Lánsfjárlög 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 14:36:00 (2834)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Það kemur mér nú á óvart að það hafi farið fram hjá þingmanninum að fjárlög voru afgreidd laust fyrir jól. Fjárlög eru kannski þýðingarmesta efnahagstæki ríkisins og í fjárlögum var auðvitað mörkuð stefna sem ágreiningur var um í þinginu eins og fram hefur komið. Sumir vilja hafa verulegan fjárlagahalla en aðrir ekki. Ég held að flestir séu samdóma um að engin ein efnahagsaðgerð er öruggari og markvissari til þess að tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu og tryggja farsælan grundvöll undir kjarasamninga en einmitt afgreiðsla fjárlaga og sú afgreiðsla sem nú stendur yfir á lánsfjárlögum.

    En óformlegar viðræður og formlegar hafa átt sér stað, eftir því sem óskað hefur verið eftir, við fulltrúa launþega, Alþýðusambandsins sérstaklega, og formanna landssamtaka skömmu eftir þær dagsetningar, hygg ég, sem hv. þm. nefndi. Þannig að allt hefur þetta átt sér stað. Eins og þingmaðurinn veit hefur til viðbótar verið gengið frá skuldbreytingum í Hagræðingarsjóði, hjá Fiskveiðasjóði, og inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð hafa verið stöðvaðar og fleiri slíkir aukaþættir hafa verið framkvæmdir. Þannig eru allir þessir þættir samanlagt sú efnahagsaðgerð og efnahagsstefna sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Og þetta hefur í svip a.m.k. stuðlað að því að verðbólga er lægri hér en hún hefur nokkru sinni verið og grundvöllur til þess að hún verði á lægstu nótum sem mun gerast í Evrópu og í viðskiptalöndum okkar á hinu nýbyrjaða ári. Þannig að ég á ekki von á því að þetta hafi farið fram hjá hv. þm., sem ég veit að er glöggur maður og fylgist vel með.