóð. Fortíðarvandanefndin hefur auðvitað farið yfir hann með því fororði og samkvæmt þeim skipunum og því erindisbréfi sem hún hefur til að leita þar að sökudólgum logandi ljósi og finna hvers vegna í ósköpunum þessi vandi hafi safnast upp, hverjir beri ábyrgð á honum, af hverju hafi ekki verið gerð grein fyrir honum o.s.frv. Hlutverk þeirra er sem sagt að afla sannana fyrir málflutningi hæstv. forsrh. Þarna voru sendir menn út af örkinni, settir í sérstaka nefnd til að reyna að finna rökstuðning fyrir ásökunum hæstv. forsrh. Menn geta svo lesið sjálfir hvernig til hefur tekist en ég spái því að fortíð Sjálfstfl. muni þvælast heilmikið fyrir hæstv. forsrh. í þessum efnum. Aftur og aftur muni hann þurfa að bíta í það súra epli að hitta ekki sjálfan sig fyrir vel að merkja vegna þess að hæstv. forsrh. hefur haft á hreinu að hann gæti hvítþvegið sig í verulegum mæli af því sem forverar hans á stóli, t.d. sem formanns Sjálfstfl., og forverar hans sem hæstv. forsætisráðherra ættu hlut að. Þar væri hann saklaus sökum bernsku sinnar í landsmálapólitík. (Gripið fram í.) Já, síðan er það auðvitað þannig að óheppnin ríður ekki við einteyming hjá hæstv. forsrh. Þegar hann hafði sett þessa miklu herferð í gang með lúðrablæstri og bumbuslætti miklum á öndverðu sumri, þá fóru að berast þessi óskaplegu tíðindi af framkvæmdamálum hans sjálfs hér í borginni sem landsmenn hafa verið talsvert uppteknir af að undanförnu. Þau mál eru svo stórfengleg að sukkmet Sjálfstfl. frá því í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er jafnvel í hættu.
    Herra forseti. Ég lýk þá máli mínu með því að ítreka það að við ætlum ekki að leggjast gegn afgreiðslu þessa frv. en við höfum þennan fyrirvara á vegna þessa málflutnings sem í því hefur falist af hálfu hæstv. forsrh. Ég get einnig tekið undir það að að sjálfsögðu hefði verið ánægjulegt að sjá að hæstv. ríkisstjórn hefði haft eitthvað meira fram að færa í þessum efnum en þessa einu litlu breytingu. Ástæða er til að spyrjast fyrir um í leiðinni hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér varðandi heildarendurskoðun þessara mála.