Lánsfjárlög 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 14:13:00 (2833)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Á síðasta fundi Alþingis þegar þetta frv. var til umræðu kvaddi sér hljóðs hæstv. forsrh. og sá ástæðu til þess að setja sérstaklega ofan í við hæstv. menntmrh. Það gerðist með þeim hætti að hæstv. menntmrh. hafði látið þau boð út ganga að samdrátturinn í skólakerfinu á árinu 1992 yrði framkvæmdur að hálfu leyti í haust og að hálfu leyti eftir áramót. Eins og fram kemur í viðtali við hæstv. menntmrh., sem birt er sem fskj. með nál. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, telur hæstv. menntmrh. að það sé of stór biti að kyngja, eins og hann orðar það

sjálfur, að taka allan niðurskurðinn á síðari hluta ársins 1992. Hins vegar sá hæstv. forsrh. ástæðu til þess að mótmæla þessu og sagði að það hefðu engar ákvarðanir verið teknar um það að niðurskurðurinn kæmi til framkvæmda eða næði inn á árið 1993. Með öðrum orðum ítrekar hann að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að allur niðurskurður t.d. í menntamálum og heilbrigðismálum eigi að koma til framkvæmda á árinu 1992.
    Þarf það út af fyrir sig ekki að vera frétt miðað við þær forsendur sem lánsfjárlagafrv. byggir á. Hins vegar er það alveg augljóst mál og ég þori að fullyrða að ekki muni takast að ná þessum niðurskurði öllum í menntamálum á árinu 1992 né heldur í heilbrigðismálum. Það liggur reyndar þegar fyrir, hæstv. fjmrh., að stjórnarmeirihlutinn hefur tekið ákvarðanir sem munu draga úr þeim sparnaði sem lánsfjárlagafrv. byggir á. Ég ætla að nefna eitt lítið dæmi en í lánsfjárlagafrv. er gert ráð fyrir því --- eins og í fjárlögunum --- að sparnaður vegna lækkunar á ellilífeyri verði 260 millj. kr. á þessu ári. Nú liggur þegar fyrir að sá sparnaður næst ekki. Í fyrsta lagi næst hann ekki af tæknilegum ástæðum, þ.e. þeim að ekki er hægt að framkvæma hann fyrr en frá og með 1. mars. Þar með detta út 2 / 12 eða 1 / 6 af þeim fyrirhugaða sparnaði sem þarna var um að ræða að því er varðar ellilífeyrinn sérstaklega.
    En í öðru lagi er viðbúið að það detti út talsverður hlutur af skerðingunni af pólitískum ástæðum. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn Sjálfstfl., sem eru í forustu í sjómannasamtökunum, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, muni styðja þessa skerðingu á ellilífeyri af því að hún bitnar sérstaklega á sjómönnum. En það munu vera um 500 sjómenn sem annaðhvort missa alveg eða að nær öllu leyti ellilífeyrinn samkvæmt þeim ákvæðum sem þarna er um að ræða. Með öðrum orðum þegar þetta er tvennt lagt saman liggur þegar fyrir að ellilífeyrissparnaðurinn mun ekki skila nema kannski helmingnum af þeirri tölu sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert ráð fyrir og þar af leiðandi er lántökutalan í lánsfjárlagafrv. of lág.
    Virðulegi forseti, ég held að það sé líka nauðsynlegt í þessu sambandi að átta sig aðeins á því hvað það þýðir að allur niðurskurðurinn í menntamálunum komi fram núna á þessu ári, 1992, Hvað þýðir það? Það þýðir t.d., virðulegi forseti, að leggja niður alla grunnskólakennslu á nokkrum tiltölulega stórum þéttbýlisstöðum víðs vegar um landið. T.d. að leggja niður alla grunnskólakennslu á þessum stöðum: Akranesi, Bolungarvík, Sauðárkróki, Siglufirði, Húsavík, Eskifirði, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og Grindavík. Þetta jafngildir því. Eða að kennslustundum í íslensku verði fækkað næsta haust um helming ef menn vilja frekar skoða hlutina þannig. Eða t.d. að öll tungumálakennsla í grunnskólum verði felld niður. Það má líka útfæra þetta, virðulegi forseti, með öðrum hætti eftir fræðsluumdæmum þar sem mjög fróðlegir hlutir koma í ljós. Hér er um að ræða samdrátt sem nemur á haustönn um 260 stöðugildum. Ef við tökum Reykjavík sem dæmi, kjördæmi okkar hæstv. fjmrh., þá samsvarar þetta því að leggja niður 72 stöðugildi grunnskólakennara í Reykjavík. Eða, ef menn vilja orða það þannig, samsvarar því að loka Hólabrekkuskóla og Hlíðaskóla, sem ég veit að hæstv. fjmrh. þekkir til í og hóf sín störf sem kennari og unglingafræðari hér fyrr á öldinni. 72 stöðugildi í Reykjavík.
