Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 11:12:00 (2818)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég skal vera stuttorður að vanda. Hæstv. forsrh. gerði ráðningu aðstoðarforstjóra að umræðuefni. Það mál sneri þannig að sjóðstjórnin ákvað að þörf væri á aðstoðarforstjóra, m.a. vegna þess að sá sem hefur verið í því starfi er farinn að eldast og ætlar að fara að draga sig í hlé. Ég gerði engar athugasemdir við það. Það er alveg hárrétt. Hins vegar var ég því fullkomlega samþykkur að fresta þeirri ráðningu fram yfir kjörtímabilið því það var orðið svo á það liðið. Mér fannst eðlilegt að ný ríkisstjórn tæki þá ákvörðun um það. Ég er nefnilega ekki eins röskur í þessum ráðningarmálum og hæstv. forsrh. sem er búinn að hreinsa út úr forsrn. á örfáum vikum og hefur þar stofnað til held ég ótrúlegra vandræða þegar til framtíðar er litið. Slíkt er ekki til eftirbreytni.
    Varðandi það sem hæstv. forsrh. sagði um Vilhjálm Lúðvíksson, þann ágæta mann. Dr. Vilhjálmur Lúðvíksson er að tala um allt aðra hluti en ég var að tala um áðan. Hann er að tala um rannsóknirnar sem að baki þurfa að liggja. Ég tek undir það með Vilhjálmi Lúðvíkssyni, að ekki bara í þessari grein heldur í fjöldamörgum öðrum vanrækjum við nauðsynlegar rannsóknir. Að vísu var, m.a. fyrir mitt tilstilli, komið á fót rannsóknarsjóði 1984 og hann hefur síðan lánað verulega eða veitt styrki réttara sagt til fiskeldis og bætt lítillega úr en hvergi nærri nóg. Það er hárrétt að þar var pottur brotinn.
    Ég var að tala áðan um markaðinn, sölumöguleikana og um spárnar sem að því sneru. Þessar spár voru ekki um rannsóknirnar. Vitanlega hefur í sumum tilfellum gengið ágætlega þrátt fyrir að skort hafi rannsóknir. En ég er ekki að draga úr því að rannsóknirnar þurfi að vera meiri, bæði á þessu sviði og fjölmörgum öðrum.