Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 14:10:00 (2832)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég veit ekki mörg dæmi þess að vornáttúran hafi hlaupið með marga í gönur en ég get vel skilið að þingflokksformaður Alþfl. óski ekki neitt sérstaklega eftir vorkomunni um þessar mundir því að ég heyri það að honum líður heldur illa um þessar mundir í þingsölum og er sjálfsagt ekki neitt vor í huga.
    Ég vildi aðeins upplýsa hv. þm. um það að hér er ekki um misskilning að ræða. Það sem eftir stendur eru nánast nákvæmlega sömu tekjur og Aldurslagasjóðurinn hafði, þ.e. að ekkert nýtt, engar nýjar ráðstafanir koma fram til úreldingar skipa nema að það verður heimilt að eyða peningunum fyrr. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn lagt mikið upp úr því að fara ekki illa með sjóði. Ég tel það rétt að eyða peningunum fyrr til þess að ná meiri árangri en þessi sjóður mun hafa sáralitlar tekjur í framtíðinni og mun þess vegna gagna lítið í þessu skyni þegar sjóðurinn hefur verið notaður.
    Ef ég man rétt, hv. þm., þá minnir mig að tekjur sjóðsins verði u.þ.b. 80 milljónir á ári. Það er því miður ekki mikið hægt að gera fyrir 80 milljónir á ári þegar um úreldingu fiskiskipaflotans er að ræða. Það eru staðreyndir málsins, hv. þm., og því enginn misskilningur.