    Þarna er auðvitað ekki bara um það að ræða að menn verði að draga saman nýráðningar. Hérna er væntanlega um það að ræða að menn yrðu að segja upp fjölda kennara.
    Ef við tökum Reykjaneskjördæmi, kjördæmi hæstv. forseta Alþingis, samsvarar þetta því að það yrðu lagðar niður 58 stöður í kjördæmi forseta Alþingis og hæstv. menntmrh. Og það samsvarar t.d. lokun Lækjarskóla í Hafnarfirði, Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og Grunnskóla Sandgerðis, svo ég nefni þrjá skóla.
    Tökum Vesturland sem dæmi. Þar myndi verða nauðsynlegt að leggja niður 20 stöðugildi kennara og það samsvarar því að loka alveg Grunnskóla Eyrarsveitar, Grundarfirði og Laugaskóla í Dalasýslu, þ.e. að leggja svo að segja niður alla skólastarfsemi í því byggðarlagi.
    Og ef við tökum Vestfirði, þar sem eru nær eingöngu litlir skólar, aðeins tveir skólar sem flokkast til miðlungsskóla eða stærri, þá eru þetta 14 stöðugildi á Vestfjörðum sem menn eru að tala um. Ég geri ráð fyrir, eftir minni, að það jafngildi nokkurn veginn því

að leggja t.d. niður alla grunnskólastarfsemi í Strandasýslu, í öllum skólunum sem þar eru, sem eru fjórir eða fimm, eða þá, ef við tökum stærri skóla, að leggja alveg niður og loka grunnskólunum á Bíldudal og Þingeyri. Nú eða Flateyri, ef menn vilja, það eru svipað stórir skólar á Flateyri og Þingeyri, og væri kannski fróðlegt fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að hafa það með í för þegar hann kemur til Flateyrar, að til viðbótar við annað þá eigi samkvæmt þessum tillögum að loka skólanum þar strax í haust.
    Ef við tökum Norðurland vestra er um að ræða 16 stöðugildi og það samsvarar t.d. lokun Laugabakkaskóla í Miðfirði og grunnskólans á Hofsósi. Ég veit ekki hvort t.d. hv. þm. Pálmi Jónsson hefur sérstaklega áttað sig á því að þetta samsvarar því að leggja niður tvo skóla í hans kjördæmi þar af einn mjög stóran skóla í Húnaþingi, sem hv. þm. að sögn þykir alveg sérstaklega vænt um.
    Ef við tökum Norðurland eystra og athugum hvað þetta þýðir þar þá jafngildir þessi ákvörðun því að leggja niður 32 stöðugildi í Norðurlandskjördæmi eystra. Það samsvarar lokun Oddeyrarskóla á Akureyri og Barnaskóla Húsavíkur líka.
    Ef við tökum Austurland sem dæmi í þessu sambandi jafngildir þessi ákvörðun því að leggja niður 19 stöðugildi á Austurlandi, sem samsvarar lokun grunnskólanna á Seyðisfirði og á Stöðvarfirði.
    Ef við tökum Suðurland sem dæmi í þessu sambandi þá jafngildir ákvörðunin því að leggja niður 27 stöðugildi, sem samsvarar lokun grunnskólanna á Hellu og í Vík og Flúðaskóla líka.
