Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 14:08:00 (2831)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Frú forseti. Ég vil þakka fyrrv. hæstv. sjútvrh. fyrir umhyggju hans fyrir heilbrigði heilbrrh. Ég sé að þetta undarlega veðurfar sem nú ríkir hér á suðvesturhorninu er hlaupið í hv. 1. þm. Austurl. Hann rennur skeiðið eins og lambhrútur á vori og æskir þess að sumarið væri komið svo við gætum þá saman fengið meiri tíma til þess að kanna þetta mál.
    Nú er það eigi að síður svo þótt margt hafi komið gott fram í máli þingmannsins þá ríkti ekki heiðríkja vorsins yfir öllu því sem hann sagði þó vissulega væri bjart yfir sumu. Til að mynda finnst mér örla á misskilningi hjá honum varðandi þær breytingar á Hagræðingarsjóðnum sem fyrirhugað er að gera og varða mátt sjóðsins til þess að úrelda skip. Það er nefnilega ekki svo að með þessu frv., ef að lögum verður, sé verið að svipta sjóðinn möguleikum til þess. Staðreyndin er sú, hv. þm., að í dag hefur sjóðurinn 600 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni. Honum eru jafnframt markaðir tekjustofnar sem munu gera það að verkum að árlega falla til þessa verks 80 millj. kr. Og hvað þýðir það? Það þýðir, hv. þingheimur, að á næstu fimm árum verður kleift að úrelda 20 stór skip miðað við hámark 50 millj. kr. til hvers skips eins og lögin munu segja til um. Það er ekki svo lítið. Þetta vil ég undirstrika og leiðrétta þennan misskilning og vona svo að vornáttúran hlaupi ekki alveg með þennan hv. þm. í gönur.