    Svona er þetta. Í raun og veru er þetta þannig að verið er að tala um að leggja niður sem samsvarar skólastarfi í öllum þessum skólum sem ég taldi hér upp. Mér finnst satt að segja, hæstv. forseti, að þegar menn eru að tala um sparnað, hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu eða t.d. í skólakerfinu, þá tali menn alltaf um þessa hluti eins og um sé að ræða dauðar, tilfinningalausar stofnanir, steinkassa sem þurfi ekkert að hugsa um og þar fari mest fram óþarfi. Þegar menn tala um sparnað í heilbrigðiskerfinu tala menn gjarnan rétt eins og þarna sé ekki verið að gera neitt gagn og engu máli skipti þó að t.d. sé lokað öldrunarlækningadeild í Hátúni, eða Landakotsspítala.
    Staðreyndin er sú, ef við lítum t.d. á niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu, að þegar hefur verið tekin ákvörðun um að leggja Landakotsspítala niður. Vegna þess að sá niðurskurður sem um er að ræða á spítölum samsvarar því að Landakotsspítalinn hefði verið lagður niður. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að þessi niðurskurðaráform munu ekki ná fram að ganga vegna þess að það er ekki hægt. Þótt ekki sé nema vegna þess að þjóðin á eitthvað pínulítið eftir af réttlætiskennd og lætur ekki bjóða sér niðurskurð af þessu tagi.
    Ef við tökum framhaldsskólana í þessu sambandi og skoðum hvað þetta þýðir þar þá jafngildir niðurskurðurinn því að lögð yrðu niður 140--150 stöðugildi framhaldsskólakennara. Það jafngildir t.d. því að Iðnskólinn í Reykjavík yrði lagður niður allur eða allir menntaskólar utan Reykjavíkur og Kvennaskólinn að auki, svo ég nefni dæmi. Eða að Menntaskólinn við Sund og Menntaskólinn við Hamrahlíð tækju ekki til starfa næsta haust. Enda er nú svo komið að hæstv. menntmrh. er að ræða um möguleika á því að mér skilst að ,,túlka`` framhaldsskólalögin þannig að það sé hægt að loka framhaldsskólunum í haust fyrir nemendum sem þar eiga rétt samkvæmt framhaldsskólalögunum eins og þau hafa verið túlkuð til þessa.
    Þetta sýnist mér að þýði það, virðulegi forseti, að það sé augljóst mál að lánsfjárlögin, sem eru auðvitað ein meginlöggjöf efnahagsstjórnarinnar á Íslandi, standast ekki ef þau verða samþykkt svona eins og frv. liggur fyrir. Þess vegna er auðvitað langeðlilegast að þessu frv. verði frestað þangað til menn eru búnir að sjá fyrir endann á öðrum þáttum, bæði í sparnaði í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og í menntakerfinu svo ég nefni dæmi.
    En af hverju, virðulegi forseti, eru menn að skera niður? Er það vegna þess að hæstv. menntmrh. sé t.d. verr innrættur en aðrir menn? Ég þykist vita að svo sé ekki. Ég þykist vita að hann hafi ekkert sérstaklega gaman af þessum niðurskurði, ég er reyndar alveg handviss um það. Og ég held hið sama megi jafnvel segja um hæstv. heilbrrh., ég

sagði jafnvel.
    Nei, þessir tveir hæstv. ráðherrar og hæstv. fjmrh. telja að um svo alvarlegan vanda í efnahagslífinu sé að ræða að honum verði best mætt með því að skera niður samneysluna. En hvað er hér á ferðinni? Eru það eldgos? Meiri háttar jarðskjálftar eða meiri háttar óáran af því tagi? Svarið er nei. Hvað er að gerast? Hver er réttlætingin fyrir öllum þessum niðurskurði? Hún er samdráttur í hagkerfinu. Hver er sá samdráttur? Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar, frá 9. jan. sl. hygg ég, er gert ráð fyrir því að samdrátturinn í hagkerfinu verði í kringum 17, 18, 19 milljarðar kr. lækkun þjóðartekna frá því sem ella hefði verið, ef ég hef lesið þessa tölu rétt.
    Eftir að þessi spá var gerð eru komnar nýjar upplýsingar sem sýna fram á að ekki verður um svo mikinn samdrátt að ræða. T.d. er núna gert ráð fyrir því að loðnustofninn sé að styrkjast. Verið er að tala um að auka heimildir á rækju og að olían sé að lækka í verði og allt þetta geri bata í þjóðarbúinu upp á 4--6 milljarða kr. Með öðrum orðum, á aðeins örfáum dögum, tíu dögum eða svo, frá því að spá Þjóðhagsstofnunar er gefin út og til dagsins í dag er um þriðjungur farinn út af þessu svartagallsrausi sem er undirstaðan undir niðurskurði heilbrigðis- og menntamála sem hér er verið að ræða um.
    Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Er ekki ástæða til þess að endurskoða þessa hluti af tveimur ástæðum? Í fyrsta lagi þeirri að þetta er ekki tæknilega framkvæmanlegt svona. Það getur vel verið að hægt sé að ná einhverjum sparnaði á lengri tíma en þetta er útilokað í ár. En í öðru lagi af þeirri ástæðu að efnahagshorfur þjóðarbúsins eru ekki nærri eins slæmar og ríkisstjórnin byggir tillögur sínar á. Þannig að á aðeins 10 dögum hafa þær verið að hreyfast til um þriðjung. Hér er auðvitað um gríðarlega mikil tíðindi að ræða og ég vil segja við hæstv. menntmrh.: Hann á auðvitað að nota sér þessi tíðindi til að verja skóla- og menningarkerfið í landinu fyrir þeim niðurskurði sem um er að ræða. Engin ástæða er til af efnahagslegum ástæðum, út frá þrengsta sjónarhorni séð, að ganga svona hart fram. Fyrir utan það, virðulegi forseti, að atlaga að skólakerfinu af þessu tagi er auðvitað atlaga að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar. Það er verið að veikja efnahagsgrundvöllinn. Það er verið að veikja þjóðartekjurnar á komandi árum og áratugum með þeirri stöðnun sem liggur fyrir í skólakerfinu í heild og afturför, hvort sem um er að ræða leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, endurmentun eða rannsóknir. Með þessari almennu veikingu á menntakerfinu er verið að veikja hinn efnahagslega tilverugrundvöll þjóðarinnar á komandi árum. Þannig að hvort sem menn líta til skemmri eða lengri tíma er augljóst að hér er um rangar áherslur að ræða.
    Virðulegi forseti. Í þessu sambandi má kannski benda á að með öðrum þjóðum sem hafa staðið frammi fyrir miklum vanda, eins og t.d. Finnum, hafa menn tekið ákvörðun um að hlífa einum þætti alveg en það eru menntamál, það eru skólarnir og það eru rannsóknir, vísindi og þróun. Ég skora á hæstv. menntmrh. að horfa á hlutina út frá þessu sjónarhorni miklu frekar en hinum þrönga vinkli fjmrh. sem botnar greinilega ekkert í skólamálum þrátt fyrir kennarareynslu ráðherrans.
    En ástæðan fyrir því að mér finnst nauðsynlegt að staldra hér við, virðulegi forseti, er ekki aðeins sú sem nú hefur verið rakin. Heldur líka sú að 19. nóv. sl. fór fram svokallaður óundirbúinn fyrirspurnatími á Alþingi, fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa. Og 19. nóv. sl. lagði ég fyrir hæstv. forsrh. þessa spurningu: Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi tillögur um efnahagsráðstafanir? Þá átti ég að sjálfsögðu við ráðstafanir í efnhags- og atvinnumálum, sem þá þegar var ljóst að óhjákvæmilegt yrði að grípa til. Hverju svaraði hæstv. forsrh.? Hann sagði, með leyfi forseta: ,,Ég á von á því að tillögur verði lagðar fyrir ríkisstjórn í næstu viku.``
    Næsta vika samkvæmt þessu er 25. nóv. eða svo. Áður en umræðunni um lánsfjárlögin lýkur held ég að óhjákvæmilegt sé að fá upplýsingar um það hvenær þær tillögur um ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum koma sem hæstv. forsrh. lofaði að leggja til umræðu inn á Alþingi síðustu vikuna í nóvember. ( Gripið fram í: Hvar er forsrh.?) Ja, hann er nú að vísu ekki hér en fjmrh. var hérna. Hann heyrir stundum aðeins betur, en nú er hann hlaupinn líka. Ég held ég leggi ekki á hæstv. menntmrh. að glíma við þetta, hann

hefur nóg. Þannig að ég bíð bara, hæstv. forseti, er það ekki í lagi? Þangað til að t.d. fjmrh. kemur. ( Forseti: Forseti hefur hugsað sér að fresta umræðunni þegar hv. þm. hefur lokið máli sínu þannig að væntanlega gefst þá tækifæri fyrir hæstv. ráðherra að svara hv. þm. síðar.) Mér þætti vænt um að vita, hæstv. forseti, hvað ætlunin er að taka fyrir þegar þessu er lokið. ( Forseti: Það eru ríkisfjármálin, hv. þm.) Já, já.
     Satt að segja finnst mér hallærislegt að vera að halda hérna dálitla ræðu því ég hef ekki verið að endurtaka mikið af því sem menn hafa verið með í þessum umræðum. Ég hef t.d. einn manna fjallað um þær efnahagsráðstafanir sem ríkisstjórnin ætlaði að gera 25. nóv. Dálítið skrýtið að geta ekki skapað svigrúm fyrir t.d. hæstv. fjmrh. til að svara því hvenær þessar efnahagsráðstafanir koma, sem hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. lofaði seint í nóvembermánuði. Ég vil því leyfa mér, upp á gamlan kunningsskap, að leggja inn gott orð fyrir hæstv. fjmrh. um að hann fengi að svara mér hvort þessar tillögur hafi legið í ríkisstjórninni síðan 25. nóv. Vegna þess að hæstv. forsrh. segir: ,,Ég á von á því að tillögur verði lagðar fyrir ríkisstjórn í næstu viku.`` Það getur auðvitað vel verið að tillögurnar hafi legið fyrir í ríkisstjórninni síðan 25. nóv. og menn hafi ekki þorað að fara með þær út. En greinilegt er að við sem hér erum og þjóðin höfum ekkert frétt af því að það væru að koma efnahagsráðstafanir af neinu tagi.
    Ég held líka, virðulegi forseti, úr því að svona stendur á sé óhjákvæmilegt að horfa á alla þessa hluti í víðu samhengi og velta því fyrir sér, með hliðsjón af frv. og öðrum sem verið er að ræða um þessar mundir um efnahagsstjórn á Íslandi, í hvers lags þjóðfélagi við viljum búa. Hvers konar Ísland viljum við eiga? Hvaða tegund af Íslandi er það sem við viljum eiga?
    Oft kemur góður þá getið er og frekar tveir en einn. ( Fjmrh.: Ég er búinn að vera við allan tímann.) Það er nefnilega það, hljópst bara aðeins fram í símann og svona. Svo er forsrh. kominn líka og ég ætla að spyrja, hæstv. forsrh., og þakka fyrir þá virðingu sem mér sýnd. Á síðasta ári, 19. nóv. 1991, lagði ég fyrir forsrh. þá fsp. hvenær tillagna um ráðstafanir í efnahagsmálum væri að vænta. Og hæstv. forsrh. komst þá þannig að orði, orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ég á von á því að tillögur verði lagðar fyrir ríkisstjórn í næstu viku.``
    Nú veit ég að margt sem gerist í ríkisstjórninni er farið með sem trúnaðarmál og ekki verið að flíka því mikið, sérstaklega ekki gagnvart þinginu fyrr en menn eru búnir að lenda hlutunum. En fróðlegt væri að vita hvar þessar tillögur eru og hvenær þess er að vænta að ríkisstjórnin geri tillögur um ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. forsrh. 18. nóv. sl. Hefur verið fjallað um þetta í þingflokkunum? Ég held að mikilvægt sé að fá þetta fram vegna kjarasamninganna. Vegna þess að um það leyti sem ég spurði hæstv. forsrh., það rifjast upp fyrir mér núna, þá birtust fréttir um að forusta Alþýðusambands Íslands hefði ákveðið að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina. Þær viðræður hafa ekki enn farið fram eins og kunnugt er, eða að ég best veit.
    En síðan gerist það núna að Alþýðusamband Íslands er að leggja fram . . .  ( Forsrh.: Þær áttu sér stað fljótlega á eftir.) Já, á sínum tíma. Og síðan er Alþýðusambandið á nýjan leik að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina (Gripið fram í.) sem fóru fram í gær. Þannig að þetta er allt á réttu róli og þá hefði ég, a.m.k. fyrir mína hönd, viljað spyrja: Hvar eru tillögurnar um ráðstafanir í efnahagsmálum?